Hver getur drepið konuna mína?

Tim Lambesis meðan allt lék í lyndi árið 2010.
Tim Lambesis meðan allt lék í lyndi árið 2010. AFP/Frazer Harrison

„Heyrðu, lagsi. Veistu um einhvern sem gæti drepið fyrir mig konuna mína?“ Eitthvað á þessa leið komst Tim Lambesis, söngvari bandaríska málmkjarnabandsins As I Lay Dying, að orði við ónefndan viðmælanda sinn á líkamsræktarstöð í Oceanside í Kaliforníu vorið 2013. Viðmælandinn mat það svo að honum væri alvara og gekk í að koma honum í samband við dularfullan mann sem kallaður var „Rauður“.

Í framhaldi af því mæltu þeir sér mót, Lambesis og „Rauður“. Sá síðarnefndi spurði hvort hann vildi í raun og sann „losna“ við eiginkonu sína til átta ára, Meggan Murphy, en hún hafði skömmu áður sótt um skilnað frá honum. Saman áttu þau þrjú ung börn, öll ættleidd frá Eþíópíu. „Já, það er það sem ég vil,“ mun Lambesis hafa svarað. Að því búnu dró hann 1.000 dollara upp úr pússi sínu, andvirði 144.000 króna, fyrir kostnaði, ljósmynd af eiginkonu sinni, heimilisfang hennar og talnalykilinn að hliðinu fyrir framan húsið. Þá nefndi Lambesis nákvæmlega hvenær hann vildi að verknaðurinn yrði framinn enda ætlaði hann á sama tíma að vera með börnum sínum og tryggja sér þannig skothelda fjarvistarsönnun. Hann virtist vera búinn að hugsa málið í þaula. Samið var um lokagreiðslu, 20.000 dollara, andvirði tæplega 2,9 milljóna króna.   

Í stað þess að handsala samkomulagið tók „Rauður“, söngvaranum að óvörum, upp handjárn og læsti þeim um úlnliði hans. Hann reyndist sumsé vera lögreglumaður í dulargervi. 

Neitaði upphaflega sök

Þegar hann kom fyrir dóm neit­aði Lambesis upphaflega sök og lögmaður hans bætti við að steraneysla hefði verulega laskað dómgreind hans á þessum tíma en Lambesis er mikill áhugamaður um vaxtarrækt. Að því búnu var hann látinn laus gegn tryggingu, þrátt fyrir að saksóknari héldi því fram að hann væri bæði líklegur til að leggja á flótta og hættulegur almenningi. Dómarinn brást við því með því að tengja Lambesis við staðsetningartæki og setja hann í farbann.

Níu mánuðum síðar breytti Lambesis um afstöðu og játaði sök. Hann var í framhaldinu dæmdur í sex ára fangelsi. Meðan Lambesis sat inni dró helst til tíðinda að hann höfðaði mál á hendur fangelsinu vegna vanrækslu en það neitaði honum um lyfið anastrozole sem hefur þann tilgang að draga úr fráhvörfum vegna steraneyslu. Bótakröfu hans, að upphæð 35 milljónir dollara, var vísað frá.

Lambesis hlaut reynslulausn laust fyrir jólin 2016 og er nú laus allra mála gagnvart yfirvöldum fangelsismála vestra. Hann kvæntist á ný ári síðar.

Lambesis fór yfir þetta mál í nýlegum hlaðvarpsþætti Chris Garza, gítarleikara dauðkjarnabandsins Suicide Silence, og kvaðst hálfpartinn ekki hafa verið með sjálfum sér á þessum tíma. „Hugsanir mínar voru svo einangraðar í mínum eigin heimi og aftengdar baklandi mínu að ég gerði mér enga grein fyrir því hversu hressilega ég hafði týnt sjálfum mér og mínum grunngildum,“ sagði söngvarinn. Fram kom að hann hefði fundið sig aftur og væri nú líkari þeim manni sem hann var fyrir allar þessar hremmingar. Og reynslunni ríkari að auki.

„Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu. Ég týndi sjálfum mér og sat þarna í fangaklefanum og spurði mig: Hvernig varð ég að þessum manni?“ bætti Lambesis við. Þegar þokunni létti og hann fór að sjá skýrt á ný áttaði hann sig á villu síns vegar.

Börnin efst í huga

Hann segir börnin hafa verið sér efst í huga þegar hann tók ákvörðun um að láta drepa eiginkonu sína; óttinn við að missa þau fyrir fullt og fast hafi ruglað hann í ríminu. Sú tilfinning hafi verið yfirþyrmandi. „Enda þótt maður sé tilbúinn að gera hvað sem er til að halda í sambandið, sem skiptir mann mestu máli í þessu lífi, er ekki þar með sagt að það leiði til skynsamlegustu niðurstöðunnar. Þar sem ég sat í klefanum mínum sá ég að ég hefði getað höndlað þetta mál á þúsund aðra vegu. Það er skelfilegt til þess að hugsa að ég hafi á þessum tíma verið á þeim stað að þetta virkaði besta lausnin á vandanum.“

Nánar er fjallað um Tim Lambesis í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson