Borgarbókaverðir í Malmö í Svíþjóð ætla nú um helgina að gefa gestum safnsins tækifæri á að fá fólk lánað í 45 mínútur. Segja þeir þetta gert til að sporna við fordómum, því það séu ekki aðeins bækur sem dæmdar séu eftir útlitinu. Á safninu verður til dæmis hægt að fá lánaða Dani, múslími og lesbíur.
Þessu svonefnda Lifandi bókasafni er ætlað að auka samræður á milli ólíkra trúarhópa, þjóðerna og jafnvel starfsstétta. Hefur þetta verið reynt áður á borgarbókasafninu í Kaupmannahöfn og einnig í Noregi, Portúgal og Ungverjalandi.
Auk ofangreindra möguleika verður hægt að fá lánaða blaðamenn, sígauna, blindan mann og dýraréttindasinna og fleiri.