Flaug 1.770 km til að sækja tösku

AFP

Bandaríski ferðamaðurinn Robert Gentel virðist hafa farið að ráðum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og merkt farangur sinn með staðsetningarbúnaði AirTag. Þannig kom hann í veg fyrir að glata farangri sínum sem innihélt rándýran drónabúnað, en til þess þurfti hann þó að ferðast 1.770 km. 

Farangursmál á flugvöllum víða um heim hafa verið í ólestri í sumar og hafa margir farþegar týnt eigum sínum vegna þess. Margir hafa tekið upp á því að merkja farangur sinn með staðsetningarbúnaði sem tengist iPhone, en þannig geta notendur séð hvar merktir hlutir eru. 

Gentel sagði sögu sína í viðtali við Insider, en hún hófst hinn 15. júní síðastliðinn þegar hann ætlaði að fljúga frá Texas til Kosta Ríka, með millilendingu í Miami, Flórída. Hann hafði nýverið tekið þátt í alþjóðlegu drónakapphlaupi og innihéldu töskur hans því drónabúnað fyrir þúsundir bandaríkjadala. 

Gentel varð viðskila við farangur sinn eftir að flugi hans til Miami var aflýst. Hann hafði verið bókaður í nýtt flug og átti að millilenda í Houston, en töskurnar fóru hins vegar til Miami.

Þegar hann lenti í Kosta Ríka var hann í miklum samskiptum við flugfélögin sem áttu erfitt með að staðsetja töskurnar. Þökk sé staðsetningarbúnaðnum gat Gentel staðsett farangurinn. Hann tók málin í sínar hendur og flaug til alla leið til Miami þar sem hann endurheimti dýrmætar eigur sínar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert