Innkaupalistar heyra nú sögunni til í Reykjavík

Líklegt má teljast að foreldrar í Reykjavík séu fegnir að …
Líklegt má teljast að foreldrar í Reykjavík séu fegnir að vera lausir við hina árlegu innkaupalista fyrir börnin sín á grunnskólaaldri. mbl.is/Golli

Borgarstjórn samþykkti á liðnu ári að námsgögn sem nemendur í grunnskólum borgarinnar nota á skólatíma skyldu vera þeim og fjölskyldum þeirra að kostnaðarlausu frá og með komandi skólaári, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Sú samþykkt var m.a. til komin vegna tilmæla frá foreldrafélögum skólanna og Samtökum foreldrafélaga grunnskólabarna í Reykjavík (SAMFOK) og fleiri hagsmunaaðilum.

Grunnskólinn hornsteinn jafnræðis

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri félagasamtakanna Heimili og skóli, segir að í grunninn sé  þessi ákvörðun sú eina rétta. Grunnskólinn eigi að vera hornsteinn jafnræðis í landinu og þarna sé í rauninni verið að framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar hafa innleitt um að tryggja eigi börnum gjaldfrjálsan grunnskóla og að ekki megi mismuna börnum vegna efnahags.

Þessi innkaup foreldra á hverju hausti hafa í sumum tilfellum reynst íþyngjandi fyrir fjölskyldur, sérstaklega efnaminni og barnmargar fjölskyldur að sögn Hrefnu. Einnig hafi innkaupalistar stundum verið afar mismunandi milli skóla og stundum töluverður kostnaðarmunur. „Lengi hefur verið rætt um gjaldfrjálsan grunnskóla og ánægjulegt að nú skuli loks flest sveitarfélög taka þetta til greina en innkaup foreldra eru í raun ekki í samræmi við hugmyndir fólks um gjaldfrjálsan grunnskóla. Ekki er hægt að stunda nám án námsgagna,“ segir Hrefna.

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla sem eru landssamtök foreldra.
Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla sem eru landssamtök foreldra. mbl.is/G JOHANNESSON

Einfaldari tilvera

Hún segir að fyrir utan jafnræðisrökin einfaldi nýtt fyrirkomulag, þar sem boðið er upp á endurgjaldslaus skólagögn, tilveruna töluvert fyrir foreldra sem hafa oft staðið ráðþrota í verslunum, stundum með nokkra lista í hendi og reynt eftir bestu getu að tína allt til í körfu, þ.m.t. hluti sem þeir vita jafnvel ekki hvernig líta út. „Þetta skref einfaldar lífið töluvert fyrir foreldra með börn í grunnskóla og sparar þeim aurinn.“

Hrefna segir að Ísafjarðarbær hafi verið eitt af fyrstu sveitarfélögum landsins sem tók upp þessa stefnu og gekk þannig á undan með góðu fordæmi en þessi háttur hefur mælst afar vel fyrir í þeim sveitarfélögum þar sem hann hefur verið hafður á. 

Hún bendir að lokum á umhverfisþáttinn. Það er líklegt að með því að skólarnir útvegi námsgögn hafi kennarar betri stjórn á námsgögnunum og þau verði betur nýtt, þeir hafi betri yfirsýn yfir það hvernig börnin noti gögnin, börnin læri að deila hlutum og minna fari til spillis.

Grunnskólar Reykjavíkur verða settir 22. ágúst næstkomandi. Þau skólagögn sem grunnskólanemendur þurfa að nota á næsta skólaári, s.s. stílabækur, reikningsbækur, möppur, vinnubækur, vinnubókarblöð, pappír, ritföng, liti o.fl. fá þeir afhent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert