Vangelis látinn

Vangelis er látinn.
Vangelis er látinn. AFP

Gríska tónskáldið Vangelis er látinn, 79 ára að aldri. Vangelis var frumkvöðull í raftónlist, en hann er þekktastur fyrir tónlist sína í kvikmyndunum Chariots of Fire og Blade Runner. 

Samkvæmt talsmönnum hans lést Vangelis á sjúkrahúsi í Frakklandi, þar sem hann var undir læknishendi. 

Vangelis fæddist 29. mars 1943 sem Evángelos Odysséas Papathanassíou. Hann byrjaði í fyrstu hljómsveitinni sinni árið 1963 þar sem hann spilaði á orgel, en hljómsveitin spilaði einkum popp-tónlist og Bítlaábreiður. Hljómsveitin lagði upp laupana árið 1966, og tveimur árum síðar fluttist Vangelis til Frakklands, þar sem hann myndaði kvartettinn Aphrodite’s Child ásamt öðrum Grikkjum í París.

Aphrodite’s Child hætti störfum 1972, en þriðja plata hennar, 666, þótti hafa mikil áhrif á framsækna rokktónlist þess tíma. Vangelis fékk tilboð um að taka við hlutverki Ricks Wakeman, hljómborðsleikara Yes, en ákvað að einbeita sér frekar að því að semja tónlist fyrir sjónvarp og kvikmyndir.  

Vangelis náði almennri heimsfrægð árið 1981 þegar kvikmyndin Chariots of Fire kom út, en hún vann til fjögurra Óskarsverðlauna, þar á meðal fyrir bestu mynd, sem og fyrir bestu tónlistina, sem Vangelis samdi. 

Lagið þykir sígildur óður til íþróttaiðkunar og að sigrast á áskorunum og hefur margoft verið vísað til þess, bæði í gamni og alvöru. Var lagið m.a. notað í opnunarathöfn Ólympíuleikanna í Lundúnum 2012, þar sem gamanleikarinn Rowan Atkinson lék hljómborðsleikara í hljómsveitinni sem þurfti að flytja það. 

Árið 1982 samdi Vangelis tónlistina fyrir kvikmyndina Blade Runner, en tónlist myndarinnar vísaði bæði til kaldrar framtíðar sem og til Film Noir-kvikmynda fjórða áratugarins. Árið 2005 tilnefndi bandaríska kvikmyndastofnunin AFI tónlistina í Blade Runner og Chariots of Fire á lista sinn yfir 25 bestu kvikmyndaskor undangenginnar aldar. 


Meðal annarra mynda sem Vangelis vann við má nefna Conquest of Paradise frá árinu 1992, sem Ridley Scott, leikstjóri Blade Runner leikstýrði. Þá samdi Vangelis tónlistina í Alexander frá 2004, og El Greco árið 2007, en það var síðasta kvikmynd hans. 

Vangelis samdi einnig tónlist fyrir ýmsa íþróttaviðburði, eins og Ólympíuleikana í Sydney árið 2000, HM í knattspyrnu árið 2002 og Ólympíuleikana í Aþenu árið 2004. Þá samdi Vangelis tónlist og gaf út plötur og kom síðasta plata hans út í fyrra. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler