Logi Bergmann: Borgarstjóri í hálfan dag

Logi Bergmann Eiðsson.
Logi Bergmann Eiðsson.

Logi Bergmann Eiðsson hefur hafið skrif á pistlum í sunnudagsblað Morgunblaðsins sem verða aðgengilegir áskrifendum í blaðinu og á vefnum. Í pistlinum um síðustu helgi játar hann að vera hrekkjalómur og víkur að borgarmálum.

Pistilinn má lesa í heild hér að neðan og næsta pistil má lesa í sunnudagsblaðinu um helgina:

„Ég er hrekkjalómur og hef alltaf gengist upp í því að hrekkja fólk. Það er heilbrigð og góð skemmtun – ef það er gert rétt. Ég er ekkert að grínast með þetta, eða þannig, enda hef ég skrifað bók og haldið fjölda fyrirlestra á vinnustöðum um grunnreglur í góðum vinnustaðahrekkjum.

Ein af reglunum sem ég kenni er að maður megi ekki verða fúll þegar manni er svarað. Það er mjög mikilvæg regla, enda fátt meira pirrandi en grínarar sem hafa ekki húmor fyrir því ef einhver svarar fyrir sig. Mér finnst reyndar fólk of sjaldan svara fyrir sig í þessum efnum.

En í vikunni gerðist það. Á Facebook var stofnuð síða um „Persónulegt framboð Loga Bergmanns til borgarstjóra.“ Mér fannst hún ekki fá nógu mörg læk en það dugði mér samt til að velta því fyrir mér hvað ég nenni hrikalega mikið ekki að blanda mér í þessa borgarpólitík. Ég held að ég myndi frekar borða glerbrot.

Vandamál borgarinnar er að hún er í raun tvískipt: Sléttan og hæðirnar. Þessir tveir hópar virðast eiga sáralítið sameiginlegt, svo við dettum aðeins í alhæfingarnar: Fólkið á sléttunni vill hjóla milli kaffihúsa og taka notalega borgarlínu þegar það á erindi út fyrir hverfið sitt. Fólkið í hæðunum væri sjúklega til í að gatan þess væri einhvern tímann mokuð og það sæi mögulega í gangstétt yfir veturinn.

Það segir sig kannski soldið sjálft að þessir hópar verða ekki sammála. Það er allt í lagi. En er ég sá eini sem hugsar með hryllingi til þriggja mánaða þrass um borgarlínu, mislæg gatnamót, hraðahindranir og sjálfkeyrandi bíla?

Nú tek ég það fram að ég hef ekkert vit á þessu. Það eina sem ég veit er að þið getið gleymt þessari sjálfkeyrandibílavitleysu. Við verðum öll dauð áður en það gerist. Það er ekki einu sinni búið að hanna þytbrettið úr Back to the Future. Haldið þið í alvöru að við ætlum að fara að leyfa sjálfkeyrandi bíla þegar við leyfum ekki einu sinni hunda í strætó?

Nú bý ég sjálfur í Vesturbænum og er búinn að ráða mig til starfa á Morgunblaðinu í Hádegismóum. Sem mér finnst vera hálfa leiðina á Blönduós. Og vissulega getur verið ógurlega pirrandi að sitja fastur í umferð og komast ekki áfram. Sérstaklega þegar maður er orðinn of seinn, sem er reyndar frekar venjulegt ástand hjá mér. Ég er alls ekki að draga úr mikilvægi samgöngumála og við verðum að hafa alvöru almenningssamgöngur. En ég spyr: Getum við ekki talað um eitthvað fleira?

Það er svo margt sem skiptir máli fyrir okkur borgarbúa. Mér finnst til dæmis akkúrat núna stærra vandamál að við fáum ekki fólk til að vinna á leikskólum og frístundaheimilum. Getum við talað um það í smástund? Kannski líka um fjármál borgarinnar sem virðist stundum reka sig eins og unglingur á smálánum.

Ég væri líka alveg til í að tala aðeins um Orkuveituhúsið sem menn ákváðu að byggja með tánum og rassgatinu og senda okkur svo reikninginn þegar það þarf nánast að rífa það. Og ég gæti jafnvel gefið mér nokkrar mínútur til að tala um borgarskipulag. Hversu mikið er hægt að þétta byggð og hvort við viljum fleiri skuggahverfi. Bara eitthvað annað, svona í bland.

Ég held nefnilega að borgarmál séu í raun skemmtileg. Þau varða umhverfi okkar, eru ekki jafnlituð af hefðbundinni flokkapólitík og landsmálin og Reykjavík er í alvöru frábær borg. Ef við tækjum höndum saman, og ræddum um eitthvað fleira en þessa blessuðu borgarlínu, gætum við örugglega gert hana enn betri. Þá skal ég kannski verða borgarstjóri. Ef það er ekki rosalega mikil vinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant