Fimm ferðaráð fyrir kvenkyns ferðalanga

Vél úr flota Wizz Air flugfélagsins.
Vél úr flota Wizz Air flugfélagsins. Ljósmynd/Wizz Air

Færst hefur í aukana að kvenkyns ferðalangar kjósi það frekar að ferðast einir um heiminn, án maka eða vinkvenna. Flugfélagið Wizz Air hefur tekið saman nokkur nytsamleg ferðaráð sérstaklega ætluð þeim sem ferðast einir en samkvæmt bókunarvélum flugfélagins hefur verið gríðarleg aukning á bókunum einsamalla kvenkyns ferðalanga undanfarið. 

Gerðu rannsókn á áfangastaðnum 

Gakktu úr skugga um að þú sért að fara á öruggan stað. Lestu umsagnir um staðinn jafnt sem hótelið eða dvalarstaðinn sem þú hyggst vera á. Gott er að hafa staðsetninguna á hreinu áður en þú mætir á staðinn til að tryggja það að öll helsta þjónusta sé á svæðinu sem og virkar almenningssamgöngur. 

Ekki missa þig í sparnaði

Þeir sem ferðast einir ættu ekki að hugsa einungis um það að spara. Það er ekki alltaf góð leið að hunsa umsagnir, öryggi og þægindi í þágu sparnaðar. En ef þú ert félagsvera og ætlar þér að leggja upp í bakpokaferðalag þar sem hugsa þarf um hverja krónu getur verið sniðugt að skoða farfuglaheimili sem bjóða upp á sameiginleg kynjaskipt svefnherbergi. 

Geymdu verðmæti á læstum stað

Það er ekkert eins leiðinlegt og þegar verðmætum manns er stolið. Það er því skynsamlegt að vera alltaf á varðbergi og hafa verðmæti inni í læstum öryggisskáp sem flestir dvalarstaðir bjóða upp á, sumir gegn gjaldi. Það veitir hugarró að vita til þess að maður geti yfirgefið dvalarstaðinn án þess að hafa áhyggjur af verðmætum sínum.

Láttu vini og fjölskyldu vita hvert leið þín liggur

Haltu ástvinum þínum upplýstum um ferðaplön þín. Þú þarft ekki að segja þeim allt í smáatriðum en það getur aukið öryggi þitt að láta einhvern nákominn þér vita gróflega hvert leið þín liggur. Það veitir ástvinum þínum líka ákveðið rólyndi að vita hvar á hnettinum þú ert svo þeir geti brugðist við og vitað hvert þeir geta leitað ef eitthvað kemur upp á eða ef það næst ekki í þig.

Ekki klæða þig eins og ferðamaður

Til þess að koma í veg fyrir að vekja sérstaka athygli á því að þú sért túristi, einn á ferð, þá er mælt með að þú reynir að klæða þá staðalímynd af þér. Reyndu að klæða þig í stíl við innfædda og láta lítið á þér bera til að forðast það að lenda í óhöppum eða óþægilegum aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert