Ótrúlegt hvað hægt er að gera mikið á svona lítilli eyju

Matreiðslumaðurinn Gísli Matthías Auðunsson.
Matreiðslumaðurinn Gísli Matthías Auðunsson. Ljósmynd/Gunnar Freyr

Gísli Matthías Auðunsson er án efa meðal okkar fremstu matreiðslumanna en hann hefur stofnað marga góða veitingastaði svo sem Mat og drykk og Skál á Hlemmi. Undan farin ár hefur hann stýrt og rekið hinn margrómaða Slipp veitingastað í Vestamannaeyjum en þar vinnur hann mikið með hráefni úr nærumhverfinu. Fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan opnaði hann svo systrastað Slippsins sem kallast Næs og er einnig í eyjunni. Gísli bjó í Vestmannaeyjum til 6 ára aldurs og sneri aftur þangað þegar hann var 22 ára. Fáir eru því betri til að gefa ferðalöngum ráð um hvað sé áhugavert að gera í eyjunni fögru.

Eldheimasafnið vel heppnað

Þegar Gísli er spurður hvers vegna fólk ætti að taka sé far með Herjólfi yfir til Vestmannaeyja þá stendur ekki á svörum.

„Þessar eyjar eru einstök náttúruperla og hér er fjölbreytt afþreying. Það er til dæmis mjög gaman að keyra yfir eldfjallasvæðið og svo er líka enn mikill lundi hér, í raun er ótrúlegt hvað er hægt að gera mikið á svona pínulítilli eyju. Það eru mörg söfn hérna og ber þá fyrst að nefna Eldheima sem var byggt utan um Heimaeyjargosið, þar er hægt að skoða allt í tengslum við eldsumbrotin og til dæmis er búið að grafa eitt hús upp úr öskunni. Þetta safn er tiltölulega nýtt og það er einkar vel hannað. Fyrir nokkrum árum var líka opnað mjaldrasafn (Beluga Whale Sanctuary) en þar er m.a. hægt að fylgjast með tveimur mjöldrum auk þess er hægt að komast í návígi við lunda sem gátu ekki farið út í náttúruna. Það er líka hægt að heimsækja skemmtilegt safn um sögu Vestamannaeyja og nýlega var opnað safn inn í Dalnum. Það er í litlum torfbæ með vaxmyndastyttum af víkingum og landnámsmönnum.“

Það er gaman að skoða lunda í Vestmannaeyjum.
Það er gaman að skoða lunda í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Unsplash.com/Jonathan Pie

Góðar fjörur og sjávarlíf

Bátar eru samofnir menningu eyjanna en Gísli segir að hægt sé að fara í fjölbreyttar bátsferðir.

„Það eru nokkur fyrirtæki að bjóða upp á ferðir í stórum slöngubátum í kringum eyjarnar og þar er hægt að skoða lunda, hella og ýmislegt fleira. Það er líka hægt að fara á fjórhjólum og keyra yfir eldgosasvæðið og svo er líka boðið upp á skemmtilegar kayak ferðir.“

Gísli þekkir fjörurnar vel þar sem hann fer reglulega þangað að sækja sér hráefni.

„Í áttina að Stórhöfða eru góðar strandir báðum megin við, önnur heitir Klauf og hin heitir Ræningjatangi. Það er ótrúlega gaman að fara þangað, ég fer oft þangað með börnin mín í fjöruferð. Þar er endalaust af þarategundum en líka skelfiskur svo dæmi sé tekið. Það er gott að fara í sjósund í Klaufinni þótt ég myndi nú kannski ekki segja að aðstaðan sé góð en það stendur til bóta. En svo má ekki gleyma sundlauginni hér, hún er góð. Mögulega verður í framtíðinni búið til baðlón hér en það er ekki komið í gang enn.“

Gísli þekkir fjörurnar vel.
Gísli þekkir fjörurnar vel. Ljósmynd/Gunnar Freyr

Göngustígur í kringum alla eyjuna

Hægt er að fara margt fótgangandi og Gísli segir að nú séu komnir göngustígir víða.

„Það er vinsælt að fara í göngutúra hér og búið að gera mjög góðan stíg í kringum alla eyjuna sem er notaður í Puffin run-hlaupinu. Margir nota hann til að fara í göngutúra til að skoða alla eyjuna. 7 tinda gangan er líka vinsæl, þá er til dæmis gengið á Heimaklett, eldfjöllin bæði, Stórhöfð og Dalfjall svo nokkur séu nefnd. Mér finnst æðislegt að fara upp á Heimaklett, það er auðveldara en maður heldur og ég hef gert það með átta ára dóttur minni. Útsýnið þaðan er algerlega magnað.“ Gísli bætir við að svo sé alltaf fastur liður að fara og spranga.

Fjölbreytt gisting og stutt að fara með Herjólfi

Þegar kemur að bænum sjálfum segir Gísli að nýverið hafi Vigtartorgið verið gert upp en það sé við smábátahöfnina.

„Þarna eru komnir matarvangar og mikið af leiktækjum fyrir börnin. Þetta er fallegt svæði og gott að vera þar á góðum sumardegi, það hefur verið mikið notað þessa fáu góðviðrisdaga sem hafa verið í ár,“ segir hann og hlær.

Gísli segir það lítið mál að skreppa til Eyja á sumrin og ferðin frá Landeyjahöfn taki stutta stund.

„Hér eru tvö góð tjaldstæði, í Herjólfsdal er fín aðstaða en líka við Þórshúsið sem er eitt af fótboltahúsunum hér. Bæði er hægt að tjalda en það er líka aðstaða til að vera með hjólhýsi og tjaldvagna. Hægt er að fá mjög fjölbreytta gistingu hér allt frá Airbnb upp í fín hótel og allt þar á milli. Hér er hægt að leigja svokölluð Pöffin nest eða lundahreiður sem er svona farfuglagisting. Gamla pósthúsinu var nýlega breytt í íbúðargistingu en það heitir The New Post Office núna og þar er hægt að leigja litlar íbúðir svo það er virkilega gott úrval hér.“

Það er stutt til eyja frá Landeyjahöfn.
Það er stutt til eyja frá Landeyjahöfn. Ljósmynd/Unsplash.com/Ursula Drake

Matarhátíðin Matey á heimsmælikvarða

Við komum ekki að tómum kofanum hjá Gísla varðandi matarflóruna sem hefur getið sér gott orð enda margir góðir matsölustaðir í eyjunni sem hafa laðað til sín sælkera hvaðanæva af úr heiminum.

„Hér höfum við verið að halda matarhátíð sem heitir Matey en hún er í september. Þá fáum við erlenda gestakokka til að koma á nokkra veitingastaði hérna og látum þá nota hráefnið okkar hér úr eyjunni. Þetta skilaði því að Vestamannaeyjar voru valdar einn af topp fimmtán áfangastöðum í heiminum árið 2024 hjá fréttamiðlinum New York Times. Guardian miðillinn sagði Matey vera einn stærsta matarviðburð í heiminum árið 2024 sem er mjög skemmtilegt“.

Gísli segir að allir taki þátt í hátíðinni á einhvern hátt þótt þeir séu ekki með gestakokka. Þess má geta að Matey verður haldin þann 5. – 7. september í ár.

Það er hægt að góðan mat í Vestmannaeyjum.
Það er hægt að góðan mat í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Gunnar Freyr

Páskahellir og Stórhöfði í sérstöku uppáhaldi

Að lokum segir Gísli að það séu tveir staðir í Vestmannaeyjum sem séu honum sérlega kærir og þangað fer hann til að sækja sér orku eða kúpla sig út.

„Mér finnst mjög magnað að fara í svokallaðan Páskahelli en hann er fyrir aftan Eldfell, þarna á hraunsvæðinu er ótrúleg náttúrufegurð og það er hægt að fara aðeins inn í hellinn og eiga fallega stund. Hinn staðurinn er Stórhöfði en þaðan er magnað að horfa út á hafið og sjá hinar eyjurnar,“ segir Gísli og bendir fólki á að skoða vefsíðuna; visitvestmanneyjar.is sem sé góð síða fyrir þá sem ætla að heimsækja Vestmannaeyjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert