Systurnar Margrét Erla Maack og Vigdís Perla Maack ætla bjóða gestum og syndandi í sundballettíma í Vesturbæjarlaug í kvöld klukkan 20:00. Reikna má með miklum hlátri í bland við samhæfðar mynsturæfingar og taumlausa gleði.
Tíminn fer fram ofan í lauginni, nánar tiltekið í grynnri enda djúpu laugarinnar og fara systurnar fram á að þátttakendur séu fullsyndir. Blaðamaður heyrði Sundballethópnum Eilífðinni eins og þessar syndandi systurnar kjósa að nefna tvíeykið sitt.
Skemmtum óvart hótelgestum
Systurnar stofnuðu Sundballethópinn Eilífðina fyrir fjórum árum síðan við sundlaugarbakka á hóteli sem þær gistu á með móður sinni í Katalóníuhéraði. Þeim systrum leiddist að liggja á sólbekk og fóru í átt að sundlauginni til að kæla sig þegar þær tóku eftir því að fjöldi hótelgesta veitti þeim óvænta athygli.
„Við skildum ekkert í þessari athygli sem við vorum að fá frá gestunum þegar við gengum í átt að sundlauginni en við kunnum alveg að meta hana og ákváðum að gera bara gott úr þessu og fíflast smá,“ segja systurnar.
Þær stungu sér í laugina og byrjuðu einhvern grafalvarlegan samhæfðan fíflagang. Við það heyra þær hrópað frá hótelgestum: „Þarna eru þær!“ Það voru gestir hótelsins að bíða eftir skemmtiatriði dagsins á vegum hótelsins sem var ekki mætt í laugina á réttum tíma. „Hótelgestirnir héldu að við værum skemmtiatriðið,“ segja systurnar.
Sundballerínurnar undirbúa sig andlega fyrir danskennslu
Ljósmynd/Aðsend
Mamma hristi hausinn og skammaðist sín
Systrunum fannst undarlegt að hótelið hafi ekki haft samband við þær til að skemmta aftur í lauginni. Þær tóku hinsvegar þá ákvörðun sjálfar að gera þetta daglega og fengu góðan stuðning af bakkanum þar sem mamma systranna tók upp myndbönd sem þær greindu svo um kvöldið til að skoða hvað betur mætti fara í „Höfrungnum“ sem er síðasta sundtak/dans ballethópsins.
Aðspurðar hvort mamma þeirra hafi ekki viljað vera með svara þær: „Nei, hún var góður stuðningur á bakkanum en stundum hrissti hún hausinn og skammaðist sín smá. Hjálp hennar var alveg ómetanleg þar sem myndbandsupptökur hennar gerðu það að verkum að við gátum fullkomnað „Höfrunginn“ sem þið megið ekki missa af á föstudagskvöldið [í kvöld] í Vesturbæjarlaug.“
Höfum beðið eftir þessu tækifæri í 4 ár
Eftir að systurnar komu heim úr Katalóníuferðinni settu þær nokkur myndband af sundballetinum á samfélagsmiðla og viðbrögðin létu ekki standa á sér. Þær voru hvattar til að halda æfingar segja systurnar: „En einhvern veginn þá gafst aldrei tími til þess að halda æfingar. Svo núna sóttum við um styrk frá Sumarborginni og munum halda fimm svona sundballettíma í sumar í Sundhöllinni og Vesturbæjarlaug.“
Systurnar taka lífinu ákaflega létt „en við tökum fíflagangi grafalvarlega,“ segja þær og hvetja fólk til að mæta tímanlega og taka þátt í æfingum á borð við þvottavélina, selinn og að ógleymdum „Höfrungnum.“
„Við hlökkum alveg ótrúlega til, og vonum að þssir tímar gleðji þátttakendur jafnmikið og okkur. Við fundum það mjög sterkt á æfingunum í upptakti að þessu hvað við þurftum á þessum fíflagangi að halda,“ segja systurnar og eru það orð að sönnu. Það verður grafalvarlegur samhæfður fíflagangur í Vesturbæjarbæjarlaug í kvöld því við þurfum á því að halda.