Endurspegla veruleika barna

Úr Stefán Hallur Stefánsson og María Telma Árnadóttir í Ég …
Úr Stefán Hallur Stefánsson og María Telma Árnadóttir í Ég get. Ljósmynd/Halldór Örn Óskarsson

Barnaleikritið Ég get eftir Peter Engkvist verður frumsýnt í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu á sunnudaginn kl. 15. Verkið er ætlað allra yngstu leikhúsgestum, börnum á aldrinum tveggja til fimm ára, og er lýst sem ljóðrænni leiksýningu sem er í kjörinni lengd fyrir þennan aldurshóp, um 30 mínútur. Leikstjóri sýningarinnar er Björn Ingi Hilmarsson og leikarar María Thelma Smáradóttir og Stefán Hallur Stefánsson. Búninga hannar Leila Arge, leikmynd Högni Sigurþórsson, Kristinn Gauti Einarsson hannar hljóðmynd og lýsing er í höndum Hermanns Karls Björnssonar.

Gapandi af undrun

„Þau voru alveg stórkostleg,“ segir leikstjórinn Björn Ingi að nýafstöðnu rennsli á sýningunni og á þar við gestina, leikskólabörn á aldrinum 3-5 ára. Ég get segir af tveimur litlum manneskjum sem eru að æfa sig í að vinna saman. Þær leika sér saman, prófa sig áfram og komast að því hvað gerist þegar forsendum í leiknum er breytt, eins og það er orðað á vef leikhússins.

Björn Ingi Hilmarsson.
Björn Ingi Hilmarsson. mbl.is/RAX

Björn Ingi er spurður hvort þungu fargi hafi verið af honum létt með góðum viðtökum rennslisgesta. „Já, það var gaman að sjá hvað þau voru mikið með, þau voru algjörlega með og mér fannst það bara stórkostlegt. Þá veit ég að við erum að gera eitthvað rétt,“ segir hann léttur í bragði.

–Þetta er ekki fyrsta sýningin sem þú leikstýrir fyrir þennan aldurshóp?

„Nei, ég byrjaði á að leikstýra Lofthrædda erninum Örvari, hann var fyrir svipaðan aldur,“ svarar Björn Ingi og á þar við uppfærslu Þjóðleikhússins á því verki, sem sýnd var leikárið 2016-17. Hann segir hópana geta verið ólíka sem komi á sýningarnar og gaman að sjá börnin gapa af undrun og fylgjast með einlægum viðbrögðum þeirra við töfrum leikhússins.

Uppgötvanir

–Titill verksins, Ég get, vísar væntanlega til þess að verkið snúist um hvað börn geti og að þau geti kannski meira en þau halda?

„Já, en þetta er líka tengt ákveðnum aldri, þegar sjálfið fer að verða til,“ svarar Björn Ingi. Verkið sé upphaflega sænskt og setningar í því á borð við „ég get“ og „ég á“ komi upphaflega úr munni fjögurra ára drengs. Björn segir að börn á þessum aldri séu að uppgötva allt í lífi sínu og umhverfi og hafi óbilandi trú á sjálfum sér sem sé afar fallegt. „Þetta eru aðstæður sem maður getur ímyndað sér að börn lendi í og við erum að endurspegla á einhvern hátt þeirra veruleika. Ég myndi segja að verkið væri að einhverju leyti um það að verða einstaklingur eða öðlast sjálfsmynd, fyrir utan svo margt annað,“ segir hann.

Spurður út í búninga og leikmynd segir Björn Ingi að hvort tveggja sé einfalt og fallegt. „Það er gaman að leika sér með lýsingu og hljóðmynd og þá lýsinguna sérstaklega,“ segir hann. Úr leikmyndinni, sem einkennist einna helst af pappakössum, sé hægt að búa til hina ýmsu hluti og aðstæður og eitt og annað öðlist líf líkt og fyrir töfra, eins og verða vill í leikhúsi.

Langt samstarf

Ég get var frumsýnt fyrir tveimur árum í Stokkhólmi, að sögn Björns Inga, og hafa þeir Engkvist, höfundur verksins, unnið saman oftar en einu sinni. „Ég byrjaði að vinna með honum 1993-4, þá gerðum við sýninguna Lofthræddi örninn Örvar, ég lék og hann leikstýrði. Svo unnum við aftur saman í Borgarleikhúsinu í Beðið eftir Godot og svo var ég að vinna í leikhúsinu í Stokkhólmi, sem hann er listrænn stjórnandi við, frá 2010 til 2015,“ segir Björn Ingi og á þar við Teater Pero.

Engkvist hefur leikstýrt nokkrum leiksýningum hér á landi, m.a. Ormstungu og Mr. Skallagrímsson og Maðurinn sem hélt að konan hans væri hattur. „Hann er búinn að vinna mikið hérna á Íslandi, hann á íslenska eiginkonu sem er leikkona í leikhúsinu hjá honum úti,“ segir Björn Ingi um vin sinn Engkvist.

Ég get verður frumsýnt á sunnudaginn og næstu sýningar verða 14. og 20. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson