„Besta söngkona sögunnar“

„Drottning sálartónlistarinnar,“ Aretha Franklin hafði eina áhrifamestu og sérkennilegustu rödd í sögu dægurtónlistar. Á sextíu ára ferli sínum skapaði hún hátt í 20 hljómplötur sem náðu að toppa hina ýmsu vinsældalista auk tugi smáskífa sem seldust í milljónatali og áunnu þessari merku tónlistarkonu alls 18 Grammy-verðlaun. Hún lést í dag 76 ára að aldri eftir baráttu við krabbamein.

Franklin var geysilega fjölhæfur listamaður. Hún hóf feril sinn sem gospelsöngkona og átti á löngum ferli eftir að tileinka sér djass, sálartónlist og rytma- og blústónlist (e. R&B). Á lista The Rolling Stone-tímaritsins, eins áhrifamesta tónlistartímarits heims, er Franklin í níunda sæti yfir bestu listamenn allra tíma og er jafnframt efst allra kvenna á listanum. Á öðrum lista Rolling Stone yfir bestu söngvara allra tíma er hún efst.

Franklin var ein frægasta söngkona allra tíma.
Franklin var ein frægasta söngkona allra tíma. AFP

Kynntist tónlistinni í kirkjunni

Aretha Louise Franklin fæddist 25. mars árið 1942 í Memphis í Tennessee-ríki. Faðir hennar, CL Franklin, var prestur í Baptistasöfnuði og eiginkona hans Barbara var lunkinn gospelsöngvari. Þegar Aretha var sex ára flutti fjölskyldan til Detroit í Michigan-ríki. Þar lærði hún að spila á píanó og byrjaði að syngja í kirkju föður hennar.

Faðir Arethu var móður hennar ótrúr og á endanum skildu þau. Móðir hennar yfirgaf fjölskylduna og flutti til Buffalo í New York-ríki þar sem hún lést úr hjartaáfalli 34 ára gömul.

Faðir hennar naut mikillar virðingar í samfélagi svartra í Detroit og kirkja hans varð hjarta gospeltónlistar í borginni. Þar komst Aretha í kynni við fjöldann allan af upprennandi söngvurum og tónlistarmönnum, meðal annars Smokey Robinson og Sam Cooke.

Hollywood-stjarna Franklin í dag.
Hollywood-stjarna Franklin í dag. AFP

Faðir Arethu hafði mikla trú á dóttur sinni og hvatti hana til þess að taka upp fyrstu hljóðskífu hennar „Songs of Faith,“ eða „lög trúarinnar.“ Þá var hún einungis fjórtán ára gömul og hafði þá þegar eignast sitt fyrsta barn, soninn Clarence.

Hún eignaðist svo annan son sinn, Edward, þegar hún var sextán ára og tókst að halda söngferli sínum áfram vegna hjálpsemi ömmu sinnar sem bauðst til að ala drengina tvo upp.

Hafnaði Motown

Á þessum tímapunkti voru hæfileikar hennar farnir að vekja athygli. Tónlistarframleiðandinn Berry Gordy reyndi að fá hana til að ganga til liðs við tónlistarútgáfufyrirtæki sitt Motown, sem hann hafði þá nýverið stofnað, en faðir Arethu hafnaði tilboði hans. Síðar meir áttu listamenn á borð við Michael Jackson, Stevie Wonder og Marvin Gaye eftir að ganga til liðs við Motown.

Þá reyndi Sam Cooke einnig að fá hana til að skrifa undir við útgáfu sína RCA, sem hafði meðal annars Elvis Presley á sínum snærum, en á endanum fór það svo að Columbia-útgáfan gaf út fyrsta lag Arethu sem færði henni nokkrar vinsældir innan sálartónlistarsenunnar í Bandaríkjunum, rytma- og blúslagið „Today I sing the Blues,“ árið 1960.

Columbia tókst þó ekki að nýta möguleikana í rödd Franklin og á endanum færði hún sig yfir til Atlantic-útgáfunnar árið 1966. Fyrsta upptaka hennar þar, „I Never Loved a Man (The Way I Love You),“ reyndist svo vera tímamótalag sem skilaði Franklin toppsætinu á rytma og blúslistum og níunda sætinu á almennum vinsældarlistum í Bandaríkjunum.

Önnur smáskífa hennar hjá Atlantic varð svo eitt vinsælasta lag hennar á öllum ferlinum. Þó lagið hafi upphaflega verið samið af Otis Redding, fór hennar útgáfa af laginu „Respect“ á topp almennra vinsældarlista í Bandaríkjunum og náði sömuleiðis tíunda sæti á vinsældarlistum í Bretlandi.

Lagið varð að mörgu leyti lofsöngur jafnréttishreyfingarinnar í Bandaríkjunum og færði henni tvenn Grammy-verðlaun.

Erfiðleikar í einkalífi

Þetta sama ár, 1967, fóru þrjú lög Franklin til viðbótar ofarlega á vinsældalista, þar á meðal hennar útgáfa af smelli Carole King „(You Make Me Feel Like) A Natural Woman).“

Á þessum tímapunkti var hjónaband Franklin og umboðsmanns hennar, Ted White, sem hún hafði gifst sjö árum áður, að fara út um þúfur. Orðrómur fór manna á milli um að hún væri farin að neyta áfengis í óhófi og árið 1969 var hún handtekin fyrir óspektir.

Á svipuðum tíma hélt faðir hennar svo afar umdeilda ráðstefnu fyrir svarta aðskilnaðarsinna sem endaði í heiftarlegum átökum við lögregluna í Detroit sem olli meðal annars dauða eins lögreglumanns.

Þrátt fyrir nokkra erfiðleika í einkalífi sínu hélt Franklin þó áfram að gefa út hvern smellinn á fætur öðrum. Má þar nefna „Don’t Play That Song,“ og „Call me.“ Þrátt fyrir velgengnina varð Franklin þó alltaf sífellt vonsviknari með Atlantic-útgáfuna sem henni þótti vera of upptekin af aðlögunarferli framtíðarstjörnu þeirra, Robertu Flack.

Aretha með föður sínum og systur.
Aretha með föður sínum og systur. AFP

Hljómskífan Diva, sem kom út árið 1978 og átti að vera viðbragð við diskóæði áttunda áratugarins, varð svo hennar síðasta upptaka hjá Atlantic.

Ári síðar var faðir hennar svo skotinn af innbrotsþjófum á heimili hans í Detroit. Hann fór í dá og lést árið 1984.

Hegðun Franklin hafði þá farið að vekja athygli og þótti nokkuð vafasöm. Hún þurfti til að mynda að minnka tónleikahald umtalsvert sökum flughræðslu og mörgum þótti hún neyta of mikils áfengis.

Fyrsta konan í frægðarhöllinni 

Þrátt fyrir það gekk ferillinn vel og eftir að hún skrifaði undir samning við útgáfufyrirtækið Arista og gaf í kjölfarið út hljóðskífuna „Jump to It“ komst titillag plötunnar ofarlega á almenna vinsældarlista, árangur sem henni hafði þá ekki tekist að ná í sex ár.

Árið 1985 fylgdi Franklin þeim árangri eftir með hennar fyrstu platínu-skífu „Who’s Zoomin’ Who?“ Ári síðar gaf hún svo út plötuna „Aretha,“ sem varð einnig gríðarlega vinsæl.

Árið 1987 varð Franklin fyrsta konan til þess að vera vígð inn í frægðarhöll rokksins (e. Rock and Roll Hall of Fame) og árið 1994 fékk hún Grammy-verðlaun fyrir afrek sín á lífsleiðinni. Ferill hennar hafði þó staðnað verulega.

Aretha fær heiðursmerki frá George W. Bush þáverandi Bandaríkjaforseta árið …
Aretha fær heiðursmerki frá George W. Bush þáverandi Bandaríkjaforseta árið 2005. AFP

Hún hélt áfram að gefa út tónlist en án mikilla vinsælda. Árið 2003 stofnaði hún sitt eigið útgáfufyrirtæki en tókst aldrei að gefa neitt út.

Í kjölfar aðgerðar árið 2011 eftir að hafa greinst með krabbamein 2010 átti hún við heilsufarsvandræði að stríða og minnkaði tónleikahald verulega. Hún kom síðast fram í nóvember á síðasta ári.

Fyrr í vikunni tilkynnti fjölskylduvinur Franklin að hún væri hætt komin af veikindum og væri í líknarmeðferð við krabbameini í brisi. Hún lést á heimili sínu í Detroit klukkan 9:50 í morgun að staðartíma, rétt fyrir klukkan tvö að íslenskum tíma.

Fjölmargir hafa brugðist við fráfalli þessarar einstöku söngkonu á samfélagsmiðlum. Þeirra á meðal eru Donald Trump Bandaríkjaforseti, Barack Obama, Hillary Clinton, Tony Bennett, Ivanka Trump, Nasa og Mick Jagger.  

Aretha Franklin árið 2015.
Aretha Franklin árið 2015. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler