Lúðrarnir þurfa að fá eitthvað skemmtilegt að gera

Veigar Margeirsson tónskáld í hljóðveri sínu. Hann stjórnar Stórsveit Reykjavíkur …
Veigar Margeirsson tónskáld í hljóðveri sínu. Hann stjórnar Stórsveit Reykjavíkur í kvöld á tónleikum í Hörpu. mbl.is/​Hari

„Ég er einn af stofnfélögum Stórsveitar Reykjavíkur, og það eru einmitt nokkrir fleiri stofnfélagar sem eru að fara að spila með á tónleikunum í kvöld,“ útskýrir Veigar Margeirsson kvikmynda- og djasstónskáld í samtali við mbl.is, en Veigar mun stýra stórsveitinni á tónleikunum, sem fara munu fram í Kaldalóni í Hörpu.

Átta glæný íslensk verk verða frumflutt á tónleikunum, en þau voru öll samin sérstaklega fyrir hljómsveitina. „Þetta verða tónleikar í þægilegri lengd. Það er ekki oft sem svona tækifæri gefst, að heyra splunkunýja tónlist sem enginn hefur heyrt áður – áður en hún verður heimsfræg,“ segir Veigar og brosir.

Stórsveit Reykjavíkur var stofnuð árið 1992.
Stórsveit Reykjavíkur var stofnuð árið 1992.

Konurnar fagnaðarefni

Hann segir það sérstakt fagnaðarefni að tveir höfundanna séu konur, þær Ingibjörg Azima og Hafdís Bjarnadóttir. „Það eru sem betur fer alltaf fleiri og fleiri konur að gera sig gildandi í djassheiminum, og maður þarf heldur ekki endilega að vera harður djassari til að semja fyrir stórsveit. Ingibjörg og Hafdís fást báðar við sígilda -  og samtímatónlist auk djasstónlistar. Það er oft gaman að fá inn höfunda með svona nýja nálgun og þarna gefst gott tækifæri fyrir höfundana að teygja á hlutunum og prófa eitthvað nýtt,“ bætir Veigar við en Úlfar Ingi Haraldsson, einn höfundanna átta, kemur einnig úr sígildu tónlistinni.

En hvað með hann sjálfan. Hverskonar verk ætlar hann að bjóða upp á?

„Verkið mitt heitir Púsl,“ segir Veigar og vitnar í því samhengi í einn þekktasta stórsveitarmann allra tíma, Duke Ellington, sem á að hafa sagt: „I don´t Need Time, I need a Deadline,“ eða í lauslegri íslenskri snörun, „Ég þarf ekki tíma, ég þarf bara skilafrest“.  

Vanur stutta forminu

Veigar á þarna við að sjálfur hafi hann ekki byrjað að semja Púsl fyrr en hann var farinn að finna fyrir verulegri tímapressu.  „Þegar skilafrestur fyrir lagið var að renna út fór ég í hugmyndabunkann minn og tók nokkrar litlar skissur og púslaði þeim saman í lag. Þaðan kemur nafnið á verkinu. Ég er vanur að vinna í svona stuttu formi í dagvinnunni, þar sem ég er að semja tónlist í kvikmyndastiklur.  Ef ég væri rithöfundur kæmi ég örugglega með nokkur orð í einu og léti þau malla. Svo bæti ég við orði og orði. Kannski eins og ljóðskáld,“ segir Veigar, en segist sjálfur ekki  vera mikill orðsins maður. „En það er mikilvægt að vera með skilafrest og pína sig í að klára hlutina.“

Alltaf fleiri og fleiri að semja

Af öðrum verkum á tónleikunum má nefna verk eftir bassaleikarann Sigmar Þór Matthíasson og annað eftir Sigurð Flosason saxófónleikara.  Auk þess er stórsveitarmeðlimurinn Haukur Gröndal einn höfunda. Þá segir Veigar að Eiríkur Rafn Stefánsson, sem sé að læra tónsmíðar í Hollandi, sé með skemmtilegt verk.

Hvernig gekk að fá höfundana til að semja fyrir tónleikana?

„Það var frekar auðsótt. Það eru alltaf fleiri og fleiri sem treysta sér í þetta form og kunna á það. Það er dálítið sérhæft að semja fyrir stórsveit, og ýmsir hlutir sem þarf að pæla í.“

Veigar er eitt tónskáldanna sem á lag á efnisskránni. Verk …
Veigar er eitt tónskáldanna sem á lag á efnisskránni. Verk hans heitir Púsl. mbl.is/​Hari

Hver er helsta áskorunin?

„Það er helst að þekkja inn á hljóðfærahópana og ná að nýta sér allt bandið. Stórsveit er 17 manna hljómsveit, 4 hrynleikarar og 13 blásarar. Ef þú ert til dæmis með svona marga lúðra, þá er það áskorun að láta alla fá eitthvað skemmtilegt að gera. Svo skiptir auðvitað máli að nóturnar sjálfar séu huggulegar og fallegar, að mönnum líði vel þegar þeir fá þær í hendur. Það eykur líkur á góðri niðurstöðu. Svo er mikilvægt að hlusta aðeins á stórsveitartónlist til að setja sig vel inn í þetta.“

Semur fyrir nýjan spurningaþátt

Auk þess að semja tónlist fyrir stórsveit og stiklur, þá er Veigar með fleiri járn í eldinum. „Ég var að gera tónlist fyrir Kappsmál, sem er nýr spurningaþáttur sem hefur göngu sína á RÚV í haust. Þar er stórsveitarhljómurinn einmitt ráðandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler