Fullur í beinni og lifir á því

Simen Stubbom Nordsveen hefur fundið leið til að lifa af …
Simen Stubbom Nordsveen hefur fundið leið til að lifa af einu áhugamála sinna og losaði sig þar með undan oki atvinnuleysisbóta sem voru hans lifibrauð í þrjú ár. Ljósmynd/Aðsend

„Foreldrum mínum finnst alveg frábært að ég geti lifað af einhverju sem mér finnst skemmtilegt. Þau hafa meira að segja bæði verið gestir mínir í útsendingunni.“ Þetta segir Simen Stubbom Nordsveen, 24 ára gamall Norðmaður í smábænum Løten í Hedmark, í samtali við mbl.is.

Umræðuefnið er heldur óvenjulegt, útsending Nordsveen á streymisvefnum Twitch öll föstudagskvöld þar sem hann situr við tölvuna heima hjá sér, sturtar í sig bjór og brennivíni og ræðir landsins gagn og nauðsynjar. Að jafnaði fylgjast 4.000 manns samtímis með drykkju Nordsveen og þeim gefst kostur á að leggja fram peningaupphæð skemmti þeir sér vel.

Nordsveen segir að honum þyki þetta mun skemmtilegri iðja en að þiggja bætur frá norsku vinnumálastofnuninni NAV sem að hámarki geta orðið um 18.000 norskar krónur, 261.000 íslenskar, á mánuði. Bæturnar eru þó tekjutengdar og fer útreikningur þeirra eftir því hvað bótaþegi hafði í laun áður en hann missti vinnuna svo mbl.is leikur forvitni á hvað Nordsveen starfaði við áður en hann sneri sér alfarið að því að vinna við drykkju.

„Ég hef reyndar aldrei verið í vinnu,“ svarar Norðmaðurinn ungi að bragði en segist hafa þegið atvinnuleysisbætur í þrjú ár sem hafi ekki verið spennandi.

Tekur þátt í spjallinu þar til hann verður of ölvaður

En hvað er eiginlega að gerast í þessari útsendingu, hvað ræðir hann við áhorfendur sína? „Ég tala um allt milli himins og jarðar og svo bera þau oft upp spurningar um alls konar hluti eða óska eftir sérstökum umræðuefnum,“ segir Nordsveen, en samhliða streyminu býðst einnig möguleiki á rituðu vefspjalli sem hann segist sinna sem kostur er þar til hann verður of fullur til að skrifa sem oft gerist síðasta klukkutíma útsendingarinnar. Einnig birtir hann þó töluvert af tónlistarmyndböndum inn á milli svona rétt á meðan hann blandar sér í glas.

„Núna ætla ég að skjóta á mig einum Jägermeister og eftir það er mjög mikilvægt að ég taki mér örlítið hlé,“ hefur norska ríkisútvarpið NRK eftir Nordsveen en ríkismiðillinn gerir föstudagsþætti hans ítarleg skil og hyggst auk þess senda út hluta af fagnaðarerindinu.

Á skjámynd útsendingar Nordsveen á Twitch birtast upplýsingar um hve mikið fé áhorfendur hans senda honum, hve hátt síðasta framlag var og hvert hæsta framlag kvöldsins hverju sinni er og frá hverjum það kom. Apríl var metmánuðurinn hjá Nordsveen, þá bárust honum 70.000 norskar krónur, ein milljón íslenskra, í framlög sem verður að teljast ágætt fyrir mann sem vinnur eingöngu á föstudagskvöldum.

Þumalnögl (e. thumbnail) sem fylgir því efni Nordsveen sem birtist …
Þumalnögl (e. thumbnail) sem fylgir því efni Nordsveen sem birtist á myndskeiðavefnum YouTube. Þessi 24 ára gamli Norðmaður þénar allt að eina milljón króna á mánuði fyrir að streyma sjálfum sér við skál á föstudagskvöldum. Ljósmynd/Aðsend

NRK segir frá því þegar afmælisbarn kemur inn í áhorfendahópinn og skálar við Nordsveen: „Skál Simen, ég á afmæli í dag og nú drekk ég þér til!“ segir afmælisbarnið. „Jæja, þá drekk ég örlítið fyrir þig líka Sharpee, til hamingju með daginn!“ svarar þáttastjórnandinn að bragði og hefur hunangsbikar sinn til himins.

Hvernig dettur rúmlega tvítugum atvinnulausum manni þá í hug að hefja sjálfstæðan atvinnurekstur við að drekka áfengi í beinni útsendingu? „Þetta byrjaði bara sem venjulegt streymi fyrir nokkrum árum þar sem ég fékk mér nokkra bjóra og svo hefur þetta bara þróast út í þetta,“ svarar Nordsveen og lumar á spurningu á móti að þessu sinni: „Ég er nú samt að velta fyrir mér einu, hafa Íslendingar eitthvert gagn af að lesa um streymið mitt? Þar skilja líklega ekki margir hvað ég er að segja.“

Við leyfum þeirri spurningu að hanga í loftinu án svars og kveðjum Norðmanninn uppátækjasama sem státar hugsanlega af einu hæsta tímakaupi landsins þrátt fyrir að vera atvinnulaus.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler