Víkingur listamaður ársins hjá Gramophone

Víkingur Heiðar Ólafsson spilaði við verðlaunaafhendinguna í London fyrr í …
Víkingur Heiðar Ólafsson spilaði við verðlaunaafhendinguna í London fyrr í dag. mbl.is/Eggert

„Þetta er óvænt og skemmtilegt eftir því. Mér þykir mjög vænt um að hljóta þessi verðlaun,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson sem í London fyrir stundu tók við verðlaunum sem listamaður ársins hjá breska tónlistartímaritinu Gramophone. Meðal fyrri verðlaunahafa í þessum flokki má nefna fiðluleikarann Hilary Hahn og hljómsveitarstjórann Gustavo Dudamel.

Í fréttatilkynningu frá Encore Artists kemur fram að Víkingur hljóti verðlaunin, sem nefnd eru Óskarsverðlaun sígilda tónlistarheimsins, sérstaklega fyrir hljómplötu sína með verkum eftir Johann Sebastian Bach sem út kom hjá Deutsche Grammophon seint á síðasta ári.

Í mars hlaut Víkingur Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir sömu hljómplötu og sem tónlistarflytjandi ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Mánuði síðar hlaut hann tvenn verðlaun tónlistartímaritsins BBC Music Magazine fyrir hljómplötuna og fyrr nýverið hlaut hann þýsku tónlistarverðlaunin Opus Klassik fyrir bestu einleiksupptökuna.

„Fyrir flytjendur eru verðlaun Gramophone mikilvægustu verðlaunin í tónlistarheiminum og ljóst að horft er til þeirra,“ segir Víkingur og tekur fram að ótrúlegt sé að hljóta verðlaun Gramophone sama ár og hann hljóti verðlaun BBC Music Magazine.

„London er enn, ásamt Berlín, tónlistarhöfuðborg Evrópu ef ekki heimsins. Öflugustu tónlistarfjölmiðlarnir eru hér og Gramophone er virtasta fagtónlistartímarit heims í klassískri tónlist,“ segir Víkingur og bendir á að hann hafi árum saman lesið Gramophone sér til ánægju og fróðleiks. „Halla [Oddný Magnúsdóttir] konan mín gaf mér áskrift að Gramophone fyrir löngu,“ segir Víkingur sem flaug ásamt eiginkonu sinni og ungum syni til London til að taka við verðlaunum fyrr í dag. „Þetta var fyrsta flugferð sonarins. Þegar ég verð búin að sinna fjölmiðlum næstu tvo daga ætlum við fjölskyldan að eiga smá frítíma fyrir okkur og heimsækja Oxford þar sem Halla lærði á sínum tíma. Á mánudag held ég svo til Vínarborgar að spila og í framhaldinu liggur leiðin til Brussel og Berlínar.“

Í ljósi allra þeirra verðlauna sem þú hefur hlotið síðustu mánuði verður væntanlega erfitt að toppa þetta ár?
„Ég held ég muni ekki geta toppað þetta ár verðlaunalega séð. Ég verð bara að toppa þetta í gegnum tónlistina,“ segir Víkingur kíminn. „Ég get upplýst að ég verð með opnunartónleika á Listahátíð í Reykjavík helgina 6. og 7. júní 2020 þegar hátíðin fagnar 50 ára afmæli sínu. Tónleikarnir verða jafnframt útgáfutónleikar næstu hljómplötu minnar hjá Deutsche Grammophon.“

Talandi um þá plötu þá varstu síðast þegar við ræddum saman ekki reiðubúinn að upplýsa hvaða tónskáld yrðu í brennidepli þar, aðeins að um væri að ræða samtal tveggja tónskálda sem aldir skilja að. Má segja frá því núna?
„Já. Þetta eru Debussy og Rameau,“ segir Víkingur og vísar þar til frönsku tónskáldanna Claude Debussy og Jean-Philippe Rameau, en tæp hundrað ár liðu frá dauða Rameau árið 1764 þar til Debussy fæddist árið 1862. „Þeir eiga það sameiginlegt að hafa verið „enfant terrible“ eða óeirðarseggir í tónlistinni. Þannig brutu þeir meðvitað allar reglur og vildu róta upp í viðteknum venjum. Þeir eiga það líka sameiginlegt að mála myndir í tónum og gefa verkum sínum oft mjög fallega titla,“ segir Víkingur og nefnir í því samhengi Sporin í snjónum eftir Debussy og Samtal fuglanna eftir Rameau.

„Rameau hefur lítið verið spilaður á píanó þrátt fyrir að vera besta barokktónskáldið til að semja fyrir hljómborð að J.S. Bach einum undanskildum. Höfundaverk Rameau er algjör gullnáma sem ég hlakka til að deila með áheyrendum,“ segir Víkingur og rifjar upp að Rameau hafi verið uppáhalds tónskáld Debussy, sem seint á ferli sínum samdi verk til heiðurs Rameau, sem verður lokalagið á væntanlegri hljómplötu Víkings.

Ítarlegra viðtal við Víking Heiðar Ólafsson má lesa í Morgunblaðinu á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler