Góður stökkpallur inn í leiklistina

Af leikæfingu.
Af leikæfingu. mbl.is/RAX

Verslunarskóli Ísland frumsýnir á miðvikudaginn næstkomandi söngleikinn Alladín og töfralampann. Leiklistarstarfið hjá Verslunarskólanum hefur verið einstaklega góður stökkpallur fyrir nemendur sem hafa hug á að reyna fyrir sér í leiklistinni en fjöldi leikara í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu hófu feril sinn einmitt í leikritum Verslunarskólans.

Í upphafi haustannar voru haldnar prufur hjá nemendamótsnefndinni og stuttu síðar tilkynnti hún lokaval sitt. Tveir leikarar þurftu þó frá að hverfa snemma í ferlinu vegna þess að þeim höfðu boðist hlutverk í leikritum hjá Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. 

Leikkonan Katla Njálsdóttir hafði fengið hlutverk andans en fékk hlutverk í leikritinu Er ég mamma mín? í Borgarleikhúsinu og þurfti því frá að hverfa. Kötlu ættu einhverjir að kannast við úr kvikmyndinni Hjartasteini. Leikarinn Ágúst Örn Börgesson Wigum hafði fengið hlutverk Alladíns en var á samningi hjá Þjóðleikhúsinu og þurfti því einnig frá að hverfa. 

Eygerður Sunna Arnardóttir, formaður nemendamótsnefndarinnar, segir að það komi þó ekki að sök og að maður komi í manns stað. Með hlutverk andans fer nú Halldóra Elín Einarsdóttir. Jasmín leikur Ísold Ylfa Schwetz Jakobsdóttir. 

Söguna Alladín og töfralampann ættu flestir að kannast við. Disney gaf út teiknimyndina árið 1992 og leikin endurgerð kom út á síðasta ári. Söngleikurinn hefur áður verið settur upp hér á landi, en ekki af þessari stærðargráðu.

Leikarinn og leikstjórinn Agnar Jón Egilsson leikstýrir, Pálmi Sigurhjartarson er tónlistarstjóri og Rósa Rún Aðalsteinsdóttir dansstjóri. 

Það er vel þekkt að leiklistarstarf menntaskólanna getur verið góður stökkpallur fyrir ungt fólk sem vill reyna fyrir sér í leiklistinni í framtíðinni. Nýlegt dæmi er meðal annars samfélagsmiðlastjarnan og leikarinn Aron Már Ólafsson. Hann lék í leikritinu Kæra Jelenu þegar Verslunarskólinn setti það upp á sínum tíma. Á síðasta ári var Kæra Jelena svo útskriftarverkefni Arons og nokkurra bekkjarfélaga hans. Kæra Jelena var sýnt í Borgarleikhúsinu og kláruðust sýningar nú í janúar. 

Sem fyrr segir verður Alladín og töfralampinn frumsýnt 5. febrúar næstkomandi og fer miðasala fram á Tix.is.

Agnar Jón Egilsson leikstýrir.
Agnar Jón Egilsson leikstýrir. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er eitthvað sem vefst fyrir þér á vinnustað þínum. Fólk er með þrjósksta móti og því munu sennilega öll samskipti reyna á.
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er eitthvað sem vefst fyrir þér á vinnustað þínum. Fólk er með þrjósksta móti og því munu sennilega öll samskipti reyna á.