Logi Bergmann: „Ég kann víst að keyra“

Logi Bergmann Eiðsson.
Logi Bergmann Eiðsson.

Logi Berg­mann Eiðsson hef­ur hafið skrif á pistl­um í sunnu­dags­blað Morg­un­blaðsins sem verða aðgengi­leg­ir áskrif­end­um í blaðinu og á vefn­um. Í pistl­in­um sem birt­ist um síðustu helgi fjall­ar Logi m.a. hvernig íbúar á landsbyggðinni telji að borgarbúar geti á engan hátt ekið í snjó. Logi, tengdasonur landsbyggðarinnar, útskýrir málið blíðlega í pistlinum.

Hér má lesa pistil Loga í heild sinni:

„Ég var alveg rólegur þegar ég heyrði talað um 101-rottur í sjónvarpinu. Mér fannst það bara notalegt. Ég man nefnilega þá tíð þegar það var alvörurígur á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Maður er alveg hættur að heyra um sérfræðingana að sunnan, afæturnar í Reykjavík og svo varð bara landsbyggðin allt í einu töff, á einhvern krúttlegan hátt. Ég held að það hafi gerst þegar Prins Póló flutti í Berufjörðinn.

Það er helst að Gísli Marteinn nái að æsa varginn aðeins upp þegar hann hjólar í kringum flugvöllinn. Þá stundum heyrum við eitthvað um kaffihúsasamfélagsmiðlalattélepjandi liðið í borginni.

En svo gerist það. Það byrjar að snjóa. Þá skal ekki bregðast að einhver á landsbyggðinni þarf nauðsynlega að koma því að, að við hér á suðvesturhorninu kunnum ekki að keyra. Engu skiptir þótt allt sé svo lokað að enginn komist yfir nema fuglinn fljúgandi og Ásmundur Friðriksson. Þetta lið fyrir sunnan kann bara ekki að keyra í snjó.

Já, og vel á minnst. Þetta er víst ekki snjór hjá okkur. Það er alveg sama hvað það kyngir miklu niður. Hér verður þetta aldrei meira en föl. Það er sko bara á landsbyggðinni sem snjóar almennilega. Og þar virðast ekki finnast nein dæmi um að nokkur hafi lent í óhappi eða svo mikið sem fest sig í innkeyrslu.

Nú gæti ég sagt ýmislegt um þorp þar sem hægt er að míga milli bæjarhluta og sitthvað fleira. En ég geri það ekki. Ég er tengdasonur landsbyggðarinnar og vil frekar útskýra þetta blíðlega fyrir vinum mínum í hinum dreifðu byggðum.

Fyrir það fyrsta erum við heldur fleiri hér. Og þið hafið kannski heyrt af því að umferðin getur verið soldið óstuð, jafnvel á fögrum sumardegi. Þannig að auðvitað má búast við smáveseni þegar við þurfum að eiga við fimmtán sentimetra jafnfallinn snjó sem verður reyndar að viðurkenna að kemur okkur á óvart. Sem er kannski hluti af vandamálinu. Við erum mögulega ekki alltaf tilbúin, enda svo margt annað að gera hér í stórborginni en hanga yfir veðurfréttum.

Svo hefur það nú varla farið framhjá neinum að hér er mikið af ferðamönnum. Og þeir eru ekki alveg vanir þessari veðráttu. Sem væri svo sem alveg í lagi ef þeim fyndist þetta ekki svona svakalega spennandi. Þeir vilja endilega fara út að keyra og reyna sig við íslenska snjóinn, eins og snævi þaktar göturnar séu borð í spennandi tölvuleik. Hjá þeim er óveður bara eitt stórt ævintýri. Þeim til varnar er rétt að taka fram að þeir eru alltaf afskaplega kurteisir og glaðir þegar maður ýtir þeim uppúr sköflunum.

Svo höfum við þann skemmtilega sið hér að vera ekkert að moka of mikið og þegar við gerum það þá reynum við helst að gera það fyrir innkeyrslur. Það er óneitanlega hressandi að mæta hvítum vegg, vel á annan metra, þegar maður ætlar að bakka út heiman frá sér.

Svo má ekki gleyma því að samkvæmt rannsóknum telja 90 prósent ökumanna sig yfir meðallagi. Það þarf ekki mörg ár í stærðfræði til að sjá að það er frekar ólíklegt. En þessir sérfræðingar reikna út að þeir séu svo góðir að þeir geti alveg náð þessu á dekkjum sem eru sléttari en skallinn á Steingrími Joð.

En helst vil ég nefna frétt sem ég sá um daginn. Þar var talað við einhvern björgunarsveitarmann sem sagði að vandamálið væri hreint ekki fólkið á smábílunum, ekki einu sinni útlendingarnir. Nei, það væri helst menn á mjög stórum jeppum. Og það tengist náttúrlega ekki því hvar við búum heldur miklu frekar tiltekinni útlimastærð.

(Ég vil bara taka það fram í þessu sambandi að sjálfur ek ég á penum slyddujeppa.)“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson