Jólatívolíið í Köben toppar sig í ár

Þegar jólamarkaður var opnaður í tívolígarðinum í Kaupmannahöfn fyrir 25 …
Þegar jólamarkaður var opnaður í tívolígarðinum í Kaupmannahöfn fyrir 25 árum höfðu ekki allir trú á hugmyndinni. Jólatívolíið var hins vegar fljótt að festa sig í sessi og er nú orðið ómissandi hluti af jólunum í borginni. Tivoli/Christoffer Sandager

Jólatívolíið í Kaupmannahöfn opnaði dyrnar 16. nóvember, glæsilegra en nokkru sinni fyrr. Tívolíið fagnar 25 ára afmæli í ár og af því tilefni verður mikið um dýrðir. Tívolíið mun skarta sínu fegursta frá 16. nóvember til 5. janúar og að venju ríkir jólastemming í tívolíinu á þessum árstíma. Búið er að skreyta tívolíið hátt og lágt með hvorki meira né minna en 80 þúsund jólakúlum og kveikja á 35.000 ljósperum á jólatrénu fyrir framan konsertsalinn.

Ekki mikil trú á jólatívolí í byrjun

Jólatívolíið er sannarlega orðinn ómissandi hluti af hátíðarhöldunum í Kaupmannahöfn en fyrir 25 árum þegar ákveðið var að opna tívolígarðinn í fyrsta sinn á þessum árstíma og setja þar upp jólamarkað höfðu ekki allir trú á því að það myndi ganga. Tívolí væri fyrst og fremst upplifun fyrir heita sumardaga. Efasemdaraddirnar höfðu hins vegar rangt fyrir sér því alls heimsóttu 423.000 gestir jólamarkaðinn. Árið 1997 urðu stórar breytingar á jólatívolíinu. Allur tívolígarðurinn var þá opnaður og lýstur upp á alveg nýjan hátt. Árið 1998 kom skautasvell í garðinn og þá var orðið deginum ljósara að jólatívolíið var komið til að vera.   

Jólatívolíið í Kaupmannahöfn er alltaf glæsilegt en í ár toppar …
Jólatívolíið í Kaupmannahöfn er alltaf glæsilegt en í ár toppar það sig svo um munar, m.a. með jólatré með kristöllum sem metnir eru á 18 milljónir íslenskra króna. Tivoli/ Christoffer Sandager

Rándýrt jólatré og nýr rússíbani

Jólamarkaðurinn verður að sjálfsögðu á sínum stað í ár ásamt öðrum föstum liðum í jólatívolíinu eins og jólaglögg og heitum eplaskífum. Eins og alltaf eru þó líka einhverjar  nýjungar sem gleðja gesti. Til að mynda geta gestir jólatívolísins upplifað jólatré sem er það flottasta í sögu tívolísins en það er skreytt með 3.000 Swarovski-kristöllum. Skreytingin er metin á um 18 milljónir íslenskra króna og tók það starfsmenn tívolísins 10 daga að skreyta tréð. Þann 6. desember opnar svo nýr rússíbani í tívolíinu sem fengið hefur nafnið „Mælkevejen“ en hann leysir af eldri rússibana „Odineexpressen“. Nýi rússíbaninn verður bæði hærri og hraðskreiðari en sá gamli en einnig hljóðlátari. Að sjálfsögðu verður einnig boðið upp á jólasýningarnar, meðal annars ballettsýningu eftir ævintýri H.C Andersen með um 40 ballettdönsurum auk fjölda barna sem dansa við lifandi tónlist. Maginn fer heldur ekki ósáttur frá jólatívolíinu því freistingarnar eru margar. Hin klassíska „flæskestegs“-samloka er á sínum stað en það sem er öðruvísi við hana í ár er að tívolíið ræktar sjálft rauðkálið sem notað er í samlokurnar. 

Frá undirbúningi opnunarinnar.
Frá undirbúningi opnunarinnar. Tivoli/Christoffer Sandager
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert