Gekk yfir Bandaríkin í minningu föður síns

Hár og skegg Posners óx og óx á göngunni.
Hár og skegg Posners óx og óx á göngunni. Skjáskot/Instagram

Tónlistarmaðurinn Mike Posner gekk Bandaríkin þver og endilöng í minningu föður síns sem lést úr krabbameini fyrir tveimur árum.

Posner er hvað þekktastur fyrir lagið sitt „I Took A Pill in Ibiza“ sem vinsælt var sumarið 2016. Í kjölfar andlát föður síns sneri Posner blaðinu við og hætti að drekka og neyta eiturlyfja.

Þann 15. apríl síðastliðinn lagði Posner í hann á tveimur jafnfljótum frá Ashbury Park í New Jersey og stoppaði ekki fyrr en hann kom að Kyrrahafinu í vestri, sex mánuðum síðar.

„Ég labbaði til þess að verða einhver sem ég get verið stoltur af,“ sagði Posner í viðtali við BBC.

„Áður en ég lagði af stað grunaði mig að ég ætti litlar birgðir af hæfileikum eftir. En ég hafði rangt fyrir mér, það býr hellingur af hæfileikum í mér.“

Posner skrásetti göngu sína og brot af henni má sjá í tónlistarmyndbandinu með nýja laginu hans, Live Before I Die, sem hann framleiddi ásamt breska pródúsentinum Naugthy Boy.

Sem fyrr segir tók það Posner 6 mánuði að ganga yfir Bandaríkin, en það eru 4.588 kílómetrar. Hann vaknaði klukkan 4 á morgnana og suma daga gekk hann allt að 48 kílómetra.

Á göngu sinni var hann bitinn af skröltormi og var fluttur með þyrlu á sjúkrahús í Colorado. Þremur vikum seinna hélt hann af stað þaðan sem frá var horfið.

Eftir um þriggja mánaða göngu tókst hann á við sína stærstu áskorun þar sem flóð í Missouri-ríki neyddu hann til þess að leggja lykkju á leið sína. Hann þurfti að ganga í ranga átt í tvo daga til að komast yfir til Kansas-ríkis.

„Ég sagði sjálfum mér stöðugt að ég þyrfti bara að komast til Kansas. Og það gekk vel, þangað til ég kom til Kansas. Þá hafði ég búið það til í höfðinu á mér að þar væri áfangastaðurinn svo heilinn minn hélt að ég væri búinn í Kansas, þegar ég var í raun ekki hálfnaður,“ sagði Posner.

Hugmyndin um að vakna næsta dag og halda áfram tók sinn toll af andlegri og líkamlegri heilsu. Hann ákvað því að breyta hugarfarinu og hugsaði um hvert ríki sem stuttan viðkomustað, ekki lokaáfangastað.

Skegg hans óx og líkami hans styrktist á göngunni. Hann fór að hafa óþol fyrir borgum og úthverfum og fannst miklu betra að vera undir stjörnuhimninum í eyðimörkinni í Nevada og Colorado.

Hann segir að besti hluti ferðarinnar hafi verið 10 daga tímabil þar sem hann gekk í gegnum landsvæði Navajo-þjóðflokksins í Arizona, Utah og New Mexico. Hann segir að fólk þar hafi sýnt honum mikla samkennd og velvild.

Á göngunni samdi hann tónlist og gaf út lag í hvert skipti sem hann fór yfir ríkjamörk. Þegar hann kom á áfangastað sinn í vestri gaf hann út „mixtape“ sem ber nafnið „Keep Going“.

Þann 18. október síðastliðinn kom Posner að Venice-strönd í Kaliforníu og stakk sér í Kyrrahafið umkringdur aðdáendum og stuðningsmönnum. Daginn eftir vaknaði hann svo klukkan fjögur að morgni til og fór í hnefaleikatíma.

Síðan ferð hans yfir Bandaríkin lauk hefur hann ekki setið auðum höndum og hefur gengið á tvo tinda, Mount Hood í Oregon og Mount Adams í Washington-ríki.

Aðspurður hvað taki við næst sagði Posner að hann væri með fjölda hugmynda og væri að velja úr hvað hann ætlaði sér að gera næst.

View this post on Instagram

A post shared by Mike Posner (@mikeposner) on Oct 19, 2019 at 10:20am PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert