Kallað eftir að TikTok skerist í leikinn

Andrew Tate birti þessa mynd af sér á Instagram þar …
Andrew Tate birti þessa mynd af sér á Instagram þar sem hann er með 4,5 milljónir fylgjenda. Ljósmynd/ Andrew Tate

Undirskriftalistar, fjölmiðlaumfjallanir og herferðir hafa skotið upp kollinum þar sem markmiðið er að fá Andrew Tate úthýst af samfélagsmiðlum, einkum TikTok þar sem hann á sér í dag um 3,5 milljóna fylgjendahóp. Að stærstum hluta eru fylgjendur hans ungir karlmenn, en á TikTok geta börn átt aðgang frá 13 ára aldri.

Áhyggjur hafa verið viðraðar vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem myndbönd Andrews Tate kunna að hafa á hugarheim fylgjenda hans og þannig á samfélagið. Þá þykir áhyggjuefni út af fyrir sig að myndbönd hans nái eins mikilli dreifingu og raun ber vitni.

Emory Andrew Tate III er fæddur árið 1986 í Bandaríkjunum en ólst upp í Luton í Englandi. Hann varð heimsmeistari í bardagagreininni „kick-box“ og kom svo fram í þáttunum „Big Brother.“

Hann var rekinn úr þáttunum eftir að það birtist myndband af honum að berja konu með belti. Seinna fullyrtu hann og konan í sameiginlegri yfirlýsingu að barsmíðarnar hefðu verið með samþykki konunnar og því ekki um ofbeldi að ræða.

Allar götur síðan hefur Tate viðrað umdeildar skoðanir sínar á samfélagsmiðlum. Árið 2017 var aðgangi hans á Twitter lokað fyrir tilstilli fyrirtækisins vegna ítrekaðrar hatursfullrar orðræðu hans, sem beindist einkum gegn konum og samkynhneigðum. Lét hann meðal annars þau orð falla að konur ættu að axla ábyrgð á því kynferðisofbeldi sem þær verði fyrir.

127 þúsund nemendur

Á skömmum tíma hefur Tate tekist að byggja upp gríðarstóran hóp fylgjenda. Í dag er nafn hans slegið inn í leitarvél oftar en nafn raunveruleikaþáttastjörnunnar Kim Kardashian eða Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

Samhliða TikTok aðganginum heldur Tate úti námskeiði á netinu ásamt bróður sínum, sem ber yfirskriftina „Harkaraháskólinn.“ Þar miðla þeir einna helst fjárhagslegum ráðum til áskrifenda sinna, sem telja í dag um 127 þúsund einstaklinga.

Samfélagsmiðillinn TikTok byggist einna helst á algrími og fá notendur því upp myndbönd án þess að velja þau sérstaklega. Þess í stað velur algrímið þau fyrir hönd notenda út frá notendahegðun þeirra. Nokkrir reikningar deila efni frá Tate á TikTok og þannig líður sjaldan á löngu þar til berskjaldaðir notendur fá fyrstu myndböndin inn á sína TikTok veitu. Mörg myndböndin eru nokkuð saklaus.

Til að mynda boðar Tate að karlmenn eigi ekki að eiga ketti, heldur hunda og eigi ekki að drekka vatn, heldur sódavatn. Aftur á móti birtir Tate einnig myndbönd sem ýmis hagsmunasamtök hafa bent á að séu verulega skaðleg.

Eitruð karlmennska

TikTok hefur í gildi reglur sem banna dreifingu á hatursáróðri og kvenfyrirlitningu. Eru mörg myndbönd Tates talin brjóta alvarlega gegn þessum reglum og því hefur verið kallað eftir því að aðgangi hans verði lokað á þeim grundvelli. TikTok hefur svarað þessu ákalli á þann veg að miðillinn sé að vinna í því að finna og fjarlægja efni sem brjóti gegn skilmálum fyrirtækisins.

Myndbönd Tates eru gjarnan stutt og skorinorð, þar sem hann boðar „alvöru karlmennsku“ en í erlendum fjölmiðlum hefur hann verið skilgreindur sem holdgervingur eitraðrar karlmennsku og ofbeldismenningar. Hann hefur til að mynda talað um það að þunglyndi sé ekki alvörusjúkdómur og konur séu eign karlmanna. Þær séu best geymdar inni á heimilinu og þeim sé ekki treystandi fyrir akstri bifreiða. Þá hafa myndbönd, þar sem hann talar opinskátt um ofbeldi sem hann hefur beitt konur, vakið talsverða athygli.

Þeir sem krefjast aðgerða af hendi TikTok, telja ábyrgð hvíla á fyrirtækinu, að vernda unga notendur sína og koma í veg fyrir að þeir séu berskjaldaðir fyrir skilaboðum sem hvetji til óæskilegrar hegðunar eða viðhorfa. Það verði til þess að slík hegðun eða viðhorf verði viðtekin.

Andrew Tate er í dag búsettur í Rúmeníu, en þegar hann flutti þangað var haft eftir honum að veigamikil ástæða flutninganna væri að auðveldara væri að komast upp með nauðgun í Austur-Evrópu, og honum líkaði frelsið.

Afdrifaríkar íhlutanir

Íhlutun ríkis í hegðun borgara er eilíft þrætuepli. Hér reynir aftur á móti á íhlutun einkafyrirtækis. TikTok er kínverskur miðill, Andrew Tate er búsettur í Rúmeníu, en það efni sem hann lætur frá sér kann að hafa áhrif á hegðun og hugarheim íslenskra táninga.

Twitter er sá miðill sem hefur tekið einna afdrifaríkustu ákvarðanirnar þegar kemur að því að úthýsa notendum, sem þeir telja óæskilega, af miðlum sínum. Dæmi um það var þegar Twitter úthýsti Donald Trump þann 8. janúar árið 2021, þar sem fyrirtækið komst að þeirri niðurstöðu að tíst hans hefðu ítrekað brotið í bága við skilmála miðilsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson