Fyrstu mánuðirnir drulluerfiðir

Söngkonan Una Stef á þriggja ára strák.
Söngkonan Una Stef á þriggja ára strák. ljósmynd/Eva Schram

Söngkonan Una Stef eignaðist soninn Stefán Kára fyrir þremur árum með kærasta sínum, Hlyni Hallgrímssyni. Stebbi Kári eins og hann er kallaður kom í heiminn eftir langa og stranga fæðingu en Una segir það klikkaðasta við það að hún myndi gera þetta allt aftur. 

Hvernig mamma vilt þú vera?

„Ég hef eiginlega ekkert spáð mikið í því hvernig ég vil vera. Ég er bara. Svo einhvern veginn reynir maður bara að klúðra þessu ekki katastrófískt og vera versta mamma í heimi án þess að taka eftir því. Ég vona að ég sé hlý, skilningsrík og traust. Það væri ídeal,“ segir Una. 

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

„Mér finnst ágætt að hugsa um nokkur stikkorð: kærleik, virðingu og þolinmæði. Mér finnst þessi listi reyndar eiga við um öll samskipti – við alla. Svo finnst mér líka mikilvægt að sýna gott fordæmi. Mín reynsla er sú að það vegur miklu þyngra heldur en einhverjar ofurræður foreldra til barnanna sinna um hvernig skal haga lífinu.

Strákurinn minn er bara þriggja ára en ég hlakka til að sjá hann fá áhuga og dellur í framtíðinni og þá finnst mér skipta máli að ég sé dugleg að hvetja hann áfram í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Alveg óháð því hversu kúl eða spennandi það er fyrir mig. Ef hann verður ofurnörd í teppalagningum þá mun ég kynna mér allt það nýjasta í teppalagningum og vera „all-in“ í því með honum.“

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst mamma?

Þessi spurning er svo kosmísk og risastór að það er ekki hægt að svara henni almennilega nema mögulega skrifa um það bók. Þetta er einfaldlega langstærsta, en á sama tíma langbesta, lífsbreyting sem ég hef gengið í gegnum. Það er miklu auðveldara að forgangsraða og sjá hvað skiptir máli í dag. Tíminn varð líka miklu dýrmætari enda fór hann að líða á ógnarhraða eftir að sonur minn kom. Þetta var besta núvitundarspark í rassinn sem ég gat fengið. Svo komst ég að því nákvæmlega hversu mikið magn líkaminn minn höndlar af koffíni.

Hvað kom þér á óvart varðandi móðurhlutverkið?

„Ástin. Bara hvað það er hægt að elska mikið. Þetta meikar engan sens. Á meðan ég lifi mun ég elska svona mikið, alltaf, alla daga, sama hvað. Það er rugluð pæling. Náttúran er klikkuð. Og svo var það eiginlega ég sjálf sem kom mér á óvart. Ég lærði svo ótrúlega mikið um sjálfa mig og hvers megnug ég er í raun og veru. Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um hversu þolinmóð ég get verið en mögulega er ég bara svona þolinmóð gagnvart syni mínum enda elska ég hann meira en aðra í heiminum. En það kom mér á óvart hversu mikið ég breyttist og óx, lærði að meta tímann minn og sigta burt allt það ómerkilega. Svo finnst mér líka merkilegt hvað ég er hundrað sinnum afkastameiri í dag á öllum sviðum. Minna hangs og meira stuð.“

Finnur þú fyrir pressu frá samfélagsmiðlum sem móðir?

Persónulega ekki, nei. Ég skil hins vegar vel hvernig foreldrar gætu upplifað þá pressu. Mér finnst reyndar líka gaman að sjá að það eru margar af þessum mömmusnöppurum sem eru bara „keeping it real“ og sýna hvernig lífið með börn er í raun og veru. Áfram svoleiðis segi ég bara, það er snilld.“

Hvernig voru fyrstu mánuðirnir með ungbarn?

„Ef ég á að segja alveg satt þá voru þeir bara drulluerfiðir og ekkert spes. Ég man varla eftir fyrstu vikunum. Sem betur fer var ég alveg yfir mig ástfangin af þessu litla barni mínu en hann var með kveisu, endalausar eyrnabólgur og alls konar brjóstagjafavesen. Þannig að litla fallega barnið mitt öskraði bara á foreldra sína, reyndar í tæplega ár. Þetta lagaðist nú samt á fyrstu mánuðunum og þá kom þetta dásamlega bleika ský sem er bara enn þá.“

Varstu í mömmuklúbbi?

„Ég var í svona mánaðarhópi á Facebook en ekki neinum hópi sem hittist eða þannig. Lukkulega voru margar vinkonur mínar á svipuðum tíma þannig að ég hafði marga vini til að leita til ef það var eitthvað en mér fannst reyndar hópurinn mjög sniðugur og las mest allt sem kom þar inn þó ég hafi ekki verið mjög aktívur meðlimur.“

Hvernig komstu þér í form eftir meðgöngu?

„Hlaup og crossfit. Eðal kombó.“

Hvernig var þín fæðingarsaga?

„Ég byrjaði að fá samdrætti á fimmtudegi og var komin niður á deild á hádegi föstudags. Svo gekk þetta rosalega hægt og allt var gert. Belgurinn sprengdur, dripp, mænudeyfing, gas, bað, nefndu það, það var prófað. Sonur minn ætlaði bara ekki að koma.

Á laugardagsmorgun var ég komin með sýkingu í leg og hita, drengurinn sneri með andlitið upp og pikkfastur í grindinni. Allt var reynt þann daginn en klukkan fimm var mér brunað inn á skurðstofu í neyðarkeisara. Tíu mínútum seinna kom þessi 16 marka snillingur í heiminn og ég var bara sjúklega hress með gasið mitt að tala um pólitík við einhverja læknanema sem voru að fylgjast með. Þegar ég spái í því þá voru þeir örugglega að horfa á keisarann og ég að tala við sjálfa mig. Svo var voða vesen að loka þessum blessaða skurði þannig að ég fékk að ræða um ástandið á LSH við alla á skurðstofunni þangað til ég missti meðvitund. Fékk svo að heyra eftir á að ég hefði verið rosa fyndin en í minningunni var ég að leysa öll vandamál íslenska heilbrigðiskerfisins.

Þetta voru frábærar 72 klukkustundir, væri samt alveg til í að stytta ferlið ef ég verð svo heppin að geta eignast annað barn. Klikkaðasta við þetta er auðvitað er að maður myndi gera þetta allt aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert