Bjuggu meirihluta meðgöngunnar í húsbíl

Ferðaljósmyndarinn Ása Steinars eignaðist sitt fyrsta barn í byrjun árs …
Ferðaljósmyndarinn Ása Steinars eignaðist sitt fyrsta barn í byrjun árs með unnusta sínum, Leo Alsved. Litli drengurinn Atlas hefur nú þegar ferðast víða með foreldrum sínum og gerir Ása ráð fyrir flakki og ferðalögum í uppeldi sonar síns. Ljósmynd/Ása Steinars

Ferðaljósmyndarinn Ása Steinars eignaðist sitt fyrsta barn í byrjun árs með unnusta sínum, Leo Alsved. Litli drengurinn Atlas hefur nú þegar ferðast víða með foreldrum sínum og gerir Ása ráð fyrir flakki og ferðalögum í uppeldi sonar síns.

Fyrstu mánuðirnir hafa gengið rosalega vel. Mér fannst eiginlega fyrsti mánuðurinn mesta sjokkið. Mér fannst enginn undirbúa mann undir mómentið þar sem líf manns breytist á svipstundu og maður er allt í einu kominn með lítinn einstakling til að sjá um. Ég var hissa á því hvað það var fljótt að breytast úr því að vera mjög erfitt yfir í það að verða miklu auðveldara og bara hluti af nýju lífi,“ segir Ása um fyrstu mánuðina í móðurhlutverkinu.
Hamingjusöm í húsbílnum.
Hamingjusöm í húsbílnum. Ljósmynd/Ása Steinars

„Hann fór strax að sofa mun betur eftir fyrsta mánuðinn, varð meðfærilegri og við byrjuðum að kannast við okkur sjálf á ný. Einnig fór maður að tengjast honum betur og venjast nýja hlutverkinu. Lífið með ungbarn er alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt á hverjum degi. Hann er alltaf að taka breytingum, þannig að mér líður eins og ég sé alltaf að kynnast honum upp á nýtt. Það er ekkert smá skemmtilegt og mér finnst í raun magnað hversu margt gerist á þessu fyrsta ári í lífi þeirra. Ég er að reyna að njóta hvers dag með honum, því ég er strax farin að sakna hans þegar hann var bara pínu pons.

Að mörgu leyti finnst mér móðurhlutverkið auðveldara en ég bjóst við. Ég var aldrei nein barnagæla og var ekki viss hvernig þetta myndi leggjast í mig. Sérstaklega þar sem ég er vön því að vera mjög frjáls, sækja í ævintýri og vera alltaf á flakki. En Atlas hefur gefið mér nýja sýn á lífið og verið ný áskorun, sem mér finnst skemmtilegt.“

Parið er einstaklega náið og hefur gaman af því að …
Parið er einstaklega náið og hefur gaman af því að ferðast saman. Ljósmynd/Ása Steinars

Eftirminnileg áramót

Ása fann fyrir mikilli ógleði á fyrstu þremur mánuðunum. Hún er í frekar óhefðbundnu starfi og var því ekki alltaf í kjöraðstæðum á meðgöngunni.

„Þarna á fyrstu mánuðunum var ég í verkefni þar sem ég sigldi með skútunni Ópal frá Húsavík til Reykjavíkur í frekar slæmum sjó. Það var eitt erfiðasta verkefni sem ég hef tekið að mér. Ég verð aldrei sjóveik en með óléttunni varð ég rosalega veik á bátnum, kastaði mikið upp á milli þess að skjóta verkefni fyrir 66°Norður. Það er fyndið að hugsa til baka til þess núna,“ segir Ása.

Fyrir utan sjóveikina segir Ása að meðgangan hafi gengið vel.

Ása blómstraði á meðgöngunni og leið einstaklega vel.
Ása blómstraði á meðgöngunni og leið einstaklega vel. Ljósmynd/Ása Steinars

„Mér leið svo ótrúlega vel þegar ég var ólétt. Við nýttum tímann vel, þar sem við vissum að líf okkar ætti eftir að breytast mikið. Við bjuggum meirihluta meðgöngunnar í húsbílnum okkar og ferðuðumst bæði um Ísland og önnur Evrópulönd. Við vorum enn í fjallgöngum og verkefnum þegar ég var komin átta mánuði á leið. Ég vissi að ég þyrfti að fara að róa mig aðeins þegar ég var á snjósleða á Vestfjörðum mánuði fyrir settan dag.

En þegar ég var ólétt fannst mér ég bara geisla, hárið á mér þykknaði og varð svo fallegt og andlega var eins og allir þessir hormónar hefðu einhver róandi áhrif á mig. Mér leið bara eitthvað svo vel. Það er erfitt að lýsa því. Ég er strax búin að segja við Leo að ég sakni þess svo að vera ólétt,“ segir Ása.

„Fæðingin var löng og strembin. Atlas var eitthvað skakkur og vafinn í naflastreng. Upphaflega vildi hann koma í heiminn á gamlársdag og byrjaði að láta vita af sér á aðfaranótt gamlársdags en það gekk ekkert. Eftir að hafa reynt að koma honum í heiminn í yfir 40 klukkustundir var hann tekinn með bráðakeisara á nýju ári, 2. janúar.

Parið er einstaklega náið og hefur gaman af því að …
Parið er einstaklega náið og hefur gaman af því að ferðast saman. Ljósmynd/Ása Steinars

Þessi áramót verða alltaf eftirminnileg þar sem ég fékk hríðastöðvandi lyf, morfín og svefntöflur á Landspítalanum rétt áður en klukkan sló miðnætti. Ég man síðan að ég og Leo vöknuðum við flugeldana mjög ringluð og svefnlaus, en óskuðum hvort öðru gleðilegs nýs árs. Ég er afar þakklát öllu starfsfólkinu á Landspítalanum sem lét mér líða svo öruggri í gegnum allt þetta ferli,“ segir Ása um fæðinguna.

Hér er Ása á hinum eftirsótta ferðamannastað, Stuðlagili.
Hér er Ása á hinum eftirsótta ferðamannastað, Stuðlagili. Ljósmynd/Ása Steinars

Vinnan er of skemmtileg

Er eitthvað sem heitir venjulegt fæðingarorlof í þínu starfi?

„Ég hélt að ég myndi taka hefðbundið fæðingarorlof, en ég elska vinnuna mína alltof mikið svo að ég ákvað að taka smá skert fæðingarorlof. Það gefur mér sveigjanleika til að taka að mér þau verkefni sem ég brenn fyrir. Síðan þarf að halda samfélagsmiðlunum mínum uppi, sem er auðvitað verkefni sem stoppar aldrei.“

Ása finnur fyrir miklum áhuga á Íslandi. „Fólk fær aldrei nóg af því að sjá ljósmyndir og myndbönd héðan. Undanfarið hef ég lagt meiri áherslu að reyna að aðstoða ferðamenn sem koma til landsins. Ég bjó nýverið til vefapp þar sem ég deili mínum uppáhaldsstöðum á Íslandi ásamt tillögum að ferðaplani. Einnig rek ég fyrirtækið Vanlife Iceland og við erum nánast uppseld fyrir sumarið. Þannig að ég finn fyrir miklum áhuga, sem auðveldar mitt starf við landkynningu.“

Atlas fór strax að sofa mun betur eftir fyrsta mánuðinn …
Atlas fór strax að sofa mun betur eftir fyrsta mánuðinn og foreldrarnir elska hlutverkið sitt og samveruna með honum. Ljósmynd/Ása Steinars

Áttu þér uppáhaldsstað á Austurlandi?

„Austurlandið er eitt af mínum uppáhaldsstöðum á Íslandi. Ég á mér svo marga uppáhaldsstaði og það er erfitt að velja einn, það er svo mikil fjölbreytni allt frá djúpum fjörðum, í fossa, gil og náttúrulaugar.

Klifbrekkufossar er magnaður staður innst inn í botni Mjóafjarðar. Þar falla margir litlir fossar í röð sem mynda fallega og myndræna heild. Einnig er alltaf skemmtilegt að koma í Mjóafjörð og þar er nóg af náttúrufegurð.

Ása nýtur mikilla vinsælda hjá fólki um allan heim sem …
Ása nýtur mikilla vinsælda hjá fólki um allan heim sem fylgist með ferðalögum hennar Ljósmynd/Ása Steinars

Suðlagil er orðinn mjög vinsæll staður, en mér finnst alltaf jafn skemmtileg dagsferð að taka gönguna og labba niður í gilið. Náttúran þar er alveg mögnuð með stuðlabergið og síðan sterka bláa litinn á ánni.

Vök baths finnst mér ein vel heppnaðasti baðstaður landsins. Ég fæ stundum á tilfinninguna að maður sé kominn í japanskan onsen þegar maður fer þarna ofan í. Sérstaklega á veturna þegar allt er á kafi í snjó. Svo elska ég að það sé hægt að hoppa ofan í kalt vatnið og kæla sig niður inn á milli.“

Það er nóg að gera hjá Ásu en hún tók þátt í að kynna Vest­f­irði með Lonley Pla­net. „Ég fékk að vinna skemmti­legt verk­efni með Lonely Pla­net þar sem við gerðum ferðaþætti til að vekja at­hygli á Vest­fjörðum,“ seg­ir Ása. Vest­f­irðir voru efst­ir á lista yfir svæði til að heim­sækja árið 2022 í ár­legu vali ferðabóka­út­gef­and­ans en viður­kenn­ing­in er kölluð „Best in Tra­vel“.

Náttúrulaugar eru í miklu uppáhaldi.
Náttúrulaugar eru í miklu uppáhaldi. Ljósmynd/Ása Steinars

Ætla að gifta sig í Króatíu

Fjölskyldan er byrjuð að ferðast saman og segir Ása að sonurinn Atlas hafi bara verið eins mánaðar þegar hann fór í sitt fyrsta ferðalag með foreldrum sínum um Ísland.

„Þá fórum við í sumarbústað við Seljalandsfoss og þaðan á Vík. Síðan þá höfum við ferðast um Snæfellsnesið, París, Biarritz, Chamonix og Sviss. Þannig að Atlas er búinn að fara í fimm flugferðir samtals og þó nokkrar lestarferðir. Ferðalagið til Frakklands var á vegum Chanel. Ég fór í stutt verkefni með þeim að skoða kamelíublómin sem þau nota í snyrtivörurnar sínar. Þaðan fórum við á skíði bæði í Frakklandi og Sviss.“

Það eru ekki síður spennandi og skemmtileg ferðalög á dagskrá hjá fjölskyldunni í sumar.

Heilsulindin Vök nýtur vinsælda.
Heilsulindin Vök nýtur vinsælda. Ljósmynd/Ása Steinars

„Helsta ferðalagið í sumar er brúðkaupið okkur í Króatíu. Þannig að það er ýmislegt í kringum það, við verðum mikið í Króatíu á eyjunum þar. Bæði að sigla en einnig að undirbúa brúðkaupið. Síðan heimsækjum við fjölskylduna í Svíþjóð, Leo verður steggjaður á Spáni og síðan reynum við að ferðast eitthvað um Evrópu á húsbílnum okkar og kynna Atlas fyrir honum. Það verður spennandi að sjá hvernig það mun ganga.“

Heldur þú að sonur ykkar eigi eftir að erfa ferðabakteríuna?

„Það er góð spurning, hann mun klárlega alast upp við ferðalög og mikið flakk. Þannig að það er spurning hvort sú ástríða muni fylgja honum alla ævi eða hvort hann verði heimakær eftir allt þetta flakk foreldra sinna. Hann er auðvitað hálfur Íslendingur og hálfur Svíi, þannig að hann mun alltaf eiga fjölskyldu í tveimur löndum sem gerir hann nú þegar að heimsborgara. Við viljum að hann eigi sterka tengingu við bæði löndin og fjölskyldurnar þar,“ segir Ása að lokum um soninn sem hefur þegar komið til fleiri landa en flest önnur ungbörn.

Þessa mynd tók Ása í veðurblíðunni á Seyðisfirði
Þessa mynd tók Ása í veðurblíðunni á Seyðisfirði Ljósmynd/Ása Steinars
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert