Nicole Kidman opnar sig um fósturlát

Nicole Kidman opnaði sig nýlega um misheppnaðar meðgöngur.
Nicole Kidman opnaði sig nýlega um misheppnaðar meðgöngur. mbl.is/AFP

Það vita flestir sem til þekkja að líf Nicole Kidman hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Eftir 35 ár í sviðsljósinu og tvö hjónabönd er óhætt að segja að hún geti nælt sér í þau hlutverk sem bjóðast konum á hennar aldri, þó svo tilboðum um hlutverk fari gjarna fækkandi hjá leikkonum eftir því sem lífaldur þeirra hækkar og reynsla eykst. En það eru ekki allar leikkonur sem standa uppi með Óskarsverðlaun, fern Golden Globe-verðlaun og Emmy.

Í viðtali við tímaritið Tatler opnaði hin fjögurra barna móðir sig um þátt í lífi sínu sem hún hefur ekki talað um áður; meðgöngur sem enduðu með fósturmissi og mikilli sorg. 

Kidman á börnin Ísabellu Jane (25) og Connor (23) með fyrrverandi eiginmanni sínum Tom Cruise og svo á hún dæturnar Sunday Rose (9) og Faith Margaret (7) með núverandi eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Keith Urban. Hún varð ólétt með utanlegsfóstur í byrjun hjónabands hennar með Tom Cruise og missti fóstur undir lok hjónabandsins.

„Ég þekki það mjög vel að þrá barn óskaplega heitt,“ sagði Niole þegar hún minnist þessara tveggja meðgangna sem enduðu með fósturláti. „Þessi þrá er gríðarlega mikil og sársaukafull. Og vonbrigðin voru svo yfirþyrmandi þegar ég komst að því að ég hefði misst fóstrið í bæði skiptin. Það er ekki talað nógu mikið um fósturlát. Það er stundum rætt um það eins og um tiltekið læknisfræðilegt ástand en fósturlát veldur konum oft gríðarlegri sorg. Hin hliðin á teningnum er auðvitað gleðin við að eignast heilbrigt barn.“

Nicole segir að sorgin geti þó verið undanfari gríðarlegrar gleði því ef kona hefur farið í gegnum mjög mikla sorg eftir misheppnaða meðgöngu verður gleðin við að eignast barn svo mikil.

Hin geðþekka ástralska leikkona hefur ekkert slegið af síðan hún lauk upptökum á verðlaunaþáttunum „Big Little Lies“  og er núna með fimm verkefni í undirbúningi á þessu ári og næsta, fyrir utan næstu þáttaröð af þessari vinsælu þáttaröð.

Heimild: Instyle.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert