Tónleikum skosku hljómsveitarinnar Franz Ferdinand, sem fyrirhugaðir voru á Íslandi 27. maí næstkomandi, hefur verið frestað til 2. september. Fram kemur í tilkynningu frá tónleikahöldurum, að liðsmenn hljómsveitarinnar séu önnum kafnir við upptökur á nýrri plötu, sem virðist ætla að taka lengri tíma en til stóð og því hafi hljómsveitin neyðst til að aflýsa öllum fyrirhuguðum tónleikum í vor og fyrri hluta sumars
Fram kemur í tilkynningunni, að liðsmenn Franz Ferdinand séu mjög áhugasamir um heimsóknina til Íslands og tónleikar þeirra í Kaplakrika í september verði lokapunkturinn á ferð hljómsveitarinnar milli helstu tónlistarhátíða Evrópu.
Tónleikarnir í september fara fram í íþróttahúsinu í Kaplakrika í Hafnarfirði. Enn eru eftir um 300 miðar á tónleikana og eru þeir seldir í verslunum Skífunnar. Í tilkynningunni segir, að séu einhverjir aðdáendur hljómsveitarinnar, sem hafi keypt miða, svo óheppnir að komast ekki á tónleikana þann 2. september geti þeir fengið miða sína endurgreidda í verslunum Skífunnar.