Nafni Icelandair hótela breytt

Nafni félagsins, Flugleiðahótel hf. er breytt í Iceland Hotel Collection …
Nafni félagsins, Flugleiðahótel hf. er breytt í Iceland Hotel Collection by Berjaya. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nafnabreytingu á Flugleiðahótelum hf. og keðju Icelandair hótela er lokið, en nýir eigendur félagsins, Berjaya Land Berhard (Berjaya), gerðu samkomulag við fyrri eigendur, Icelandair Group, um að láta af notkun vörumerkis þess síðarnefnda að lokinni sölu hótelfélagsins. Hótelfélagið rekur alls þrettán hótel í Reykjavík og á landsbyggðinni, undir nokkrum ólíkum vörumerkjum.

Nafni félagsins, Flugleiðahótel hf. er breytt í Iceland Hotel Collection by Berjaya. Nýtt nafn er skírskotun í safn þeirra fjölbreyttu hótelvörumerkja sem Berjaya starfrækir hérlendis, og eru ýmist eigin vörumerki eða þau sem félagið rekur í sérleyfissamningi við Hilton Worldwide.

Nafni hótelkeðju Icelandair Hotels er breytt í Berjaya Iceland Hotels. Nöfn hótela innan keðjunnar haldast óbreytt, með skírskotun í nærumhverfi og sérstöðu hvers hótels, en þau eru Reykjavík Natura, Reykjavík Marina, Hérað, Akureyri hótel og Mývatn hótel.

Við nýja keðju Berjaya Iceland Hotels bætist jafnframt við hótel félagsins á Höfn í Hornafirði, sem áður var rekið undir merkjum Hótel Eddu, en hefur nú verið endurbætt til að uppfylla auknar gæðakröfur í samræmi við önnur hótel Berjaya Iceland Hotels.

Önnur nöfn breytast ekki

Önnur hótel í rekstri Iceland Hotel Collection by Berjaya eru óbreytt. Þannig mun Hilton Reykjavík Nordia halda sínu nafni sem og Canopy by Hilton, Konsúlat Reykjavík hótel, Iceland Parliament hótel, Alda hótel, Hótel Edda á Akureyri og Egilsstöðum.

Félagið starfrækir áfram sameiginlega aðalskrifstofu í Reykjavík, sem ber m.a. ábyrgð á hámörkun samlegðar ólíkra eininga í rekstri félagsins og samstarfi við erlenda samstarfsaðila, m.a. eigendur félagsins í Kúala Lúmpúr í Malasíu, samstarfsaðila félagsins um sérleyfissamninga Hilton Worldwide, ásamt umsýsluaðilum að sölu hótelanna sem staðsettir eru ýmist hérlendis eða erlendis.

Önnur hótel í eigu sama aðila eru starfrækt víða um heim í Malasíu, Japan, Sri Lanka, Víetnam, á Seychelles eyjum, Filippseyjum og í London, Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert