Rigna mun blóði í Dalnum

Slayer á tónleikum í fyrra.
Slayer á tónleikum í fyrra. AFP

Slayer, eitt áhrifamesta málmband sögunnar, hefur ákveðið að rifa seglin og leggur af stað í sína hinstu tónleikaferð með vorinu. Blóði mun rigna á túrnum og engu verður eirt, allra síst í Laugardalnum. 

Nú þegar mánuður er liðinn frá því að Slayer tilkynnti að hinsta tónleikaferðin væri í burðarliðnum liggur enn ekki fyrir hvers vegna málmbandið goðsagnakennda er að leggja upp laupana. Tilkynningin á heimasíðu bandsins er afskaplega almennt orðuð en ef draga á einhverja ályktun út frá henni er það væntanlega að menn séu einfaldlega búnir að fá nóg eftir 37 ár í eldlínu þrassins. Fleiri orrustur verði ekki háðar.

Kanadíska málmgagnið The Metal Voice náði að vísu í skottið á Gary Holt gítarleikara fyrir skemmstu en hann varðist allra frétta. Staðfesti þó að þetta væri ekkert gabb; Slayer væri að sauma feril sinn saman. „Millinafn mitt er „No Comment“. Sjáumst á tónleikunum. Án gríns, no comment.“

Dagsetningar á fyrsta legg tónleikaferðarinnar liggja fyrir en þá mun Slayer troða upp í Bandaríkjunum og Kanada. Fyrsti viðkomustaðurinn er San Diego 10. maí nk. og áfram verður haldið langt fram eftir júnímánuði. Evróputúrinn hefur enn ekki verið kynntur fyrir utan tónleikana á Secret Solstice í Laugardal 21. júní og óstaðfest er hvort lokalokagiggið verði á þessu ári eða jafnvel því næsta. Eða þarnæsta.

„Túrinn verður rosalegur. Þetta verður geggjað. Það er sannur heiður að fá að taka þátt í þessu. Við ætlum að gera þetta eins eftirminnilegt og kostur er – ljúka þessu með stórkostlega ofbeldisfullum hætti. Þetta verður epískt!“ fullyrðir Gary Holt í fyrrnefndu no comment-viðtali. Holt tók sem kunnugt er við af Jeff Hanneman þegar hann féll frá fyrir fimm árum. Hafði raunar túrað með Slayer í tvö ár þar á undan vegna veikinda Hannemans.

Tveir með frá upphafi

Tveir upprunalegir meðlimir eiga ennþá aðild að Slayer, gítarleikarinn Kerry King og bassaleikarinn og söngvarinn Tom Araya. Trommuleikarinn Paul Bostaph hefur verið í bandinu með hléum frá 1992; að mestu skipst á við upprunalega trymbilinn Dave Lombardo. Hvort sá síðarnefndi kemur til með að slást eitthvað í hópinn á lokaferðalaginu liggur ekki fyrir en verður að teljast ólíklegt enda hafa Lombardo annars vegar og King og Araya hins vegar ekki alltaf átt skap saman.

Síðasta hljóðversplata Slayer, Repentless, kom út árið 2015 og ekkert bendir til annars en að hún verði sú tólfta og síðasta. The Metal Voice gekk vitaskuld á Holt með það og eftir að hafa sagt hreint nei kvaðst hann ekki vita neitt og faldi sig aftur á bak við „no comment“.
Enda þótt Slayer sé stálpað band, liðsmenn eru á aldrinum 53-56 ára, er það fráleitt með þeim elstu í bransanum. „Feður málmsins“, Black Sabbath, létu tjaldið falla í fyrra komnir fast að sjötugu. Þá eru bönd á borð við Iron Maiden og Judas Priest ennþá í fullu fjöri, að ekki sé talað um jafnaldra Slayer og félaga í Big Four-klúbbnum, Metallica, Megadeth og Anthrax.

Talsvert hefur að undanförnu verið vitnað í viðtal við Tom Araya frá árinu 2016, þar sem hann gaf í skyn að tími færi að koma á það að innheimta lífeyrinn. Hann býr ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum þeirra á búgarði í Buffalo, Texas.
Mögulega hefur fráfall Hannemans líka dregið úr þeim félögum máttinn en hann var, ásamt King, helsti lagahöfundur Slayer. Þess skelfilega missis er sérstaklega getið í yfirlýsingunni á heimasíðu bandsins.

Þar kemur einnig fram að menn komi til með að „snúa sér að öðru“ að tónleikaferðinni lokinni.

Nánar er fjallað um Slayer í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant