Tísku-og lífstílsbloggarinn Sylvía Dagmar Briem og kærasti hennar Emil Þór Jóhannsson höfðu hugsað sér að tilkynna að þau eiga von á barni með óvenjulegum hætti. Þeim varð svo sannarlega kápan úr því klæðinu en ekki eins og þau bjuggust við.
Sylvía vinnur á RÚV og hafði fengið Boga Ágústson til að taka upp frétt af óléttunni að kvöldfréttum loknum og ætluðu skötuhjúin svo að deila henni með vinum og vandamönnum.
Myndin sem fylgja átti barneignafréttinni rataði hinsvegar óvart inn í í beina útsendingu í gær í nokkrar sekúndur svo alþjóð fékk óvænt að vita af barnaláni Sylvíu og Emils. Sylvía er komin þrjá mánuði á leið og segir heilsuna afar góða miðað við það sem á undan er gengið.
„Ég hringdi í kærastann minn í svo mikilli geðshræringu þegar hann var í skólanum að það eina sem hann heyrði var að myndin fór í beina útsendingu,“segir Sylvía og bætir við að atvikið hafi verið eins og atriði í lélegri grínmynd. „Þetta er eiginlega það slæmt að þetta er bara fyndið og við erum ennþá að hlæja okkur máttlaus“
Sylvía segir samstarfsfólk sitt á Rúv hafa tekið uppákomunni vel. „Þetta var mikið sjokk. Það höfðu allir frekar miklar áhyggjur af mér því ég tók kast og byrjaði að roðna og skjálfa. En svo fóru eiginlega allir bara að hlæja, það var ekki annað hægt,“ segir Sylvía.
Þegar blaðamaður spyr hvort sagan sé ekki orðin betri en sú sem parið lagði upp með tekur Sylvía undir og segist hlakka til að segja barninu frá þessari óvæntu tilkynningu.