Með Tabasco sósu í töskunni (swag)

„Beyoncé kann að vera hæfileikaríkur skemmtikraftur en það ætti ekki að skipta neinn máli hvað henni finnst um nokkurt alvarlegt málefni sem þjóð okkar stendur frammi fyrir.“

Þessi ummæli lét Peter T. King, þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, falla í kjölfar sögulegrar framkomu söngkonunnar á Ofurskálinni svokölluðu fyrir viku síðan.

Í hálfleik flutti Beyoncé Knowles hið splunkunýja „Formation“ sem hefur verið lýst sem nýjum baráttusöng svartra Bandaríkjamanna. Lagið sjálft sem og tónlistarmyndbandið sem því fylgir er þrungið merkingu og vísunum í svarta menningu og hálfleiks-atriði söngkonunnar dró hvergi úr baráttu- og uppreisnarandanum sem „Formation“ er ætlað að blása í brjóst.

167 milljónir manns horfðu á Ofurskálina, sem er einn allra stærsti sjónvarpsviðburður heims ár hvert og því er ekki að undra að framkoma Queen B veki mikið umtal, gott og slæmt.

 Það sem helst fór fyrir brjóstið á þingmanninum, og fjölmörgum öðrum, er að sjónrænt meginþema „Formation“ er sterk andstaða gegn lögregluofbeldi.

King les þessa andstöðu sem andstöðu gegn lögreglunni yfirhöfuð. Hvort sem King líkar það betur eða verr er hinsvegar fullljóst að þegar þekktasta svarta kona heims tjáir sig hlusta allir og hingað til hefur gagnrýni hægri vængsins verið kaffærð í lofsöng. Hún hefur þó einnig hlotið gagnrýni úr öfugri átt, frá svörtu baráttufólki af vinstri vængnum sem þykir hún hoppa full seint um borð í mannréttindalestina.

Mbl.is kafaði í texta, myndmál og þá gagnrýni sem „Formation“ hefur hlotið úr báðum áttum. Áður en lengra er haldið má þó geta þess að í næst síðustu línu lagsins bendir Beyoncé á gallann í staðhæfingu King hér að ofan, jafnvel áður en hann setti hana fram.

„You know you that bitch when you cause all this conversation.“

Ef Beyoncé skiptir ekki máli, af hverju eru þá allir að tala um hana? (Slay)

Sjálfstæð „bama“

Allt frá því að lagið „Independent Women Pt. I“ með Destiny‘s Child kom út árið 2000 hefur ímyndarsköpun Beyoncé snúist um kjarnann „sterk kona“ . Kynþáttur hennar hefur einnig spilað sína rullu en þó hún sé vissulega „sterk, svört kona“ og er reglulega fagnað sem slíkri hefur áherslan í textasköpun verið á kyn hennar fremur en kynþátt.

Allar konur geta enda tekið undir með „Who Run the World (Girls)“ eða „All the Single Ladies“. Í texta „Formation“ kveður hinsvegar við nýjan tón.

„Syrpan sem heild er ofursvört,“ skrifar Jazmine Hughes hjá Cosmopolitan.

. „(...) þetta er lag sem hvítt fólk getur ekki sungið með: Hvíta fólk, reynið að syngja „My daddy Alabama, momma Louisiana / You mix that negro with that Creole make a Texas bamma“ á skemmtistað og sjáið hvað gerist.“

Auðvitað „getur“ hver sem er sungið með textanum, sérstaklega í samfélögum eins og á Íslandi þar sem hvítur almenningur mætir sjaldan mikilli reiði fyrir að koma upp um fáfræði og viðkvæmnisskort í garð minnihlutahópa. Ofangreind lína inniheldur hinsvegar orðið „negro“ sem hinn hvíti kynstofn hefur nánast alfarið fyrirgert rétti sínum til að nota.

Þess utan inniheldur hún orðið „bama“ sem gerir lagið sérlega merkingarþrungið fyrir svart fólk frá Suðurríkjum Bandaríkjanna.

Beyoncé fagnar rótum sínum í suðrinu í myndbandinu.
Beyoncé fagnar rótum sínum í suðrinu í myndbandinu.

 „Bama“ rekur að öllum líkindum rætur sínar til gríðarlegra fólksflutninga svartra frá Suðurríkjunum til annarra landshluta milli 1910 og 1970. Orðið lýsir svörtu fólki sem fellur ekki í hópinn og er álítið skrítið, treggáfaðra og ófínna en aðrir vegna „sveitalegs“ talsmáta eða klæðaburðar. Það gefur auga leið að orðið er niðrandi en miðað við Urban Dictionary hefur það frekar verið notað af svörtu fólki en hvítu.

Beyoncé snýr skammaryrðinu við og gerir það jákvætt. Hún bætir um betur og fagnar algengum útlitseinkennum svartra sem hafa verið notuð til að gera lítið úr þeim. Hún segist kunna vel við svart nef sitt með „Jackson 5 nösunum“ og fagnar þannig stórum svörtum nebbum á við þann sem Michael Jackson heitinn lét „laga“.

Undir setningunni „I like my baby heir with baby hair and afros“ sést dóttir hennar og erfingi, Blue Ivy, ásamt tveimur ungum stúlkum. Algengt er að hárvöxtur svartra sé „óstýrilátari“ en hárvöxtur fólks af öðrum kynstofnum og eru „baby hair“ og afró tvær ólíkar tegundir hárgreiðslna. Þeirri fyrri er lýst sem „ghetto“ og er tilraun til að stjórna hárinu en sú seinni varð að tískufyrirbrigði á hippatímabilinu þegar ungt fólk frelsaði faxið.

„Að heyra um „baby hair“ á meðan við sjáum hár barnsins hennar minnir okkur á að Beyoncé er svört móðir á tímum þar sem svört bernska er brothætt,“ skrifar fyrrnefnd Jazmine Hughes.

 „Það leikur enginn vafi á því að þrátt fyrir ótrúlega frægð Beyoncé og Jay Z hafa þau ekki þurft að hafa sömu áhyggjur og gríðarlegur fjöldi annarra svartra foreldra hafa á degi hverjum: Hvernig held ég svarta barninu mínu á lífi.“

music video beyonce formation

Að bjóða á Rauða humarinn

Kventónlistarmenn sitja jafnan undir gagnrýni úr öllum áttum sýni þær vott af kynferðislegri hegðun. Sumum þykir klæðaburður, háttalag eða talsmáti þeirra óviðeigandi og skorta siðsemi og öðrum þykir þær selja sig ódýrt fyrir markaðsöflin og ýta þannig undir kynferðislega undirokun kvenna.

Beyoncé hefur margoft setið undir slíkum ásökunum og það stundum réttilega ( sjá „Eat the cake Anna Mae“ í „Drunk in love“).

Í „Formation“ er hinsvegar ekki vottur af kynferðislegri undirgefni. Söngkonan segist t.a.m. klæðast gullkeðjum ástmanns síns til að sýna fram á eignarrétt sinn yfir honum og snýr þannig hugmyndinni um að rapparar merki kærustur sínar á haus.

Í línu um veitingastaðinn Red Lobster er karlmaðurinn gerandi í kynlífi en Beyoncé tekur valdið aftur til sín með því að verðlauna hann fyrir góða bólfimi með máltíð. Hún sýnir vald sitt enn frekar með því að verðlauna hann með þyrluflugi („cause I slay“), skutla honum í mollið og leyfa honum að kaupa sér Air Jordan strigaskó („cause I slay“) auk þess sem hún gæti jafnvel reddað því að lagið hans verði spilað í útvarpinu.

Beyonce fer mörgum orðum um hvernig hún vinnur fyrir velgenginni hörðum höndum. Hún notar lýsingu á ljósum húðlit sínum „yellow-bone“ sem sagnorð og undirstrikar þannig stolt sitt á eigin skinni, en hún hefur verið sökuð um að lýsa húð sína vegna skammar á eigin litarafti. 

Rétt eins og hún kallaði konur saman til baráttu gegn feðraveldinu í „Run the World (Girls)“ hvetur hún svartar konur til að sýna samstöðu í baráttu gegn þeirri tvöföldu undirokun vegna kynþáttar síns og kyns.

„Okay,ladies, now let‘s get in formation (cause I slay)
Prove to me you got some coordination, (cause I slay)
Slay trick, or you get eliminated.“

Beyonce hvetur svartar konur til að fylkja liði og sýna að þær geti staðið saman. Þær þurfa að negla það, annars verði þeim útrýmt. Á bakvið þá línu liggur sú staðreynd að konur þurfa að leggja mun harðar að sér en karlmenn til að vera teknar alvarlega, auk vísunar í ótímabær dauðsföll svartra af völdum lögregluofbeldis.

Kynusli, sálarmatur og Jim Crow

Í greiningu sinni á þýðingu „Formation“ segir Dr. Zandria Robinson hjá New South Negress að með glannalegri framsetningu sinni á „svartleika“ verði Beyoncé persónugervingur nær allra svartra kvenna frá Suðurríkjunum, óháð tíma og rúmi. Þegar hún nái ekki að teygja sig lengra taki raddir hinsegin fólks við og spyrji erfiðustu spurninganna.

„ „What happened at the New Wil‘ins?“ spyr Messy Mya úr gröfinni, sem Beyoncé hvetur okkur til að heyra sem spurningu um óleyst morð grínistans sem og spurningu um borgina og svart fólk og suðrið: „Hvað gerðist eftir New Orleans?“ skrifar Robinson.

Messy Mya var rappari og YouTube stjarna frá New Orleans semvar skotinn til bana árið 2010, aðeins 22 ára gamall stuttu eftir að hann yfirgaf veislu til heiðurs ófæddum syni hans.

Samkvæmt New Now Next var kynhneigð Mya óljós en þó er ljóst að hann naut þess að leika sér með flæðandi kyngervi og var fyrirferðamikill á samkynhneigðu senu heimaborgar sinnar. 

Það er Big Freedia líka, en hún lýsir sér sem samkynhneigðum karlmanni en kýs þó að að fólk ávarpi hana í kvenkyni.

Í „Formation“ tilkynnir Big Freedia að hún sé ekki komin til að leika sér („I came to slay, bitch). Hún tekur einnig fram að henni finnist maísbrauð og grænkál gott en bæði eru einkennandi fyrir hefðbundið matarræði í Suðurríkjunum.

Sumum þykja vísanir textans í sálarmat og Rauða humarinn ef til vill furðulegar en það er óneitanlegt að fátt sameinar samfélög eins vel og sameiginlegar matarhefðir. Þess vegna er textabrotið sem titill þessarar greinar vísar í svo afskaplega sterk:

I got hot sauce in my bag – swag“ tautaði Beyoncé og heimurinn féll í stafi yfir þessu óvænta menningarlega vopni.

hot hot sauce

Mikki Kendall útskýrir þýðingu línunnar í grein fyrir Eater. 

„Eitt grunngildið sem amma mín og afi kenndu mér var að vera kurteis og kurteisi í svartri suðurríkjamenningu þýðir að þú borðar hvað sem þér er gefið,“ skrifar Kendall. Hún segir „hot sauce“, sem er samnefnari yfir sterkar sósur með grunni úr rauðum pipar (e. chili pepper), vera eins nauðsynlegt í þeirri menningu og salt. Það þyki góður vani að vera með flösku í veskinu til að grípa til sé maturinn sem manni er boðinn bragðlaus.

„(...) árum saman var ég alltaf með litla flösku af Tabasco sósu við höndina. Það var bernskuvani – amma mín var alltaf með flösku í gímaldslegri tösku sinni- og hluti af vörn minni gegn þeirri uppötvun að þrátt fyrir að sterkur pipar og sterkar sósur væru eðlilegt krydd heima fyrir ætti ekki allt fólk sem bauð mér í mat flösku af sterkri sósu í eldhúsinu.“

Kendall bendir þó á að önnur og myrkari ástæða sé fyrir því að það varð að sið að bera sýna eigin sósu. Á tímum Jim Crow laganna svokölluðu sem kváðu á um aðskilnað milli hvítra og svartra, máttu svartir kaupa mat á veitingastöðum sem hvítir sóttu en máttu stundum ekki borða á þeim. Þar sem svörtum var þjónað til borðs, á öðru svæði en hvítum, þurftu þeir oft að koma með eigin hnífapör , eigin diska og krydd. Kendall segja þetta hafa orðið til þess að svartar fjölskyldur á ferðalögum tækju oftast með sér allt sem þær gætu mögulega þurft á að halda.

„Jim Crow er liðin tíð en lögregluofbeldi og -vanræksla er að drepa svört börn fyrir að leika sér í almenningsgörðum,“ skrifar hún. „Í samfélagi þar sem fólk tjáir móðgun yfir því að svört líf skipti máli (e. Black Lives Matter), segir Beyoncé okkur að það að hún sé með sterka sósu í töskunni sé ekki bara lína um hvernig hún vilji hafa matinn sinn. Hún er menjar og vísun og áminning. Hugsunarháttur Jim Crow er ekki fyllilega í fortíðinni.“

Í lok myndbandsins sekkur lögreglubíllinn og Beyoncé með.
Í lok myndbandsins sekkur lögreglubíllinn og Beyoncé með.

Að sökkva með kerfinu

Myndbandið við „Formation“ er svo marglaga og þakið vísunum að meðal áhugamaðurinn um að lesa á milli línanna getur vart horft á myndbandið án þess að fá vægt flog. Kjarninn er stolt svartra Bandaríkjamanna, þvert á þau árhundruð þrældóms, undirokunar og misréttis sem þeir hafa þurft að þola. Kjarninn er vafinn í ótal lög, m.a. femínisma, hörmungarnar í New Orleans, tísku, trúarbrögð og fleira. Næst kjarnanum er hinsvegar þykkt lag af lögregluofbeldi.

„Eitt táknrænasta augnablikið á sér stað snemma og sýnir upphneppta Bey sitjandi ofan á bíl. Nema það er ekki neinn venjulegur sedan. Ó nei, það er löggubíll á kafi í vatni að hluta,“ skrifar Marquita Harris fyrir Refinery29. Hún líkir atriðinu við myndband Kendrick Lamar við lagið „Alright“ þar sem ungir krakkar dansa á yfirgefnum lögreglubíll.

„Samt sem áður upplifir maður þessa útáfu mun þyngra. (...) að lokum sekkur bíllinn og Beyoncé, glennt yfir þak hans, fer niður með honum.“

Harris tengir bílinn sem sekkur við þau 1.800 líf sem glötuðust í fellibylnum Katrínu og hefði ef til vill verið hægt að bjarga. „Ef kerfið breytist ekki munum við halda áfram að sökkva með því.“

Kerfið sem hún vísar í er stjórnkerfi Bandaríkjanna í heild sem og smærri opinberar einingar en einna helst lögreglan. Líta má á hina sökkvandi Beyoncé sem svo að bíllinn sé að toga hana niður, myrða svartan Bandaríkjamann að ósekju. Síðustu misseri hafa reglulega brotist út óeirðir þegar ljóst er að lögreglumenn sem skotið hafa svart, óvopnað fólk, muni ekki fá neina refsingu að ráði.

Hinn sökkvandi lögreglubíll sýnir að með því að taka líf saklausra borgara er lögreglan að sökkva sjálfri sér, rýra sig trausti og trúverðugleika og ýta undir frekari óstöðugleika. Þannig snýr myndlíkingin að sameiginlegum örlögum lögreglunnar og svartra Bandaríkjamanna, ef annar sekkur þá sekkur hinn með.

 music video beyonce formation

Leiða má að því líkur að uppréttar löngutangir Beyoncé beinist að kerfinu. Enginn vafi leikur á því að hettuklæddi, svarti drengurinn sem breikdansar fyrir framan röð vopnaðra lögreglumanna er persónugervingur allra þeirra ungu lífa sem tekin hafa verið af lögreglumönnum sem skutu fyrst og spurðu svo. Lögreglumennirnir lyfta upp höndum, eins og mótmælendur gerðu eftir að Michael Brown var skotinn til bana í Ferguson („Hands up don‘t shoot“) og myndavélin rennur hratt yfir vegg sem krotað hefur verið á „Hættið að drepa okkur“.

„Mest valdeflandi hluti myndbandsins er að sjá hóp svartra kvenna vinna sem eina einingu í „fylkingu“ (e. formation). Þær hreyfast saman í takt sem ein (...) Það er fallegt. Myndbandið er svo sannarlega virðingarvottur við svört líf.“

Búningur Beyoncé á Ofurskálinni var útpældur.
Búningur Beyoncé á Ofurskálinni var útpældur. AFP

Er Beyoncé rasisti?

Þessi virðingarvottur hefði líklega aldrei vakið jafn hörð viðbrögð ef ekki hefði verið fyrir Ofurskálina. Aðallistamenn kvöldsins, Coldplay, áttu aldrei séns. Aðdáunar- og hneykslunarandköfin glumdu þegar Queen B þrammaði á völlinn með dansarana sína. Hún skartaði ólum þvert yfir brjóstið sem vísuðu í búning konungs poppsins, Michael Jackson, á Ofurskálinni árið 1993 og að auki virtist hún hafa röð skothylkja á ermunum.

Mesta athygli og reiði vöktu þó búningar dansara hennar, sem vísuðu í klæðaburð Svörtu pardusanna (e. The Black Panthers), með leðri og alpahúfum en þeir mynduðu jafnframt stórt X á meðan á dansinum stóð, að því er virðist til heiðurs Malcom X.

Tímasetningin er engin tilviljun. Í ár eru 50 ár liðin frá stofnun Svörtu pardusanna sem voru ein áhrifamesta mannréttindahreyfing Bandaríkjanna frá upphafi. Svörtu pardusarnir eru ekki starfandi lengur og skal þeim ekki ruglað saman við hópinn „Nýju svörtu pardusana“

Flokkurinn byggði á jafnaðarstefnu og kom á fót skólum og heilsugæslum fyrir svarta auk þess að standa fyrir ýmsum öðrum samfélagsverkefnum svo sem morgunverðareldhúsum sem brauðfæddu yfir 10.000 skólabörn á dag. Flokkurinn byggði einnig á svartri þjóðernishyggju (e. black nationalism) en yfirlýst hugmyndafræði snerist fljótt að því að berjast gegn öllum kynþáttafordómum. Vopnaburður var mikilvægur hluti af stefnu flokksins sem hét upprunalega „Black Panther Party for Self-Defense“. Pardusarnir nýttu þann stjórnarskrárvarða rétt sinn sérstaklega við vöktun á störfum lögreglu á götum úti, hvers tilgangur var að koma upp um misbeitingu valds og verja svart fólk fyrir lögregluofbeldi.

Áhersla pardusanna á hernaðaranda þýddi að þeir höfðu ofbeldisfullt orðspor frá upphafi. Í gegnum árinn hafa meðlimir hans verið tengdir við ýmsa alvarlega glæpi s.s. pyntingar og morð á eigin meðlimum, sölu fíkniefna og ofbeldi og morð í útistöðum við lögreglumenn. Það er þó aðeins einn af þessum glæpum sem sem haldið er af lofti af þeim sem mótmæla dansatriði Beyoncé og félaga.

Dansarar Beyoncé á Ofurskálinni klæddust búningum sem vísuðu í Svörtu …
Dansarar Beyoncé á Ofurskálinni klæddust búningum sem vísuðu í Svörtu pardusanna. AFP

Fyrrnefndur þingmaður Peter King, fyrrum borgarstjóri New York Rudy Giuliany, og fréttamenn Fox News stöðvarinnar eru á meðal þeirra fjölmörgu sem hafa tjáð sig um atriði Beyoncé á Ofurskálinni. Það hefur verið kallað rasískt og fjandsamlegt lögreglunni auk þess sem myllumerkið #boycottBeyoncé hefur náð nokkru flugi á samfélagsmiðlum. Þá hefur verið boðað til fjöldamótmæla utan við höfuðstöðvar NFL byggingarinnar á þriðjudag.

„Komum og stöndum saman. Segjum NFL að við viljum ekki hatursorðræðu og rasisma á Ofurskálinni nokkurn tíma aftur.“ 

Eins og sagði hér að ofan eru Svörtu pardusarnir umdeild samtök og meðlimir þeirra hafa óneitanlega framið afar alvarlega glæpi, suma hugsanlega í sjálfsvörn og aðra ekki. Á síðustu dögum hefur flokknum hinsvegar ítrekað verið líkt við Ku Klux Klan. Því hefur verið svarað af svörtu baráttufólki með ýmsum rökum sem erfitt er að mæla gegn, þar á meðal þessari Facebook færslu:

IG: Mickey.FactzSnapchat: realmickeyfactz✊🏾✊🏾✊🏾✊🏾✊🏾✊🏾✊🏾https://www.facebook.com/The-Negro-Subversive-949835018425817/

Posted by Mickey Factz on Tuesday, February 9, 2016

Það að mikill fjöldi fólks telji framkomu Beyoncé hafa verið „fjandsamlega lögreglunni“ er einnig út í hött en kemur ekki á óvart í ljósi þess hve mikilli andstöðu „Black Lives Matter“ hreyfingin hefur mætt. En það að berjast gegn lögregluofbeldi er ekki það sama og að berjast gegn lögreglunni eins og Alaina Leary hjá Her Campus bendir á.

„Flutningur Bey var ekki fjandsamlegur lögreglunni. Það var ákall eftir aðgerðum. Ákall eftir réttlæt (...) Beyoncé notaði útgáfu „Formation“ til að viðurkenna að jú, hún hefur öðlast mikinn auði, frægð og frama en hún er enn meðvituð um rætur sínar og hún stillir sér upp með svarta samfélaginu og hreyfingu samtímans.“

Hún segir ekki hægt að hunsa þá staðreynd að kynþáttafordómar séu enn útbreiddir í Bandaríkjunum og hafi áhrif á allar hliðar daglegs lífs. „Að trúa því að kynþáttafordómar séu algjörlega útilokaðir í lögreglunni og dómskerfinu er fávísi. Kerfisbundnir kynþáttafordómar eru vandamál sem er greipt í bein þessa lands, þeir eru í stoðunum sem halda forréttindum á sínum stað.“

Verkfæri húsbóndans – fyrir hvern?

Eins og fram kom hér að ofan hefur tónlist Beyoncé hingað til beinst að mun breiðari hópi en „Formation“ gerir. Hugsanlega útskýrir það mikið af reiðinni sem beinst hefur að drottningunni síðustu daga. Samfélag hvítra samþykkti Beyoncé sem einn mikilvægasta svarta listamann samtímans, svo lengi sem hún talaði ekki um það.

Fáránleika þessarar ómeðvituðu afstöðu margra hvítra eru gerð góð skil af grínistunum í Saturday Night Life í myndskeiðinu hér að neðan.

„Kannski er þetta lag ekki fyrir okkur,“ segir furðu lostinn hvítur karlmaður og hvít, örvæntingarfull kona svarar „En vanalega er allt það!“

"The Day Beyoncé Turned Black"

When Beyoncé dropped Formation, the internet lost its collective mind — some more than others.

Posted by Saturday Night Live on Sunday, February 14, 2016



Það þýðir þó ekki að lagið sé bara fyrir svarta og raunar enn síður að það sé fyrir alla svarta. Fjölmargir svartir pennar hafa t.a.m. gagnrýnt Beyoncé fyrir að nýta sér viðkvæmt ástand mannréttindamála til eigin gróða.

Dianca London skrifar í Death and Taxes að aðgerðarsinninn Beyoncé virðist frekar byggja á dramatískri markaðskænsku en valdeflingu.

 Lagið og umgjörð þess sé, rétt eins og stjarnan sjálf, miðuð inn á fjöldann og þó svo að popptónlist geti verið áhrifamikil sé hættulegt að taka ekki inn í myndina að skilaboð laga eins og „Formation“ séu í raun auglýsing fyrir vörumerkið Beyoncé. Þá gagnrýnir hún áherslu söngkonunnar á peninga og segir aktivisma hennar dauðadæmdan telji hún „bestu hefndina vera peninga“ eins og segir í síðustu línu lagsins.

„Að líta á fjárhagslega yfirburði sem vald er ekki bara kunnugleg (og gölluð) myndhverfing í hennar grein, það er líka fyrirsjáanlega kapítalísk formúla að áhrifum,“ skrifar London. „Skilaboðin eru skýr: Notaðu það sem Audre Lorde myndi kalla „verkfæri húsbóndans“ eða þú kemur ekki málinu við.“

Það er ekkert hægt að fullyrða um hversu mikinn þátt markaðshyggja á í tilurð „Formation“ en það er alveg ljóst að hún á ríkulegan hluta. Sama dag og myndbandið kom út var netverslun Beyoncé fyllt af ýmsum vörum tengdum laginu sem gera má ráð fyrir að rjúki út eins og heitar lummur.

Lindsey Zoladz hjá Vulture skrifar að jafnvel í því sem skarinn á Ofurskálinni trylltist af fögnuði í hálfleik hafi enn skort svarið við stóru spurningunni, afhverju var Beyoncé þarna? Skýringin hafi komið í formi auglýsingarinnar fyrir fyrirhugað tónleikaferðalag drottningarinnar sem birtist í einu besta auglýsingaplássi sjónvarpsársins.

„Beyoncé (...) fékk í rauninni borgað fyrir að vera með auglýsingu á Ofurskálunni. Það var sem þokkafullur endurómur af lokalínu „Formation“: „Always stay gracious, best revenge is your paper.“

music video beyonce formation

Með löngutangir á lofti

Hvað sem líður kapítalisma og því hvort mannréttindabarátta ætti í raun að stýrast eins mikið af poppstjörnum og raun ber vitni getur ekki enginn neitað fyrir þau gríðarlegu áhrif sem Beyoncé getur haft á baráttu svartra fyrir réttlátara samfélagi – hvorki hægri né vinstri vængurinn. Fyrir hverja gagnrýna grein eða frétt eru tíu aðrar sem fagna framtaki hennar og tengja við það á djúpstæðan hátt.

„Hún syngur fyrir þau okkar sem ólust upp svört í Suðurríkjunum, sem syntu í gegnum fellibylinn Katrínu, sem horfðum á heiminn sökkva, sem sultum í tvær vikur eftir að auga stormsins gekk yfir, sem skildum þau okkar sem dóu fljótandi eftir í húsum okkar,“ skrifar Jesmyn Ward fyrir NPR. „Fyrir þau okkar sem vita að dauðinn situr frammí, að hann breiðir út möttul sinn þegar rauðu og bláu ljósin leiftra að baki okkur (...) og við vitum að hún stóð fyrir okkur öll, með löngutangir á lofti framan í heiminn.“

Tímasetning útgáfu „Formation“ er augljóslega hentug vegna þeirrar gríðarlegu auglýsingar sem það og fyrirhugað tónleikaferðalag Beyoncé fékk á Ofurskálinni. Tímasetningin er þó einnig í eðli baráttunnar. Febrúar er „Black History Month“ í Bandaríkjunum og lagið var gefið út á afmæli Trayvon Martin, eins þekktasta fórnarlambs lögregluofbeldis í Bandaríkjunum.

„Það voru stærri ástæður [en Ofurskálin] fyrir því að þetta myndband kom út á þessum tíma,“ segir sviðsmyndahönnuður „Formation“, Ethan Tobman í viðtali við Curbed og bætir við „það mun verða augljóst á komandi vikum.“

Hvað er framundan á næstu vikum? Nú til dæmis Óskars- og Grammy verðlaunahátíðarnar. Sú fyrrnefnda hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir hvítþvott og sú síðarnefnda raunar líka. Enn sem komið er hefur Beyoncé ekki verið nefnd sem skemmtikraftur á hátíðunum tveimur. Raunar er Grammy verðlaunahátíðin á morgun, 15. febrúar en ef einhver getur tryggt sér pláss á síðustu stundu er það Queen B. En hver veit, kannski gerir hún eitthvað allt annað.

Eitt er víst, að það er vel þess virði að hafa augun opin. Hver veit nema sterka sósan komi upp úr töskunni.

Beyoncé sendir heiminum fingurinn.
Beyoncé sendir heiminum fingurinn.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Loka