Barn er besta nýsköpunin

Salóme Guðmundsdóttir ásamt kærastanum sínum Ársæli Páli og syni þeirra …
Salóme Guðmundsdóttir ásamt kærastanum sínum Ársæli Páli og syni þeirra Benjamín á skírnardaginn. Ljósmynd/skjáskot Instagram

Salóme Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Icelandic Startups og situr m.a. í framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs Íslands. Hún hefur á undanförnum árum látið að sér kveða í umhverfi nýsköpunar. Í sumar eignaðist hún sitt fyrsta barn sem hún fullyrðir að sé besta nýsköpunin.

Til lukku með barnið. Er það komið með nafn?

„Takk kærlega fyrir. Við eignuðumst dreng sem við skírðum á afmælisdag pabba hans í lok ágúst. Hann fékk nafnið Benjamín sem okkur þótti bæði fallegt og passa honum vel.

Hann er afskaplega rólegur og góður. Hann brosir mikið og er forvitinn, en hann getur líka verið mjög ákveðinn og vefur okkur foreldrunum strax alveg um fingur sér.“

 Hvernig er að vera mamma?

„Það er stórkostlegt og mikil forréttindi. Þessi litli snáði færir okkur svo mikla gleði alla daga. Við erum búin að vera inni í hálfgerðri bubblu þessar fyrstu vikur og mánuði, njóta þess að kynnast og aðlagast nýjum aðstæðum. Alveg eins og það á að vera held ég bara. En svo er mömmuhlutverkið líka mjög krefjandi á köflum, því fylgir oft lítill svefn og áhyggjur af alls konar.“ 

Er þetta eitthvað sem þú hafðir séð fyrir lífsreynslulega séð?

„Þetta er algjörlega ný vídd og ómögulegt að setja sig í þessi spor fyrr en maður upplifir það sjálfur. En það er kannski líka fegurðin við foreldrahlutverkið. Að því leyti er það eins og nýsköpun, maður tekur þetta bara dag fyrir dag, gerir sitt besta og lærir (vonandi) af mistökunum. 

Ég er vön því að vera með marga bolta á lofti í einu og reglulega á ferðalögum úti um alla trissur svo það hefur vissulega líka verið áskorun að læra að hægja á taktinum. En ég ákvað að líta á þennan tíma sem orlofið er sem tækifæri til að stíga af krafti inn í móðurhlutverkið og einbeita mér að því.“ 

Lukkulegir foreldrar á fæðingardeildinni með nýfæddan son sinn.
Lukkulegir foreldrar á fæðingardeildinni með nýfæddan son sinn. Ljósmynd/skjáskot Instagram

Hvernig ganga verkefnin í vinnunni?

„Hjá Icelandic Startups er í mörgu að snúast, enda sjaldan verið jafnmikil gróska og gangur í umhverfi frumkvöðla og sprotafyrirtækja. Við erum með öflugt teymi sem er drifið af hugsjón og með skýra sýn, sem keyrir verkefnin áfram. Ég fyllist miklu stolti að fylgjast með þeim af hliðarlínunni.

Samhliða fæðingarorlofinu hef ég svo áfram sinnt stjórnarsetu og þá yfirleitt tekið soninn með mér á fundi. Það hefur gengið vonum framar og ánægjulegt að sjá hversu vel því er almennt tekið.“

Hvernig horfir heimurinn við þér í dag?

„Mér finnst ég ótrúlega lánsöm. Forgangsröðunin auðvitað breytist töluvert og lífið hefur fengið nýjan og meiri tilgang. Ég lít bjartsýnum augum á framtíðina og hlakka til að halda áfram að vaxa og þroskast sem foreldri og einstaklingur.“

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem eiga von á sínu fyrsta barni?

„Það verður líklega ekki undirstrikað nógu mikið hversu brýnt það er að hvíla sig vel og njóta þess að undirbúa komu erfingjans. Þegar barnið kemur í heiminn þá er líka mikilvægt að kunna að njóta augnabliksins í stað þess að bíða stöðugt eftir næsta þroskastigi því það kemur fyrr en okkur grunar og áður en varir verður litla krílið okkar fermt og farið að skella hurðum,“ segir Salóme og hlær.

Benjamín er fæddur í júlí og stækkar hratt að sögn …
Benjamín er fæddur í júlí og stækkar hratt að sögn Salóme sem ítrekar mikilvægi þess að njóta hverrar stundar með börnunum á meðan tíminn gefst.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert