Hefur misst táneglur í óbyggðum en lét það ekki stoppa sig

Valgerður Húnbogadóttir hefur ekki alltaf verið þessi mikla útivistartýpa og segist ekki hafa fæðst með bakpoka á bakinu. Hún hefur misst ótal táneglur á göngum en eftir að hún fór að velja öðruvísi skó hætti það. 

„Í mínum augum eru ævintýri í óbyggðum svolítið einsog stórar keppnir eru í augum annarra. Ég er í langan tíma að undirbúa mig með því að fara í örævintýri nálægt Höfuðborgarsvæðinu á sama hátt og hlauparar fara út að skokka í hverfinu sínu til að undirbúa sig fyrir maraþon. Örævintýrin gefa mér jafnmikla gleði og hvíld og stóru ævintýrin. Það er mismunandi hvernig fólk upplifir hvíld. Sum velja að leggjast upp í sófa, sum fara í ræktina og önnur fara til Tenerife. Ég fer á fjöll og kem heim þreytt á líkama en úthvíld á sál og með fulla rafhlöðu til að takast á við þau verkefni sem bíða mín næsta dag. Ég ráðlegg öllum sem dreyma um að fara í göngur með allt á bakinu í óbyggðum að byrja á æfingaferðum í næsta nágrenni og jafnvel velja tjaldstæði nálægt óbyggðum líkt og Þakgil og Þórsmörk. Þar er hægt að tjalda og fara í dagsferðir frá tjaldstað,“ segir Valgerður Húnbogadóttir lögfræðingur og fjallagarpur aðspurð ða því hvað fólk eigi að taka með sér á fjöll. 

Þótt hún fái kraft úr fjöllunum og útivistinni þá hefur líf hennar ekki alltaf verið þannig.  

„Ég fæddist ekki með Osprey bakpokann á bakinu. Fyrir nokkrum árum síðan dreymdi mig um að fara í göngur með allt á bakinu en draumarnir virtust aldrei ætla að verða að veruleika. En ég dó ekki ráðalaus og fór því í stuttar göngur með allt á bakinu. Stundum 5 km og stundum allt að 30 km. Ég nýtti tímann vel í að lesa mér til og sækja ýmis námskeið. Klifurnámskeið eru til dæmis mjög góður grunnur að krefjandi göngum í óbyggðum.“

Árni Þór og Valgerður Húnbogadóttir halda námskeið um hvernig fólk …
Árni Þór og Valgerður Húnbogadóttir halda námskeið um hvernig fólk á að búa sig fyrir ferðir í óbyggðum.

Hvað getur fólk gert ef það vill halda af stað?

„Fyrir þau sem eru að taka sín fyrstu skref mæli ég að sjálfsögðu með því að kanna dagskrána hjá Ferðafélagi Íslands. Byrja kannski á stuttri göngu og byggja upp gönguþolið. Það er einnig hægt að skrá sig á námskeiðið Með allt á bakinu hjá Ferðafélagi Íslands sem hefst í haust. Á því námskeiði munum ég og Árni Þór Finnsson fara með þátttakendur í stuttar og langar göngur nálægt Höfuðborgarsvæðinu og tvær útilegur með allt á bakinu,“ segir hún. 

Hvað er nauðsynlegt að taka með?

„Ég gæti í raun skrifað heila bók um það sem er nauðsynlegt að taka með og hvað ekki. Það getur tekið langan tíma að safna búnaði fyrir svona ævintýri og það hefur tekið mig mörg ár. Þess vegna hvet ég öll sem til mín leita til þess að nýta gamlan búnað, fá lánað eða leigt og kaupa notaðan. Þannig lærir maður líka á búnaðinn og getur tekið upplýstari ákvarðanir þegar maður fjárfestir í dýrum búnaði. Ég held að það nauðsynlegasta sé þó viðhorfið, þekkingin og að vera viðbúin því að gera mistök og tilbúin að læra af þeim. Hver einasta ferð er lærdómur og það magnaða við göngur er að maður lærir jafnt á umhverfið og sjálfan sig. Maður lærir að það er nauðsynlegt að fara útfyrir þægindaramman til að komast áfram og maður lærir að leysa vandamál á annan hátt en maður gerir innandyra.“

Hverju á fólk að sleppa?

„Vinnunni og áhyggjunum. Þetta tvennt á ekkert erindi í bakpokann í óbyggðum.“

Hvað um gönguskó? Hvaða skór eru bestir ef fólk ætlar að geta gengið endalaust?

„Bestu skórnir eru þeir skór sem henta þínum fótum. Ef það væri bara eitt skópar sem hentaði öllum þá væri bara til eitt skópar. Til að geta gengið endalaust þarf maður að finna rétta skóparið og fara á milli verslana og máta sem flesta skó. Mínir uppáhaldsskór heita La Sportiva Trango TRK. Ástæðan fyrir því að ég elska þá er að þeir eru hannaðir fyrir langar göngur í ójöfnu landslagi með þunga bakpoka og henta mínum fótum fullkomlega.“

Hefur þú misst táneglur á göngum?

„Ekki eftir að ég fékk mér La Sportiva skóna. En jú, ég hef upplifað að missa táneglur hraðar en sex ára dóttir mín missir tennur,“ segir hún. 

Teipar þú á þér fæturna áður en þú byrjar að labba?

„Nei ég hef aldrei vanið mig á það. Ég er hinsvegar alltaf með hælsærisplástra í bakpokanum til öryggis. Bæði fyrir mig og fyrir göngufélaga mína.“

Hvert ætlar þú að labba í sumar?

„Í sumar ætla ég bæði á Víknaslóðir og á Hornstrandir. Á Hornströndum er einsog tíminn standi í stað. Þar er hvorki net- né símasamband. Það er alveg magnað hvað heilinn nær að hvílast mikið og öll skilningarvit vakna til fulls. Þar er einstakt náttúru- og dýralíf. Mér finnst ótrúlegt að Hornstrandir skuli ekki vera á Heimsminjaskrá UNESCO enda eiga þær sér enga hliðstæðu í heiminum. Hornstrandir bjóða líka upp á ótal möguleika. Það er til dæmis hægt að fara þangað í dagsferðir með leiðsögumönnum frá ferðaþjónustufyrirtækjum á Ísafirði, langar göngur með allt á bakinu með Ferðafélagi Íslands og allt þar á milli.“

Hver er þín uppáhaldsútivistarflík?

„Þær eru margar. En ætli það sé ekki sjálfur Osprey göngubakpokinn minn, þó hann sé ekki skilgreindur sem flík. Bara það að horfa á hann fær hjartað til að slá ögn hraðar. Ég hvet fólk til að velja bakpokann sinn mjög vel og fara í verslanir og máta. Sjálf gerði ég þau mistök að panta mér bakpoka á netinu. Hann var einfaldlega ekki réttur fyrir mig. Síðan fór ég í GG-sport og ætlaði að kaupa ákveðinn bakpoka. Þjónustan þar er svo ótrúlega góð. Leifur í GG-sport var ekki sammála mér um að ég væri að velja réttan bakpoka. Ég get verið þrjósk þegar karlmenn í útivistarverslunum vilja hafa vit fyrir mér. Ég lét þó undan honum og þá kom í ljós að ég hafði valið ranga stærð á bakpoka. Bakpokinn er ótrúlega mikilvægur því það skiptir öllu máli að hann sitji rétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert