Var í Suður Kóreu á eldfimum tímum

Brynja Baldursdóttir listamaður lenti í ævintýralegri ferð til Suður Kóreu.
Brynja Baldursdóttir listamaður lenti í ævintýralegri ferð til Suður Kóreu. Ljósmynd/Aðsend

Brynja Baldursdóttir listakona á að baki far­sæl­an fer­il sem mynd­listamaður og hönnuður en nýlega opnaði sýning hennar Kom-andi í Listasafni Einars Jónssonar.

Brynja hefur ferðast víða um heim og lent í ævintýralegum aðstæðum. Helst má nefna þegar hún var stödd í Seúl í Suður Kóreu á tímum eldfimra orðaskipta á milli Kim Jong Un og Donalds Trumps árið 2017. 

Frá opnun tvíæringsins.
Frá opnun tvíæringsins. Ljósmynd/Aðsend

„Heimurinn stóð á öndinni“

„Þessi ferð var óneitanlega bæði dramatísk og mótsagnarkennd. Þetta var á tímum eldfimra orðaskipta á milli Kim og Trump og heimurinn stóð á öndinni og spáði í spilin. Sumir óttuðust að þriðja heimsstyrjöldin gæti brotist út og þar fram eftir götunum.

„Erindi mitt þangað á þessum ólgu tímum var að vera viðstödd fyrsta arkitektúr tvíæringinn í Seúl og ég var þar sem listrænn ráðunautur framlags Örnu Mathiesen arkitekts á sýningunni.“

„Arna hafði til að mynda skrifað og unnið bókina Scarcity in Excess sem gefin var út af Actar Publishers árið 2014 og er myndrænt uppgjör og rannsókn tengt hruninu, með fókusinn á Reykjavík. Henni var boðið í kjölfar útgáfu bókarinnar að taka þátt í tvíæringnum ásamt arkitektum frá um það bil 50 borgum í heiminum. Við vorum þrjár sem fórum út af því tilefni; ég, Arna Mathiesen og Anna María Bogadóttir arkitekt,“ segir Brynja.

Brynja, Arna Mathiesen og Anna María Bogadóttir fóru saman til …
Brynja, Arna Mathiesen og Anna María Bogadóttir fóru saman til Suður Kóreu. Ljósmynd/Aðsend

Miklar öryggisráðstafanir

Brynja segir að mikið hafi verið lagt upp úr því að tryggja öryggi allra á þessum stormasömu tímum.

„Við Anna María flugum fyrst til Osló þar sem okkur var tjáð að við þyrftum að vera skráðar hjá norska sendiráðinu sem myndi sjá um okkar hag og velferð ef allt færi úr böndunum í Suður Kóreu vegna styrjaldar eða hryðjuverka. Okkur var líka uppálagt að fylgjast stöðugt með fréttaflutningi,“ segir Brynja.

„Frá Osló flugum við allar þrjár til Dubaí þar sem staðan var tekin á þeim Kim og Trump. Það var alls ekki sjálfgefið að ferðin yrði lengri en til Dubaí. En við tókum sénsinn og áfram var ferðinni haldið til Seúl.“

Friðsælasti flugvöllurinn og óspennandi gosdrykkir

„Það sem tók á móti okkur var mjög svo óvænt flugvallar-upplifun. Kyrrðin og róin var svo mikil þar. Aðferðin til að ná þvi fram var sú að hafa engan hávaða. Hvorki tónlist né tilkynningar. Sjónrænt séð var líka fátt sem truflaði augað og starfsfólkið talaði lágt. Þetta er eini flugvöllurinn sem ég get lýst sem friðsælum.“

Brynja segir það hafa verið áberandi hversu friðsælir allir voru þarna.

„Flestir sem maður hitti virtust hvíla einstaklega vel í eigin skinni. Mér fannst þetta heillandi og fallegt og mátti til að komast að því hvað olli þessu. Speki Konfúsíusar er þar í heiðri höfð í gegnum kynslóðirnar. Einnig er sykur ekki út um allt þarna. Þeir borða Kimchy með öllum mat og á hver fjölskylda sína einstöku uppskrift. Við gerðum tilraun með að kaupa fjóra vinsælustu gosdrykki unga fólksins og áttum von á sykruðum drykkjum en fengum vægast sagt sérstaka drykki sem virtust lausir við nokkurt sætt. Reyndust drykkirnir frekar óspennandi fyrir okkur sykurfíklana í norðri.“

Verk Örnu Mathiesen á tvíæringnum í Seúl.
Verk Örnu Mathiesen á tvíæringnum í Seúl. Ljósmynd/Aðsend

Íbúar vanir ógninni

„Eftirminnileg er dagsferð okkar til Paju Book City sem er litill bær tileinkaður öllu er viðkemur bókum og bókaútgáfu. Þar er að finna 250 bókaútgáfur, útgefendur, prentsmiðjur og bókagerðarmenn.“

„Okkur var tjáð að stefnu borgarinnar yrði breytt frá því að vera „money making city” yfir í að verða „people friendly city”. Það átti að gera meðal annars með þvi að umbreyta hraðbrautum yfir i gangvegi fyrir fólk (enda séð fram á fækkun einkabíla). Við fórum á eina slíka fyrrum hraðbraut þar sem búið var að fylla af blómum, trjám og bekkjum sem fólk gat tyllt sér á og kastað mæðinni á meðan það naut útsýnisins yfir borginni.“

„Gamall og vitur maður tók á móti okkur þar og sagði okkur allt um staðinn. Hann átti ættingja i Norður Kóreu. Hann sagði til að hughreysta okkur, með æðruleysið uppmálað, að íbúarnir í Seúl væru orðnir svo vanir ógninni og spáðu ekki mikið í þetta. Við þyrftum ekkert að hafa áhyggjur. Þetta tæki fljótt af ef Kim sendi flaug yfir til Seúl.“

„Tillitsemin og kurteisin er svo mikil manna á milli að allt gengur sinn vanagang i kyrrð. Ekki er hávaðanum fyrir að fara. Eitt sinn er við stöllur vorum i strætó og hlógum dátt yfir einhverju sniðugu á milli okkar, þá kom bílstjórinn aftur í til að sussa á okkur. Þetta fannst okkur merkilegt.“

„Ég var heilluð af mýktinni og hógværðinni sem mér fannst einkenna flesta sem við hittum. Það er margt sem við getum lært af þeim. Kannski kominn tími á að glugga aftur i skrif Konfúsíusar.“

Líklegt skotmark hryðjuverka

„Vegna ástandsins mættu fáir fulltrúar frá þessum rúmlega 50 borgum sem voru með verk á sýningunni. Flestir mátu það ótryggt að mæta enda um opinberan viðburð að ræða og því  líklegt skotmark hryðjuverka frá Norður Kóreu,“ segir Brynja.

„Vegna fámennis fengum við konunglegar móttökur og skoðunarferðin sem var skipulögð fyllti eingöngu tæplega hálfa rútu. Þetta var einstaklega fróðlegt og skemmtilegt í alla staði þó allir væru vissulega á tánum vegna stöðunnar.“

„Verk Örnu var haft í miðju sýningarrýminu og varð vinsælt hjá fyrirlesurum og þar sem fólk kom saman. Það er óhætt að segja að verkið hafi náð sinni fullnustu og takmarki en það var skírskotun í sundlauga og heitapotts menningu, okkar almenningsrými þar sem Frónbúar af öllum stéttum, stærðum og gerðum mæta berskjaldaðir og jafnir og ræða mál líðandi stundar.“

Í Seúl tíðkast sá skemmtilegi siður að þeir sem mæta …
Í Seúl tíðkast sá skemmtilegi siður að þeir sem mæta í þjóðbúningum fá frítt inn á öll söfn. Brynja sýnir um þessar mundir í safni Einars Jónssonar og hvetur Íslendinga til að prófa að mæta í þjóðbúningum. Ljósmynd/Aðsend

Dagurinn sem Kim sprengdi vetnissprengjuna

„Lokadagur dvalar okkar rann upp sunnudaginn þriðja september og það var dagurinn sem Kim sprengdi vetnissprengjuna. Enginn vissi strax hvort um væri að ræða geislavirkni. Við pökkuðum í snarhasti og ætluðum að næla okkur í leigubíl. Þegar út var komið var ekki hræðu að sjá á ferli í þessari fjölmennu borg og hvað þá bílaumferð. Þannig að plan B var sett í gang.“

„Við strunsuðum af stað fótgangandi í átt að biðstöð flugrútunnar á meðan við litum eftir inngangi að neðanjarðarbyrgjum. Við komum auga á eitt slíkt á leiðinni sem við settum á minnið. En hugurinn verður kýrskýr í svona aðstæðum. Við höfðum reynt að ná sambandi við sendiráðið án árangurs og vissum því ekkert hvað væri í gangi. Þegar flugrútan mætti þarna samviskusamlega, vorum við einu farþegarnir alla leið.“

„Horfðum yfir til Norður Kóreu alla leiðina“

„En leiðin á flugvöllinn sem tekur um eina klukkustund er meðfram landamærum Norður Kóreu meiri hluta leiðarinnar. Við bókstaflega horfðum yfir til Norður Kóreu alla leiðina.“

„Á skjánum fremst í rútunni sem áður spilaði tónlistamyndbönd var nú sjónræn leiðbeining/teiknimynd í síbylju um það hvernig skuli hegða sér í sprengjuregni og hvað mætti taka með sér í neðanjarðarbyrgin. Bílstjórinn skyldi ekki orð í ensku svo við urðum að láta þessa kennslustund duga og geta í eyðurnar vopnaðar skáldaleyfi varðandi hugsanlega þróun mála.“

En þetta hafðist allt á endanum. Við komumst í heilu lagi alla leið til Íslands farsældar fróns með viðkomu í Dubaí og Osló og nutum þess innilega í vélinni sem nálgaðist Ísland að hlusta á heimilislegar fréttir um bændur og búalið. Andstæður þessarar ferðar verða lengi í minni hafðar, innri kyrrð og viska íbúa Suður Kóreu sem við hittum og vitneskjan um spennuþrungið óvissuástand heimsmálanna.“

Uppáhaldsstaður Brynju er á Siglufirði.
Uppáhaldsstaður Brynju er á Siglufirði. "Ég fell oft í stafi yfir fegurðinni á öllum árstíðum og ég viðurkenni að snjórinn og norðurljósa tímabilið er í sérstöku uppáhaldi." Ljósmynd/Aðsend

Getum alltaf bætt töfrum við tilveruna

Aðspurð um draumaferðalagið nefnir Brynja Kappadókíu í Tyrklandi.

„Það er á heimsminjaskrá fyrir sérstakar klettastrýtur. Þar eru til dæmis hótel og hýbýli höggvin hugvitsamlega inn í sandsteinsklettana og það er hægt er að fara í útsýnisferð í loftbelg. Staðurinn í heild sinni er merkilegur í sögulegu tilliti þannig hann býður upp á einstaka veislu. Þessi ferð er efst á óskalistanum hjá mér,“ segir Brynja.

„Þá langar mig einnig að útbúa lautarferð uppá snævaþakið fjall hér á Tröllaskaga með góðum vinum. Ég sé okkur fyrir mér að njóta kræsinga á köflóttum dúk með óviðjafnanlegt útsýni fyrir augunum. Stefni á það næsta vetur. Sjálf vel ég að upplifa eitthvað út fyrir það sem maður er vanur dagsdaglega. Við getum alltaf bætt svolitlum töfrum við tilveruna!“

Nú stendur yfir sýning Brynju sem ber heitið Kom-Andi í …
Nú stendur yfir sýning Brynju sem ber heitið Kom-Andi í Listasafni Einars Jónssonar. Hér er hún við uppsetningu sýningarinnar ásamt ÖlmuDís Kristinsdóttur safnstjóra. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert