Ariana Grande steig í gærkvöldi aftur á svið í ensku borginni Manchester í fyrsta sinn síðan hún kom fram á styrktartónleikum árið 2017 í kjölfar mannskæðrar hryðjuverkaárásar sem var gerð á tónleikum hennar í borginni sama ár.
Áhorfendur hylltu söngkonuna er hún tók lagið á útitónleikum á hinsegin dögum í Manchester í gær, að sögn BBC.
Vopnaðir lögreglumenn voru á varðbergi á tónleikunum sem voru haldnir tveimur árum eftir að sjálfsvígsárásarmaður drap 22 manneskjur eftir tónleika Grande í höllinni Manchester Arena.
„Manchester á sérstakan sess í mínu hjarta,” sagði söngkonan á tónleikunum. „Ég er svo ánægð að vera með ykkur og takk fyrir hafa fengið mig hingað. Ég er taugaóstyrk, fyrirgefið mér. Ég ætlaði að segja miklu meira en ég er hrærð yfir viðbrögðunum. Takk fyrir.”
Ariana Grande delivers an emotional and powerful performance of "One Last Time" at #ManchesterPride during her first performance in the city in over two years. 🐝
— The Pop Hub (@ThePopHub) August 25, 2019
pic.twitter.com/e6UOOcRwCh
Bandaríska söngkonan hóf 35 mínútna og níu laga atriði sitt með No Tears Left To Cry, fyrsta laginu sem hún gaf út eftir árásina.
Mason Thomas, tvítugur Manchester-búi, var á tónleikunum í Manchester Arena á sínum tíma. Hann sagði að tónleikar hennar í gær hefðu verið „uppfullir af tárum og hamingju”.
„Ég held að hún hafi grátið í byrjuninni á No Tears Left To Cry, sem er augljóslega sorglegt lag. En hún er svo sterk. Hún var til staðar fyrir okkur. Hún var til staðar fyrir LGBT-fólkið. Hún var til staðar fyrir Manchester,” sagði hann og taldi líklegt að tár hefðu verið á hvarmi allra tónleikagesta.