Hvað þýðir appelsínugult fyrir ferðalög landsmanna?

Marga Íslendinga þyrstir í ferðalög.
Marga Íslendinga þyrstir í ferðalög. AFP

Margir Íslendingar slógu til eftir að samkomutakmörkunum var aflétt hérlendis í júní og keyptu sér flugmiða til útlanda. Mánuði síðar er staðan hins vegar orðin önnur og Ísland nú orðið appelsínugult á korti sótt­varna­stofn­un­ar Evr­ópu sem var uppfært í dag. En hvað þýðir það fyrir ferðalög á helstu áfangastaði Íslendinga?

Bretland

Við ferðalög til Bretlands þarf fólk að sýna fram á neikvætt Covid-próf sem er innan við 72 klst. gamalt. Frá og með mánudeginum 2. ágúst þarf ferðalangur sem er bólusettur eða hefur verið útsettur fyrir smiti að sýna fram á vottorð og neikvætt próf við komuna til landsins ásamt því að taka PCR-próf á öðrum degi komuna til Bretlands.

Fyrir þann tíma þurfa allir að fara í að minnsta kosti átta daga sóttkví þar sem eru tekin sýni á öðrum og áttunda degi. Sú regla mun áfram gilda fyrir óbólusetta. Sjá á vefnum gov.uk.

Uppfært: Ísland er enn á grænum lista í Bretlandi, enda er þar ekki notast við sömu litaflokkun og sóttvarnarstofnun Evrópu. Búast má við því að næsta uppfærsla Breta verði um miðja næstu viku.

Danmörk

Danir skipta litakóðuninni í fernt og uppfæra listann á sunnudögum. Síðasta sunnudag var Ísland flokkað sem grænt og landsmenn þurfa því einungis að sýna fram á bólusetningarvottorð, vottorð um fyrri sýkingu eða neikvætt Covid-próf við komuna til Danmerkur. Þetta gæti þó breyst á næstu dögum. Sjá á vefnum coronasmitte.dk.

Frakkland

Bólusettir þurfa einungis að sýna bólusetningarvottorð við komuna til Frakklands. Óbólusettir þurfa hins vegar að hafa mikilvæga ástæðu fyrir komunni til landsins, hafa neikvætt Covid-próf sem er innan við 72 klukkustunda gamalt og fara í sóttkví í sjö daga. Sjá frétt á vef the Connexion.

Ítalía

Á Ítalíu þarf að sýna bólusetningarvottorð, vottorð um fyrri sýkingu eða neikvætt Covid-próf við komuna til landsins. Sjá á vefnum italia.it.

Spánn

Á Spáni þarf einnig að sýna bólusetningarvottorð, vottorð um fyrri sýkingu eða neikvætt Covid-próf við komuna til landsins. Þá þarf að fylla út form á vefnum spth.gob.es.

Vert er að nefna að þegar landsmenn koma heim þurfa bólu­sett­ir, rétt eins og óbólu­sett­ir, að fram­vísa niður­stöðum úr Covid-prófi áður en þeir halda til lands­ins. Kort sótt­varna­stofn­un­ar Evr­ópu uppfærist einu sinni í viku og verður Ísland líklega orðið rautt í næstu viku vegna nýgengis smita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert