„Við erum kannski aðeins meira í þynnkunni“

Fannar Ingi og Jökull Breki eru í hljómsveitinni Hipsumhaps.
Fannar Ingi og Jökull Breki eru í hljómsveitinni Hipsumhaps. Ljósmynd/Kjartan Hreinsson

„Hipsumhaps er konsept sem við Jökull ákváðum að skapa saman í fyrrasumar eftir margra ára vináttu. Í gegnum tíðina hef ég skrifað lög og texta og hann útsett lög á tölvu fyrir sjálfan sig og aðra þannig að í þessari tónlist sameinum við krafta okkar. Við erum líka ágætis söngvarar báðir tveir og getum bjargað okkur á hljóðfæri,“ segir tónlistarmaðurinn Fannar Ingi Friðþjófsson um Hipsumhaps sem gefur út plötuna Best gleymdu leyndarmálin í dag, sunnudag. 

Hvaða tónlistarmanna horfi þið helst til?

„Ef ég á að tala fyrir sjálfan mig að þá voru þrír geisladiskar í gamla bílnum mínum, Grænu bauninni, sem mótuðu mig mikið. Is This It með Strokes, Whatever People Say I Am, That’s What I’m Not með Arctic Monkeys og Grace með Jeff Buckley. Þessar plötur eru grafnar djúpt í undirmeðvitundina.

Í sambandi með Hipsumhaps er fáránlega mikið af ólíkri tónlist sem við fílum þannig að við lögðum upp með frá byrjun að hleypa inn áhrifum héðan og þaðan í von um að lenda á einhverju fersku. Vera ófeimnir við að blanda saman stílum og stefnum og bera þar með nafn með rentu. Við gerðum lagalista til hliðsjónar fyrir hvert lag og byggðum þá á lögum sem við fílum og töldum henta tilfinningunni á bak við lagið. Á þeim listum er að finna alls konar. Allt frá Dido til Tame Impala. Þannig að hvert lag fyrir sig var ákveðið tilraunaglas sem leiddi síðan svo heppilega til þess að úr varð einhvers konar rauður þráður í gegnum þetta allt saman. En til þess að spara fólki heimavinnuna þá erum við indie-band.“

Sigurður Ýmir hannaði umslagið fyrir strákana í Hipsumhaps.
Sigurður Ýmir hannaði umslagið fyrir strákana í Hipsumhaps.

Hvaða leyndarmál eru best gleymd? 

„Þau sem fólk fær að elska í friði. Til dæmis Álftanes eða Bangkok á Smiðjuvegi.“

Það hefur farið mikið fyrir rappi undanfarin ár. Tónlistin ykkar er aðeins öðruvísi og lágstemmdari, engir stælar. Finnst þér fólk vilja einhverja tilbreytingu?

„Lögin sem við gáfum út í aðdraganda plötunnar (LSMLÍ og Honný) eru kannski lágstemmd en það er ekki hægt að segja það um alla plötuna. Þetta er hipsumhaps. Hip hop-tónlist er snilld og getur heldur betur verið lágstemmd og einlæg. Ég hef grátið með Kanye og Flóna í eyrunum. Það þarf ekkert minna af rappi eða meira af öðru. Endalaust er til af góðri tónlist og aðgengi að tónlist hefur aldrei verið betra. Fólk þarf bara að gera smá heimavinnu ef það vill uppgötva fleiri og öðruvísi tónlist heldur en þá sem er spiluð í útvarpinu. En jú jú, það er alveg frekar mikið partí í senunni á meðan við erum kannski aðeins meira í þynnkunni.“

Þið syngið meðal annars um fyrstu ástina og veltið fyrir ykkur spurningum um lífið. Eru textarnir byggðir á ykkar eigin reynslu? 

„Hvert lag á sér sterka minningu eða tilfinningu og ég reyni að vera samkvæmur sjálfum mér í textagerð. Bæði hvernig ég tala og hvernig ég haga mér. Það er líka bara gaman að leika sér með íslenska tungu í fersku samhengi. Að þora að sletta og vera með skírskotanir í poppkúltúr og staðarkynni í bland við það að vera með hjartað á erminni. Textarnir eru líka skrifaðir út frá eigin persónu og annarri en endurspegla samt allir einhvern sannleik úr hversdagslegum aðstæðum eða tilfinningu sem átti sér stað í gegnum ólík tímabil. Grunnurinn að Fyrsta ástin varð til dæmis til fyrir átta árum. Þá vissi ég ekkert hvernig ég átti að gefa út tónlist og var heldur ekki tilbúinn til þess að berskjalda mig með ástarmál eða skilgreina mig sem tilfinningaveru. Eitt stórt leyndarmál þar til núna.“

Fannar Ingi mælir með því að fólk fari á rúntinn og hlusti á plötuna, Best gleymdu leyndarmálin. Þannig byrjaði þetta hjá Fannari Inga sjálfum. Hann var einn á rúntinum á bílnum sínum, Grænu bauninni, að syngja með sjálfum sér og enginn mátti vita af. 

View this post on Instagram

A post shared by Hipsumhaps (@hipsumhaps) on Aug 20, 2019 at 1:34pm PDT






mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant