The Favourite besta kvikmyndin

Rachel Weiss og Olivia Colman í The Favourite.
Rachel Weiss og Olivia Colman í The Favourite.

Kvikmyndin The Favourite, eftir gríska leikstjórann Yorgos Lathimos, var valin sú besta á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum í Berlín, laugardagskvöldið 7. desember, og hlaut jafnframt flest verðlaun, átta talsins. Evrópsku kvikmyndaverðlaunin voru afhent í 32. sinn  og var að vanda mikið um dýrðir. Heiðursverðlaunahafar ársins voru þýski kvikmyndagerðarmaðurinn Werner Herzog og franska leikkonan Juliette Binoche sem bæði veittu viðtöl fyrr um daginn miklum fjölda blaðamanna. 

Á næsta ári verða Íslendingar gestgjafar hátíðarinnar og verður hún haldin í Hörpu. Því hefur fjöldi Íslendinga verið í Berlín undanfarna daga til að afla sér fróðleiks um hátíðarhöldin og í hófi í sameiginlegu húsi sendiráða Norðurlandanna, Felleshus, á föstudagskvöld var því fagnað að eftir ár yrði skálað í Reykjavík. 

Þýski leikstjórinn Wim Wenders, formaður stjórnar Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna, á rauða …
Þýski leikstjórinn Wim Wenders, formaður stjórnar Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna, á rauða dreglinum við Haus er Berliner Festspiele fyrr í kvöld. AFP

Í upphafi verðlaunahátíðarinnar var pólsku kvikmyndagerðarkonunni Agniesku Holland þakkað innilega fyrir hennar störf í þágu Evrópsku kvikmyndaakademíunnar en hún hefur leitt stjórn hennar í fimm ár, frá árinu 2014, og lætur brátt af störfum. Holland sagði í ræðu að hún hefði fulla trú á Mike Downey, enska kvikmyndaframleiðandanum sem tekur nú við stöðunni. Downey þakkaði tárvotur fyrir sig og sagði erfitt að feta í fótspor Holland. 

Lanthimos besti leikstjórinn

Mörgum fjölmiðlamönnum að óvæntu voru strax veitt verðlaun fyrir bestu leikstjórn. Samkeppnin var hörð í þeim flokki, líkt og mörgum öðrum, merkir leikstjórar tilnefndir fyrir áhrifamiklar kvikmyndir sínar. Verðlaunin féllu í skaut Grikkjans Yorgos Lanthimos fyrir hina rómuðu kvikmynd The Favourite sem fjallar um líkamlega og andlega hrjáða Önnu Englandsdrottningu á 18. öld þegar Bretar háðu stríð við Frakka og tvær konur takast á um hylli drottningar og ást.

Verðlaun fyrir bestu evrópsku stuttmyndina voru veitt næst og hlaut þau The Christmas Gift eftir rúmenska leikstjórann Bogdan Mureşanu. Næsti kynnir var Hera Hilmarsdóttir, sú íslenska leikkona sem náð hefur hvað lengst í heimi kvikmyndanna. Var henni falið að kynna verðlaunin fyrir bestu teiknimynd en í þeim flokki má jafnan finna mikil listaverk. Fjórar teiknimyndir voru tilnefndar og hlaut verðlaunin Buñuel en el laberinto de las tortugas, þ.e. Buñuel í völundarhúsi skjaldbakanna, eftir spænska leikstjórann Salvador Simó. Tilkynnt hafði verið um átta verðlaun fyrir hátíðina og hlaut The Favourite helming þeirra og þótti því sigurstrangleg í kvöld, sú mynd sem líklegust væri til að hljóta flest verðlaun og þá m.a. sem besta evrópska kvikmyndin. Styrktu fyrstu verðlaun kvöldsins, fyrir bestu leikstjórn, spámenn enn frekar í þeirri trú. 

Agnieszka Holland myndaði fólk á rauða dreglinum líkt og papparassarnir.
Agnieszka Holland myndaði fólk á rauða dreglinum líkt og papparassarnir. AFP

Kona í ljósum logum 

Í næstu verðlaunaafhendingu fóru kynnar, tvær ungar leikkonur, á mikið flug og urðu ofvirkar  á meðan á skjá á bakvið þær birtist tölvuskjár þar sem flakkað var á miklum hraða milli Facebook, YouTube og annarra miðla á netinu. Handritshöfundar - og líklega þeir sem vinna við skáldskap almennt - þurfa að halda mörgum boltum á lofti og einbeitingunni um leið, eins og gefið var til kynna. Verðlaunin fyrir þennan grundvallarþátt hverrar kvikmyndar, handritaskrif, hlaut Céline Sciamma fyrir handrit Portrait de la jeune fille en feu eða Portrett af ungri konu í ljósum logum en sama mynd hlaut fyrir skömmu verðlaun háskólanema sem besta kvikmyndin og eru þau hluti af EFA. 

Pedro Almodóvar, dáðasti og virtasti leikstjóri Spánar, var kátur þegar …
Pedro Almodóvar, dáðasti og virtasti leikstjóri Spánar, var kátur þegar hann mætti til verðlaunahátíðar. AFP

Banderas sá besti

Danski sjarmörinn Claes Bang var næstur á svið, aðalleikari The Square sem reið feitum hesti frá verðlaununum fyrir tveimur árum. Var honum fengið það hlutverk að kynna verðlaun fyrir besta leikara í evrópskri kvikmynd. Antonio Banderas, sem tilnefndur var til verðlaunanna, var fjarri góðu gamni en fylgdist með í bíósal á ónefndum stað, ef marka mátti beina útsendingu. Ingvar E. Sigurðsson var meðal tilnefndra fyrir leik sinn í Hvítur, hvítur dagur, kvikmynd Hlyns Pálmasonar, og spennan var því nokkur meðal íslenskra áhorfenda. Ingvar var kynntur til leiks af Bang og virkaði pollrólegur þegar myndavélinni var beint að honum í salnum í Haus der Berliner Festspiele þar sem verðlaunahátíðin fór fram. Því miður hlaut okkar maður ekki verðlaunin heldur Banderas fyrir leik sinn í kvikmynd Pedro Almodóvar, Dolor y gloria eða Sársauki og dýrð. Eflaust vel að þeim kominn, líkt og Ingvar hefði verið. 

Banderas flutti þakkarræðu í beinni frá ónefndum stað, þakkaði að vonum vel fyrir sig og bar mikil lof á Almodóvar sem hann sagðist elska og dá. Almodóvar væri mikill listamaður og ljúfmenni. Sagðist Banderas þurfa að fara á svið eftir fáeinar mínútur og spurði Bang þá hvað hann ætti að gera við verðlaunagripinn. „Láttu Almodóvar hafa hann og hann fer með hann til Spánar,“ var svarið. 

Aðalkynnar kvöldins, litháíska leikkonan Aiste Dirziute og þýska leikkonan Anna …
Aðalkynnar kvöldins, litháíska leikkonan Aiste Dirziute og þýska leikkonan Anna Brueggemann. AFP

Colman besta leikkonan 

Verðlaun fyrir bestu evrópsku leikkonuna voru næst á dagskrá og voru tvær tilnefndar fyrir sömu kvikmynd, Noémie Merlant og Adèle Haenel, fyrir leik sinn í Portrait de la jeune fille en feu. Olivia Colman hreppti verðlaunin fyrir leik sinn í The Favourite og koma það fáum á óvart. Var hún fjarri góðu gamni, upptekin við tökur, en sendi frá sér myndband þar sem hún sagðist djúpt snortin yfir verðlaununum. Sjöttu verðlaunin voru komin í hús hjá The Favourite. 

Agnieska Holland kynnti næst til sögunnar ný verðlaun, fyrir bestu sjónvarpsþættina, og hlutu þau Babylon Berlin, dýrustu þættir þýskrar sjónvarpssögu. Verðlaun alþjóðasamtaka kvikmyndagagnrýnenda, FIPRESCI, sem hin „evrópska uppgötvun“, European Discovery á ensku, hlaut kvikmyndin Les misérables, eftir franska leikstjórann Ladj Lyd. Myndin hefur hlotið mikla athygli og var m.a. tekin með drónum í Montfermeil í úthverfum hinnar víðfeðmu Parísar þar sem fylgst er með átökum gengja í hverfinu. 

Franska leikkonan og heiðursverðlaunahafinn Juliette Binoche.
Franska leikkonan og heiðursverðlaunahafinn Juliette Binoche. AFP

Hugvekja franskrar leikkonu

Leikkonan Juliette Binoche, annar af tveimur heiðursverðlaunahöfum hátíðarinnar, var þvínæst hyllt en kynnir verðlaunanna var vinkona hennar og landi Claire Denis sem leikstýrt hefur Binoche í tveimur kvikmyndum. Denis, heiðursverðlaunahafi RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, fyrr á þessu ári, sagðist bera mikla virðingu fyrir Binoche sem felldi tár undir lofræðunni. Binoche er ein þekktasta leikkona Frakka og sagði í þakkarræðu sinni að heimurinn væri ekki á réttri leið, hatrið mætti finna víða. „Við verðum að opna hjörtu okkar og leggja við hlustir,” sagði Binoche og að listin snerist um að gefa af sér. Hún hvatti leikara til að velja hlutverk sín í kvikmyndum af kostgæfni og sagði nóg komið af kvikmyndum sem snerust um að drepa fólk. „Ég þarf að þakka nokkrum,” sagði Binoche og nefndi m.a. barnfóstrur sem gætt hafa barna hennar á meðan hún var í vinnunni.

Þýski leikstjórinn Werner Herzog hlaut heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til …
Þýski leikstjórinn Werner Herzog hlaut heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til kvikmynda á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum. Herzog er meðal áhrifamestu kvikmyndagerðarmanna síðustu aldar. AFP

Aría handa Herzog

Werner Herzog, einn merkasti leikstjóri Þýskalands og heiðursverðlaunahafi Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík fyrir tveimur árum, var næst kynntur til leiks með mjög svo undarlegu grínatriði í formi aríu. Var atriðið að auki óþægilega langt, að mati ofanritaðs. Herzog virtist þó hafa gaman af og Wim Wenders, leiksjtóri og formaður Evrópsku kvikmyndaakademíunnar, steig síðan á við og söng óvænt til Herzog lagið „Nothing compares to you” sem Sinéad O’Connor gerði frægt hér um árið.

Wenders vottaði Herzog virðingu sínu og kvaðst hafa verið undir miklum áhrifum frá honum sem ungur kvikmyndagerðarmaður. Wenders minntist þeirra ummæla Herzog að kvikmyndalistin snérist um líf eða dauða. ,,Þú hræddir líftóruna úr okkur en heillaðir míg líka gjörsamlega,” sagði Wenders. Síðar hefðu þeir orðið starfsbræður, kenndir við þýsku nýbylgjuna í kvikmyndalist. Herzog þakkaði fyrir sig og sagði frábærar kvikmyndar hafa komið að undanförnu frá Evrópu sem þakka mætti samheldni kvikmyndagerðarmanna álfunnar. 

Handa Sömu besta heimildarmyndin

Þrjár kvikmyndir voru tilnefndar sem besta gamanmyndin sem er nýr verðlaunaflokkur EFA. Fáar vissulega en líkleg þótti The Favourite til að hreppa hnossið. Og sú varð raunin enda kostuleg kvikmynd og vönduð, samanber fullt hús stjarna hjá kvikmyndarýni Morgunblaðsins snemma árs. Voru þá sjö verðlaun komin í hús hjá henni, en fjögur hafði hún hlotið fyrir verðlaunahátíðina, fyrir kvikmyndatöku, búningahönnun, klippingu og hár og förðun. 

Besta heimildarmyndin þótti hin marglofaða For Sama sem segir frá ungri konu, Waad al-Kateab, og sýn hennar á heimaborg sína Aleppo í Sýrlandi. Hún verður ástangin og eignast sitt fyrsta barn á tímum borgarastyrjaldar í heimalandinu. Er myndinni lýst sem ástarbréfi hennar til dóttur sinnar, Sama. 

Besta kvikmynd Evrópu árið 2019 er … 

Og þá var komið að aðalverðlaunum kvöldsins, fyrir bestu kvikmynd Evrópu árið 2019. The Favourite, eða Uppáhaldið, hlaut þau og kom það fáum á óvart. Frábær kvikmynd í alla staði að öðrum tilnefndum ólöstuðum. 




mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant