Út fyrir þægindarammann að ferðast ein

Elísabet Ýr er tölvunarfræðingur með meistaragráðu í viðskiptafræði, en hún …
Elísabet Ýr er tölvunarfræðingur með meistaragráðu í viðskiptafræði, en hún lýsir sjálfri sér sem ævintýragjörnum ferðaunnanda.

Það hljómar líklega framandi fyrir marga að ferðast einsamall um Sri Lanka, en það hefur hin þrítuga Elísabet Ýr Sigurðardóttir gert enda þaulreynd ævintýrakona. Á ferðalögum sínum hefur Elísabet öðlast dýrmæta reynslu og sýn á heiminn, en hún hefur ferðast til 25 landa og er um þessar mundir stödd hinum megin á hnettinum, í Ástralíu. 

Við fengum að skyggnast inn í ferðaheim Elísabetar, en að undanskyldum ótrúlegum ferðasögum hefur hún sérlega gott auga fyrir fallegum ljósmyndum og því ekki ósennilegt að lesendur fyllist ævintýraþrá við lesturinn. 

„Ég hrífst mest af fallegri náttúru, seiðandi sólsetrum, skemmtilegu fólki …
„Ég hrífst mest af fallegri náttúru, seiðandi sólsetrum, skemmtilegu fólki og nýjum menningarheimum.“

Heilluð af hversdagslífinu í Ástralíu

Elísabet flutti nýverið til Sydney í Ástralíu eftir að hafa verið búsett í þrjú ár í Kaupmannahöfn þar sem hún lauk meistaragráðu í viðskiptafræði frá Copenhagen Business School. Hún er þó fædd og uppalinn í íslensku sveitinni, en hún ólst upp á sveitabænum Eyvindartungu í Laugardal.

„Það er vetur hér í Ástralíu eins og er, sem er smá súrrealískt í ljósi þess að hér er töluvert heitara en um hásumar heima á klakanum,“ segir Elísabet. „Hversdagslífið heillaði mig strax. Sólin skín nánast alla daga, himininn er blár og maður getur farið á brimbretti alla daga í góða veðrinu.“

„Þrátt fyrir að borgin sé stór þá er andrúmsloftið í Sydney afslappað og manni líður fljótt eins og heima hjá sér,“ segir Elísabet, en aðspurð segir hún Sydney nú vera sína uppáhaldsborg utan Evrópu. „Borgin liggur að sjó og öll strandlengjan bíður upp á mismunandi ævintýri. Hér eru fallegir garðar, skemmtileg söfn, kaffihús, veitingastaðir og iðandi næturlíf,“ útskýrir Elísabet. 

„Þrátt fyrir að vera hinum megin á hnettinum þá er …
„Þrátt fyrir að vera hinum megin á hnettinum þá er ferðalagið til Ástralíu vel þess virði, þetta er algjör paradís.“

Elísabet segir allt ferskt, nýtt og spennandi í Ástralíu og hlakkar mikið til að ferðast þar meira. „Það gleymist oft að Ástralía er heimsálfa, nánast jafnstór og Evrópa. Þannig að ég á eftir að skoða heilan helling af landinu og get ekki beðið eftir því ævintýri,“ segir Elísabet sem stefnir á að ferðast um austurströnd Ástralíu næsta sumar. 

Brimbretti, jóga og hugleiðsla í Sri Lanka

Aðspurð segir Elísabet eftirminnilegasta ferðalagið vera ferð sína til Sri Lanka og Maldívaeyja í febrúar síðastliðinn. „Það var í fyrsta skiptið sem ég ferðaðist ein og það var alveg ógleymanleg upplifun. Ég var frekar stressuð en á sama tíma ótrúlega spennt fyrir því ævintýri, en það gaf mér algjörlega nýja sýn á ferðalög,“ segir Elísabet. 

„Að ferðast einn tekur mann út úr þægindarammanum. Þú þarft að læra að treysta á sjálfan þig og þú kynnist sjálfum þér betur. Eftir nokkrar vikur af því ævintýri kom svo vinkona mín og ferðaðist með mér í mánuð í viðbót,“ segir Elísabet. 

„Sri Lanka er fullkominn staður til að læra á brimbretti, …
„Sri Lanka er fullkominn staður til að læra á brimbretti, stunda jóga, hugleiða og hlaða batteríin.“

„Sri Lanka er ekki bara með fallegar strendur, mikla sögu, heillandi þorp og fallega náttúru, heldur er þar algjör matarparadís. Ef þú ert grænkeri sem elskar Indverskan mat þá gæti ég ekki mælt meira með Sri Lanka fyrir þig,“ segir Elísabet. „Ég gerðist auðvitað líka sek um að borða vestrænan mat þar og hann var engu síðri.“

Elísabet segir matinn á Sri Lanka vera þann besta sem …
Elísabet segir matinn á Sri Lanka vera þann besta sem hún hafi smakkað.

Þó suðræn ævintýri heilli Elísabetu þá á Kaupmannahöfn sérstakan stað í hjarta hennar. „Kaupmannahöfn er hin fullkomna stærð af borg fyrir Íslending. Hún er ekki of stór en samt nógu stór til að vera spennandi og uppfull af ævintýrum,“ útskýrir Elísabet. „Það er fátt sem jafnast á við sumrin í Köben og sólríka daga við síkin eða í fallegum görðum í góðra vina hópi.“

Elísabet ásamt kærasta sínum, Ken í Kaupmannahöfn.
Elísabet ásamt kærasta sínum, Ken í Kaupmannahöfn.

Mesta menningarsjokkið að koma aftur til Íslands

Ferðalög Elísabetar hljóma ævintýralega, en þau hafa þó ekki verið hættulaus. „Þegar ég var 18 ára gömul fór ég í þróunar- og hjálparstarf til Nairobi, Keníu á vegum ABC hjálparstarfs. Það var mjög átakanlegt og erfitt að sjá fátæktina og eymdina sem margir bjuggu við þar,“ segir Elísabet. 

„Ég held að mesta menningarsjokkið hafi verið að koma aftur heim til Íslands eftir ferðalagið. Eftir að hafa séð þessar hörmungar og erfiða líf var erfitt að taka áhyggjum og erfiðleikum jafnaldra minna á Íslandi alvarlega. Allt í heiminum er auðvitað mjög afstætt, en það er mikilvægt að minna okkur á hvað við höfum það gott og hversu góðu lífi við lifum á fallega, einangraða Íslandi,“ segir Elísabet. 

„Þegar maður kemur frá Íslandi er maður kærulausari og hugrakkari en aðrir ferðalangar vegna þess hve öruggu lífi maður lifir á klakanum. Ég veit ekki hvort hafi verið hættulegra, ferðirnar í fátæktarhverfi Nairobi, eða þegar ég heimsótti Palestínu frá Ísrael,“ segir Elísabet. „En eina skiptið sem mér hefur liðið verulega óþægilega og óöruggri var í eftirminnilegu áramótapartíi út í eyðimörk Egyptalands um árið.“

Óhugnanlegt partí í miðri eyðimörk

Einn veturinn ákvað Elísabet ásamt tveimur vinkonum sínum að eyða jólum og áramótum á ströndunum við Sharm El Sheik í Egyptalandi. „Það er svo sem ekki frásögufærandi fyrir utan það að okkur langaði að fagna áramótunum almennilega með skemmtilegu áramótapartíi. Við spurðumst fyrir og ákváðum að skella okkur í þvílíkt teiti í eyðimörkinni, að okkur var sagt að minnsta kosti,“ útskýrir Elísabet. 

„Eftir langan bíltúr í leigubíl mætum við svo risastóru tjaldi, langt frá byggð. Allt leit vel út að utan, en þegar við komum inn í tjaldið var kynjakvótinn ekki sérlega hughreystandi. Af nokkur þúsund gestum vorum við kvenmennirnir ekki fleiri en tíu talsins.“ Þær vinkonur stöldruðu ekki lengi í teitinu, enda segir Elísabet stemmninguna hafa verið óhugnanlega. 

„Að ferðast er góð fjárfesting“

Elísabet segir ferðalög geta verið mismunandi, enda fái maður mismunandi hluti út úr þeim. „Stundum er gaman að fara í góðra vina hópi, stundum er gaman að kynnast nýjum heimshornum. Það fer bara eftir því hvað sálinni vantar hverju sinni,“ segir Elísabet. „Ferðalögin sem ég er hrifnust af eru þau sem víkka sjóndeildahringinn manns og hugmyndir um heiminn. Staðir sem hafa ríka sögu, ólíka menningu, hefðir og fólk. Þau ferðalög geta verið mjög þroskandi, en ekki síst stórskemmtileg,“ segir Elísabet. 

„Að sjá nýjar borgir og menningarheima kemur manni út úr …
„Að sjá nýjar borgir og menningarheima kemur manni út úr búbblunni sem maður lifir í dagsdaglega, og það er einstaklega hollt fyrir mann.“

Popp ómissandi í flug

Miklum ferðalögum fylgja margar, og oft langar flugferðir. Það kannast Elísabet við, enda stödd 16.621 km frá Íslandi. Því er ekki hægt að enda viðtalið án þess að fá gott ferðaráð frá henni. 

„Flugvélasokkar, eyrnatappar, svefngríma og koddi eru ómissandi í lengri flugin. Svo varðandi snarl, þá býst ég ekki við að flugfreyjunum og starfsfólki í flugvélum líki sérlega við þetta svar, en uppáhaldssnarlið mitt til að taka með í flug er popp. Ég er mikill poppisti og finnst það ómissandi í flug, en ég geri auðvitað mitt allra besta og reyni að mylja það ekki út um allt,“ segir Elísabet og hlær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert