Á stefnumóti við lesendur

Elísabet Kristín Jökulsdóttir skáld og lífskúnstner á útitröppunum sínum.
Elísabet Kristín Jökulsdóttir skáld og lífskúnstner á útitröppunum sínum. Morgunblaðið/Hari

þegar ég varpaði þeirri spurningu fram á Facebook fyrir um mánuði hvernig ég ætti að halda upp á afmæli mitt skrifaði Soffía Auður að tilvalið væri að halda málþing, en það vill svo skemmtilega til að mig hefur lengi dreymt um svona málþing,“ segir lífskúnstnerinn og skáldkonan Elísabet Kristín Jökulsdóttir sem í liðinni viku fagnaði sextugsafmæli sínu og í tilefni tímamótanna er blásið til málþings henni til heiðurs í Gunnarshúsi á morgun, sunnudag, milli kl. 15 og 17. „Soffía Auður setti þetta allt í gang og á heiðurinn af málþinginu. Ég er núna að láta búa til litlar dýrlingastyttur af henni til að selja í minjagripabúðinni minni,“ segir Elísabet og vísar þar til Soffíu Auðar Birgisdóttur bókmenntafræðings sem setja mun málþingið og jafnframt flytja erindi um skáldskaparheim Elísabetar. Aðrir fyrirlesarar eru Hólmfríður M. Bjarnardóttir sem rýnir í leikritið Ahhh... Ástin er að halda jafnvægi. Nei fokk. Ástin er að detta sem byggt er á textum eftir Elísabetu og leikhópurinn RaTaTam frumsýndi í Tjarnarbíói í febrúar auk þess sem sýnt verður brot úr verkinu; Hrund Ólafsdóttir fjallar um skáldsöguna Laufey og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir fjalla um ljóðabókina Ástin er ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett.

Elísabet segist hlakka til að eiga samtal við bókmenntafræðingana. „Eitt sinn fékk ég viðurkenningu frá ritlistarhópi Kópavogs sem var stór steinn sem á stóð að ég væri alltaf á stefnumóti við lesendur. Það vill enginn karlmaður koma á deit með mér, en hins vegar er ég alltaf á stefnumóti við lesendur og bókmenntafræðinga, enda finnst mér bókmenntafræði alveg svakalega spennandi og safaríkt fag. Ég er í reynd gátusmiður og þeir eru að ráða gáturnar og þá sé ég aftur nýjar gátur,“ segir Elísabet sem á málþinginu mun einnig flytja eigin ljóð í samspili við Borgar Magnason kontrabassaleikara.

„Borgar er svo fjölhæfur listamaður að hann getur gert allt. Kontrabassinn er beintengdur við eilífðina eins og ljóðin. Ég hugsa að við flytjum ljóð úr Næturverðinum sem fjalla um ástina, stríðið og Kúrdistan. Skáldskapurinn og Kúrdistan eru systkini. Það veit enginn hvar Kúrdar eiga heima því þeir eiga ekkert land. Skáldskapurinn á heldur ekkert sérstakt land, hann á bara heima þar sem við sjáum eitthvað skáldlegt og göldrótt. Skáldskapurinn hefur því engin landamæri,“ segir Elísabet og tekur fram að hún hafi einnig verið að safna saman orðum móður sinnar, Jóhönnu Kristjónsdóttur, sem lést fyrir tæpu ári.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir í eldhúsinu sínu.
Elísabet Kristín Jökulsdóttir í eldhúsinu sínu. Morgunblaðið/Hari

Búa mætti til konfektkassa

„Ég flutti orðin á tónleikum á hátíð hljómsveitarinnar Hatari í Iðnó um daginn fyrir fullt af ungu fólki. Þeim fannst stórkostlegt að heyra orðin hennar mömmu, sem kom mér ánægjulega á óvart. Maður heldur alltaf að maður þurfi að vera nakinn og allur út í blóði til að gera gjörninga, en það er líka mjög gott að geta gert orðagjörninga,“ segir Elísabet og upplýsir að meðal þeirra orða og frasa sem móðir hennar hafi notað mikið séu „þvættingur, dægilegt, galið, óboðlegt, til fyrirmyndar, pottþétt manneskja, ekki að sökum að spyrja, þegar þú mátt vera að, bærilegt, dingla sér, nú dámar mér og jabbadú“ en síðasta orðið notaði Jóhanna að sögn Elísabetar til að tjá sambland af undrun, gleði og drama. „Vinnutitillinn á seinustu bók minni var einmitt Jabbadú, sem mér fannst fyndið þar sem mamma var alltaf svo dramatísk þó hún væri líka mjög kát, því í henni var ávallt þessi tragíski tónn,“ segir Elísabet, sem á aðventunni sendi frá sér ljóðabókina Dauðinn í veiðarfæraskúrnum, sem JPV endurútgaf fyrir skemmstu.

Spurð hvort til standi að endurútgefa fleiri verk hennar eða gefa út safnrit undir merkjum JPV segist Elísabet það óráðið. „Það hefur ekkert verið rætt. Bækurnar mínar eru allar svo sérstakar og hafa allar sérstakan karakter. Þær eru frekar stuttar, í litlu broti og myndskreyttar og því veit ég ekki hvort þær myndu lifa það að þeim væri öllum skellt saman í eitt stórt safnrit,“ segir Elísabet og bendir á að bækur hennar sverji sig fremur í ætt við Margrétar sögu, sem er heillagripur ljósmæðra og fjallar um konu sem sigrast á dreka. „Sú bók, sem er kvennabók Íslendingasagnanna, er bara lófastór. Hver og ein bóka minna er einstakur gripur, en það er örugglega einhver klár, eins og Jón Óskar, sem gæti fundið lausn á þessu og búið til einhvers konar konfektkassa,“ segir Elísabet og bendir á að samningurinn við JPV nái sem standi aðeins til endurútgáfunnar á Dauðanum í veiðarfæraskúrnum og nýrrar bókar sem Elísabet er með í smíðum. „Mér fannst gott að breyta aðeins til, en samningur gefur mér færi á að einbeita mér meira að skrifunum sjálfum og er því skref til góðs,“ segir Elísabet og bendir á að hún hafi árum saman verið með tuttugu manns í vinnu á vegum útgáfufyrirtækis síns sem nefnist Viti menn og gefið hefur út megnið af þeim 24 bókum sem Elísabet hefur sent frá sér gegnum tíðina.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir er að eigin sögn gátusmiður.
Elísabet Kristín Jökulsdóttir er að eigin sögn gátusmiður. Morgunblaðið/Hari

Ég var eins og hungraður úlfur

„Ég hélt lengi vel að ég væri ekki nógu gott eða merkilegt skáld, en þegar ég skoða höfundarverk mitt sé ég að ég er í raun alltaf að fást við þessi dýpstu rök. Ég hélt að ég væri að skrifa um klofning í mannssálinni sem er fullgilt yrkisefni, en í raun má segja að þetta sé sama yrkisefni og barátta góðs og ills þar sem maður veit ekki hvort er gott og illt. Er gott að elska mikið eða er gott að elska ekki svona mikið?“ spyr Elísabet og rifjar upp að þegar hún heimsótti Sýrland hafi heimafólk bent á að íbúar Vesturlanda væru alltof uppteknir af ástinni. „Fólk í stríði hefur ekki efni á ást. Það dreymir aðeins um frið og þykir friður merkilegri en ást.“

Aðspurð segist Elísabet heilluð af leikhúsinu. „Ég held að við getum lært mikið af leikhúsinu og líkamleikanum þar, því þetta er svo stórkostlegur miðill,“ segir Elísabet og tekur fram að það hafi komið sér skemmtilega á óvart hversu vel hafi til tekist í leiksýningunni Ahhh... sem unnin var upp úr átta bókum Elísabetar sem komu út á tímabilinu 1989 til 2014.

„Þau nota oft sögur og ljóð í heilu lagi af blaðsíðunum, sem mér finnst magnað. Það þarf virkilega fína leikstjórn og fína leikara til að láta efnið lifna við á sviði. Mér fannst skemmtilegt hvað ástin var létt og galin í sýningunni,“ segir Elísabet og viðurkennir að ástsýkin hafi líka verið greinileg. „Ég hef skrifað um ástar- og kynlífsfíkn af eigin reynslu og sá hvað hún getur lokað mann inni. Ástin sem afl opnar okkur upp á gátt og tengir okkur við aðra, en í ástarsýkinni lokar hún og aftengir með þeim afleiðingum að við verðum hálfgeðveik þar sem heimurinn fer að snúast um okkur. Ég held það sé miklu betra að búa til ást með einhverjum öðrum, ekki bara inni í höfðinu. Þegar ég sá sýninguna fannst mér nöturlegt að sjá hvað ég hafði verið upptekin af ástarfíkn. Ég var eins og hungraður úlfur – en það er kannski allt í lagi. Við erum stöðugt að segja við okkur sjálf að ákveðin líðan og tilfinningar séu ekki í lagi. Í raun er ekki hægt að hætta að vera hungraður úlfur fyrr en maður fær leyfi til að vera einmitt það. Ástin er eins og lífið, þetta er erfitt, fyndið, sárgrætilegt og allt þar á milli,“ segir Elísabet að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant