Fólk þarf eldsneyti

Gus gus-mennirnir Daníel Ágúst og Biggi Veira á ferð við …
Gus gus-mennirnir Daníel Ágúst og Biggi Veira á ferð við eina af bensínstöðvum borgarinnar. mbl.is/Hari

Lies Are More Flexible, eða Lygar eru sveigjanlegri, nefnist nýjasta breiðskífa Gus Gus sem kemur út á morgun, 23. febrúar, og er hún jafnframt sú tíunda sem sveitin sendir frá sér. Gus Gus skipa nú Biggi Veira og Daníel Ágúst Haraldsson og hefur hljómsveitin bæði stækkað og minnkað á þeim tæplega 23 árum sem liðin eru frá stofnun hennar, árið 1995.

Síðasta plata Gus Gus, Mexico, kom út fyrir um þremur og hálfu ári og þeir Biggi og Daníel eru spurðir að því hvað hafi á daga Gus Gus drifið frá þeirri útgáfu. „Við höfum verið að túra, ferðast um heiminn og náttúrlega semja nýja plötu ... eða plötur,“ svarar Daníel og Biggi bætir við að þeir hafi alltaf verið dálítið lengi að gera plötur. „En nú ætlum við að laga það ... eða næst,“ segir hann kíminn og Daníel skýtur inn í að þetta segi þeir í hvert sinn sem þeir sendi frá sér breiðskífu.

– Hvernig stendur á því, eruð þið svona vandvirkir?

„Þegar maður gefur út plötu tekur alltaf tíma að losna við hana úr taugakerfinu þannig að maður geti gert nýja, það getur tekið heilt ár. Svo fer maður að þreifa fyrir sér og spá í hvað mann langar að gera næst. Stundum er maður kominn með einhverjar hugmyndir um það, búinn að hlusta á einhverja tónlist eða tappa inn í einhverja strauma og stefnur, bæði nýjar og gamlar og þannig mótast hvað okkur langar að prófa að sjóða saman næst,“ svarar Biggi. „Síðan kemur alltaf að því að demóin fara að gefa lykt af næstu plötu og þá fer þetta að ganga aðeins hraðar.“

Textarnir og melódíurnar koma oft samsíða

Biggi segir plötugerðarferlið í raun tvíþætt. „Annars vegar er ég bara í stúdíóinu að kokka upp einhverja elektróníska sýru á synthana mína, reyna að ná niður einhverjum einföldum skissum sem innihalda eitthvert sánd eða grúv sem hægt væri að nota. Og þegar Daníel tengir við einhverja skissuna verður kannski til lag,“ segir Biggi og Daníel fær orðið. „Textarnir við lögin og melódíurnar koma oft samsíða. Ég þarf náttúrlega líka að upplifa eitthvað og gera einhverja sýru til þess að hafa eitthvað um að semja svo eitthvert innihald sé í þessu,“ segir hann.

Biggi segir þá Daníel oft hanga saman löngum stundum í stúdíóinu og vilji þeir fá algeran frið til listsköpunar er haldið í sumarbústað. Á umslagi plötunnar nýju er ljósmynd af Daníel með bensínstöð í bakgrunni og veðrið heldur hráslagalegt, snjór og kuldi. Blaðamaður spyr hvort myndin hafi verið tekin þegar þeir voru á leið í bústað og Daníel svarar um hæl: „Nákvæmlega“.

Umslag plötunnar nýju.
Umslag plötunnar nýju.

Mynd af engu

– Þetta er skemmtileg súr ljósmynd, verð ég að segja. Hver er pælingin með henni?

„Fólk þarf að vera á ferðinni og fólk þarf eldsneyti og það gerir það á Íslandi í hvaða veðri sem er. Það þarf eldsneyti í lífinu til að geta haldið því gangandi,“ svarar Daníel og Biggi segir að þessi ljósmynd sé að hluta til valin út frá hugmynd um mynd af engu þannig að sá sem skoði hana verði sjálfur að finna viðfangsefnið. „Það sem okkur fannst áhugavert við þessa bensínstöðvarpælingu var spurningin um hvar þú finnur fyrir dýptinni í lífinu. Er það ekki einmitt á stað sem er frekar leiðinlegur, þar sem þú finnur enga afþreyingu? Þú finnur þig sjálfan á bensínstöðinni því það er ekkert annað þar,“ segir Biggi og Daníel bætir við að lífsfyllingin komi innan frá, þegar ekkert er áreitið.

„Við lifum á mjög sérstökum tímum þar sem skoðanir eru allt í einu rétthærri en sannleikurinn, það eru margir á þeirri skoðun. Sannleikurinn er orðinn afstætt fyrirbrigði á þessum „post-truth“ tíma sem við lifum á,“ segir Biggi um titil plötunnar. „Hann tengist líka þessum litlu lygum sem við segjum sjálfum okkur til að réttlæta líf okkar og sá þokuvefur torveldar okkur sýn á hvað líf okkar raunverulega er því oft er maður bara að elta einhverjar lygar, í raun og veru. Þær eru svo þægilegar, lygarnar, svo miklu sveigjanlegri en sannleikurinn. Og við sjáum það líka í íslenskri pólitík, ef hægt er að komast auðveldu leiðina er í lagi að hún sé lygi.“

Eitthvað kunnuglegt við áferðina

– Það er greinilegt frá fyrsta lagi á plötunni að þarna er Gus Gus á ferð og lögin minna sum hver á eldri lögin ykkar. Hafa aðrir nefnt þetta við ykkur?

„Nei, kannski ekki,“ svarar Biggi og Daníel spyr á móti: „Hljómar þetta ekki bara eins og eitthvert gamalt lag með einhverjum allt öðrum?“ Þeir hlæja og Biggi segir að fólk virðist alltaf þekkja Gus Gus-hljóminn. „Það er eitthvað varðandi áferðina sem fólk þekkir, hvernig þetta blandast saman þó þetta séu mörg mismunandi lög,“ segir hann.

Daníel bendir á að tónlistin sé gerð í rafrænu umhverfi og að þeir muni ekki taka upp kassagítarana og fara að djamma. „Við erum í þessu umhverfi og þó það sé sveigjanlegt og teygjanlegt hefur það tón og hljóm sem þekkist. Og Biggi er náttúrlega galdrakarlinn í Gus Gus-stúdíóinu og þó hann komi með nýjar uppskriftir þá er þetta jú sami kryddskápurinn!“. Þeir hlæja innilega að þessum matreiðslusamlíkingum og Biggi segir að alltaf megi finna einhverjar nýjar pælingar þó ekki sé endilega víst að hlustandinn átti sig á því hverjar þær eru.

„Þegar við byrjuðum að vinna þessa plötu höfðum við bakvið eyrað að tengja aðeins inn á nýbylgjutímabilið milli '78 og 84, þá sérstaklega rafræna hlutann,“ útskýrir Biggi og að nýbylgjuáhrifin megi greina bæði í hljómagangi og tilteknum „sándum“.

Vínyllinn ennþá kósí

– Þetta er fyrri platan af tveimur sem þið hafið verið að vinna í á sama tíma?

„Já, síðasta vor var ákveðið að skipta plötunni í tvennt svo við gætum náð að klára plötu fyrir haustið og gera næstu núna í vetur og hafa plöturnar frekar styttri. Það er nefnilega ekki búið að mótast almennilega hvaða áhrif þessi nýi veruleiki í tónlistarneyslu hefur á þetta LP-format. Við lítum á okkur sem albúm-artista. Við erum ekki „single“-artistar – gerum ekki lög og gefum út og svo fleiri lög og svo eru plöturnar bara eitthvert samansafn af lögum – heldur lítum við svo á að við séum að gera stórar plötur. Neysluhegðunin er búin að breytast svo mikið og það er áhugavert að pæla í því hvaða áhrif það hefur á stóru plöturnar,“ svarar Biggi.

Hann bendir á að vínylplötur hafi sett ákveðinn tímaramma á sínum tíma, 45 mínútur og geisladiskurinn svo 80 mínútna ramma. Nú sé geisladiskurinn svo gott sem dauður og rýmið orðið endalaust, þ.e. hið stafræna á netinu, auk þess sem líftími platna sé orðinn miklu styttri en áður. „Það er þá betra að vera með styttri plötur og gefa út plötur oftar og því hentaði okkur vel að tengja það við vínylformatið sem er það eina áþreifanlega sem eitthvert vit er í,“ segir Biggi. Enn sé kósí að setja plötu á fóninn heima í stofu.

Getur valdið gæsahúð

Gus Gus virðist síbreytileg að stærð, í upphafi voru liðsmenn sveitarinnar níu en núna eru þeir tveir. Blaðamaður nefnir þetta við þá félaga og svarar Daníel því til að hljómsveitin hafi samt sem áður aldrei verið stærri. Biggi hlær að þessum ummælum, tekur undir með vini sínum og bætir við að nú sé fókusinn á samspil hans og Daníels en áður hafi hann verið á meira á framlínu söngvaranna.

– Gus Gus er bæði þekkt og vinsæl hljómsveit í hinum ólíklegustu löndum. Í hvaða landi haldið þið að hún sé hvað vinsælust?

„Það er nú bara hægt að horfa á tölurnar. Við erum heimsóttir á netinu af fólki frá hinum ólíklegustu löndum, eins og þú segir, en mest er það frá Mexíkó og Rússlandi,“ segir Daníel og Biggi bætir við Póllandi og Þýskalandi og segir Gus Gus líka vinsæla í löndum Austur-Evrópu og á Spáni. „Svo höfum við alltaf verið með gott fylgi í Bandaríkjunum en þau eru bara svo stór og sá hópur mjög dreifður,“ segir Biggi. Ef nefna eigi borgir sem Gus Gus njóti hvað mestra vinsælda í séu það Moskva, Mexíkóborg, Kænugarður og Berlín.

– Hvar er skemmtilegast að halda tónleika, hvar er fólk líflegast?

„Hverjir einustu tónleikar eru frábærir,“ svarar Daníel og Biggi tekur undir það. Þeir hafi alltaf verið heppnir með tónleikagesti. „Það kemur til að skemmta sér og hlusta á músíkina okkar, kann yfirleitt textana og fylgist með. Það er bara æpandi af ánægju og gleði, dansar og skemmtir sér, fer út úr líkamanum,“ segir Daníel. Biggi bætir því við að það sé markmið þeirra Daníels að bjóða upp á dáleiðandi, tilfinningaþrunginn ryþmaseið sem sé „einhver skepna“. Hann hlær að þessari skáldlegu lýsingu sinni og varar að lokum við því að Gus Gus geti kallað fram gæsahúð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler