Hvatning frekar en kynjakvótar

Sigurlið MR í Gettu Betur skólaárið 2012-2013
Sigurlið MR í Gettu Betur skólaárið 2012-2013

Fátt hefur verið meira til umræðu á framhaldsskólagöngunum síðustu daga heldur en ný samþykkt um kynjakvóta í Gettu betur. Reglurnar taka gildi vorin 2015 og 2016 samkvæmt samþykkt stýrihóps Gettu betur sem nýlega var bókuð.

Sitt sýnist hverjum um þetta mál, og hafa meðal annars spunnist miklar umræður um málið víða á samskiptamiðlinum Fésbók. Monitor fór á stúfana og fékk álit nokkurra nemendafélagsformanna á málinu.


Hjörleifur Steinn Þórisson, formaður Nemendafélags Borgarholtsskóla, sagðist ekki vera beinlínis mótfallinn breytingunni, enda alltaf jákvætt að kynjahlutföllinn væru nokkuð jöfn. Hann taldi þó að valið í keppnislið skólans færi fram á nokkuð sanngjarnan hátt nú þegar. „MORFÍs lið Borgó var eingöngu skipað stelpum í fyrra, og það var valið algjörlega út frá hæfni. Ég held að það hafi ekki skipt neinu máli svo lengi sem hæfustu einstaklingarnir komust inn.“

Katrín Ósk Ásgeirsdóttir, formaður Nemendafélags Flensborgar, er ekki alveg á sömu línu. „Við erum búin að vera að vinna mikið með svona kynjakvóta hérna í Flensborg og ég er mjög fylgjandi þessum breytingum. Það er fáránlegt að svona fáar stelpur taki þátt í Gettu betur, tvær í fyrra ef ég man rétt. Ég vil ekki senda frá mér Gettu betur lið sem inniheldur bara annað kynið og vil helst koma þessu í framkvæmd strax í ár.“

Í máli þessu þótti ekki úr vegi að fá álit frá fulltrúa Kvennaskólans, en þar hefur alltaf verið hátt hlutfall kvenkyns nemenda. Haukur Már Tómasson, formaður Keðjunnar, sendi Monitor eftirfarandi yfirlýsingu:

„Eftir langa umræðu við samnemendur mína var niðurstaðan sú að með kynjakvótum séum við að segja að stelpur séu ekki jafn hæfar og strákar til að taka þátt í keppninni og þurfi því að búa til sérstakt pláss fyrir þær í liðinu. Þetta finnst okkur ýta enn frekar undir mismunun og senda röng skilaboð til samfélagsins. Samt sem áður er staðreyndin sú að það er ríkjandi karlaveldi í heimi Gettu betur keppninnar og er nauðsyn að reyna að bæta það, t.d. með fleiri kvenkyns þjálfurum og spurningahöfundum. Með því myndum við búa til fyrirmyndir og einnig að sjá til þess að spurningar og viðmót keppninnar sé lagað að konum jafnt sem körlum.“

Jakob Steinn Stefánsson, Ármaður í Menntaskólanum við Sund, tekur í sama streng.

„Í MS eru haldin forpróf þar sem  allir fá tækifæri til þess að taka þátt. Keppendur raðast síðan í liðið alfarið eftir því hvernig þeir standa sig á þessu prófi, óháð því hvers kyns þeir eru.“

En finnst Jakobi mikilvægt að kynjahlutföllin í keppninni séu jöfn?

„Það er auðvitað skemmtilegra að hafa fjölbreytni í þessu, en ég horfi alltaf á fólk sem einstaklinga frekar heldur en að hólfa þá alltaf niður í stráka og stelpur. Ef þú ert með einstakling sem er klár og hæfur í keppnina þá er bara sjálfsagt að hann taki þátt, óháð kyni.“

En hvar liggur þá ástæða þess að hlutföllin eru eins skökk og raun ber vitni?

„Það er erfitt að segja, en eflaust er það að hluta til vegna þess að keppnin er nokkuð karllæg. „Það er mikið spurt um karlmenn, íþróttir karlmanna o.s.frv. Ef því væri breytt að einhverju leyti væri eflaust hægt að auka áhuga stelpna á þátttöku.“

Lilja Dögg Gísladóttir er formaður Framtíðarinnar í MR. Sá skóli hefur unnið keppnina margfalt oftar en nokkur annar, en þó hefur aðeins ein stelpa tekið þátt fyrir hans hönd frá upphafi. Lilju finnst mikilvægt að leiðrétta þetta hlutfall, en telur ekki endilega rétt að þvinga það fram með kynjakvótum.

„Mér finnst mjög mikilvægt að sjá fleiri stelpur í keppninni, en mér finnst samt ekki að það eigi endilega að þvinga það fram. Hérna í MR erum við nú að reyna að gera prófin aðgengilegri með því að halda þau á skólatíma. Þannig gefst öllum tækifæri til að taka þátt í þeim.“

Verzlunarskóli Íslands var eini skólinn af fjórum sem lagðist gegn tillögunni á fundi stýrihóps Gettu betur. Hér má sjá hluta úr yfirlýsingu Úlfs Þórs Andrasonar, formanns Málfundafélags Verzló.

„Við í Verzló erum nýbúin að fá inn stelpu sem liðsstjóra, sem þýðir að hún mun að öllum líkindum keppa á næsta ári. Hún var besti kosturinn og við höfðum ekki hugmynd um yfirvofandi breytingar hjá RÚV þegar hún var valin. Ástæðan fyrir því að við leggjumst á móti þessu er að mörgu leyti sú að við teljum að hagur allra aðila málsins sé best varinn með því að hafa þetta svona. Ekki bara er leiðinlegt fyrir strák sem lendir í 3. sæti í forprófi að þurfa að víkja fyrir stelpu í 7. sæti, heldur er það ekkert endilega jákvætt fyrir stelpuna. Ég veit að ef ég væri í svipaðri stöðu og þeirri sem lýst er hér að ofan og ég væri stelpan, þá væri ég ekkert svo viss um að ég myndi vilja taka þátt á þessum forsendum. Nú er ég engan veginn að segja að allar stelpur sem komast í Gettu betur lið á næsta ári lendi í svona stöðu, en þau dæmi munu samt sem áður koma upp.

Það má samt alls ekki túlka þetta eins og að ég viðurkenni ekki vöntunina á stelpum í Gettu betur. Ég set hinsvegar spurningarmerki við það að þetta sé rétti tíminn til að fara í svona róttækar aðgerðir, þó að margir haldi því eflaust fram að allt hafi verið reynt. Þegar öllu er á botninn hvolft er einungis létt hugarfarsbreyting sem þarf að koma til svo að þetta fari að breyta einhverju. Það er einfaldlega okkar afstaða að þessar hugarfarsbreytingar eigi að myndast á náttúrulegan hátt og í gegnum opinskáa umræðu en ekki þvinganir eins og kynjakvóti jú í raun er.“

Í dag klukkan 16.00 fer fram málfundur um kynjakvóta í Gettu betur í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð. Karen Björk Eyþórsdóttir, formaður Nemendafélags MH, vildi ekki tjá sig um málið fyrr en að fundinum loknum en sagði þó að hún hefði alltaf verið frekar fylgjandi breytingunni en hitt. Monitor hvetur alla til þess að mæta og segja sína skoðun á þessu áhugaverða máli.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Loka