Reynt að þjónusta nemendur við erfiðar aðstæður

Skólar leggja mikla áherslu á velferð og tengsl við nemendur …
Skólar leggja mikla áherslu á velferð og tengsl við nemendur í því ástandi sem nú er uppi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Undanfarnar vikur hafa verið mjög erfiðar en nú er allt kapp lagt á að reyna að þjónusta nemendur eins og hægt er í mjög breyttu og nýju umhverfi,“ segir Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Samkomubann tók gildi á Íslandi 16. mars síðastliðinn vegna mikillar útbreiðslu kórónuveiru. Á sama tíma var framhaldsskólum og háskólum lokað og tekin upp fjarkennsla. Leik- og grunnskólum er enn haldið opnum þótt þar sé starfið takmarkað og í verulega breyttri mynd.

Þorsteinn segir skólastjórnendur grunnskóla hafi rætt hvort betra væri að loka þeim skólum einnig. Það sé þó lögð höfuðáhersla á að fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis og yfirvalda í faraldrinum.