Hvar eru innflytjendurnir?

Skóli fyrir alla? | 17. október 2020

Hvar eru innflytjendurnir?

Aðeins 2% háskólanema á Íslandi eru innflytjendur með íslenskan ríkisborgararétt segir Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, en hún kynnti niðurstöður tveggja rannsókna á stöðu innflytjenda í háskólum á Íslandi í Menntakviku menntavísindasviðs Háskóla Íslands nýverið.

Hvar eru innflytjendurnir?

Skóli fyrir alla? | 17. október 2020

Ásrún Matthíasdóttir er lektor við Háskólann í Reykjavík.
Ásrún Matthíasdóttir er lektor við Háskólann í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Aðeins 2% háskólanema á Íslandi eru innflytjendur með íslenskan ríkisborgararétt segir Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, en hún kynnti niðurstöður tveggja rannsókna á stöðu innflytjenda í háskólum á Íslandi í Menntakviku menntavísindasviðs Háskóla Íslands nýverið.

Aðeins 2% háskólanema á Íslandi eru innflytjendur með íslenskan ríkisborgararétt segir Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, en hún kynnti niðurstöður tveggja rannsókna á stöðu innflytjenda í háskólum á Íslandi í Menntakviku menntavísindasviðs Háskóla Íslands nýverið.

Ólík þróun eftir uppruna

Eitt af því sem strax vekur athygli er ólík þróun skólasóknar, það er fjöldi nemenda sem sækir skóla miðað við mannfjölda á sama aldri og með sama uppruna, innflytjenda í háskóla og innlendra í háskóla eftir aldri á tímabilinu 2008-2017. Þar sést að tölurnar yfir innflytjendur er eins og kúrfa, hún fer upp og nær hámarki um mitt tímabilið en leitar síðan niður að nýju. Ólíkt því sem er með innlenda þar sem hlutfallið er svipað í gegnum allt tímabilið.

Ásrún segir að miðað við þau gögn sem rannsóknarhópurinn hafi undir höndum viti þau ekki hvað skýri þessar sveiflur. Það er eins og hópurinn hafi breyst. Til dæmis fer 31% 21 árs innlendra ungmenna í háskóla á meðan aðeins 15% þeirra sem eru innflytjendur. Sami aldur en gífurlegur munur eftir uppruna fólks, segir Ásrún.

Að sögn Ásrúnar fékk samráðsvettvangur jafnréttisfulltrúa háskólanna styrki úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála og Þróunarsjóði innflytjendamála til að rannsaka stöðu kynmenningar við val á námsgrein í háskólum og tækifæri og hindranir í háskólanámi á Íslandi með hliðsjón af uppruna og kyni. Hluti rannsóknanna fellst í að greina gögn um innflytjendur frá Hagstofu Íslands og benda niðurstöður til þess að sumir hópar einstaklinga með erlent ríkisfang sæki síður nám við háskóla á Íslandi.

Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands önnuðust rannsóknirnar og var að sögn Ásrúnar fyrst skoðað hvaða gögn væru til.

„Strax þar komu fyrstu vandamálin – að skilgreina þennan hóp - innflytjendur. Ef við horfum bara á innflytjendur í háskólum þá eru allir skiptinemendurnir þar á meðal. Fullt af fólki sem kemur hingað til lands til þess eins að læra og svo er það farið héðan. Það er ekki sá hópur sem við höfum áhuga á að rannsaka heldur sá hópur sem býr hér á Íslandi og ætlar sér að búa hérna. Hefur kannski alist upp hér og þekkir ekki annað en vera búsettir á Íslandi.“

Íslenskukunnátta á heimili skiptir máli

Það getur verið erfitt að finna þennan hóp þar sem fólk er á svo mismunandi forsendum kallað innflytjendur. Því innflytjendur eru skilgreindir sem allir þeir sem eiga foreldra eða afa og ömmur sem eru fædd erlendis. Þeir sem eiga annað hvort afa eða ömmu eða annað foreldrið fætt erlendis eru ekki innflytjendur. Það þurfa báðir foreldrar og allir afar og ömmur að vera fædd erlendis samkvæmt skilgreiningu Hagstofu Íslands segir Ásrún.

„Allir sem eiga annað foreldri af erlendum uppruna tilheyra því ekki hópnum samkvæmt skilgreiningunni en þetta er oft hópur sem þarf að skoða sérstaklega varðandi íslenskukunnáttu til að mynda. Það þyrfti að skoða þennan hóp betur því mörg þeirra eru alin upp að hluta erlendis í öðru málumhverfi. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að ef til að mynda móðirin er erlend þá er hún miklu duglegri við að kenna barninu sitt tungumál heldur en pabbinn. Hennar íslenskukunnátta skiptir miklu máli þegar kemur að stuðningi við nám barnsins á Íslandi.

Íslenskukunnátta, ekki bara barns heldur foreldra, skiptir miklu máli í skólagöngu barnsins. Þessir krakkar ljúka síður framhaldsskóla,“ segir Ásrún.

„Í okkar rannsóknum skoðuðum við bara háskólanema og það verður að hafa í huga að stór hluti ungmenna sem eru með innflytjendabakgrunn ná aldrei inn í háskólana þar sem þau ljúka aldrei framhaldsskólanámi,“ segir Ásrún.

Samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands voru innlendir háskólanemar á Íslandi 16.127 talsins árið 2017. Innflytjendur voru 1.723 og börn innflytjenda 43 talsins. Þetta sama ár er kynjamynstrið svipað hjá hópunum þremur, mikill meirihluti þeirra sem eru í háskólanámi eru konur. Munurinn er enn meiri meðal innflytjenda heldur en innlendra, segir Ásrún. Hún segir þann galla vera á rannsókninni að ekki sé vitað hver áhrif skiptinema eru en þó gefur hópurinn innflytjendur með íslenskt ríkisfang okkur mynd af ástandinu.

Konur líklegri til að fara í nám

Spurð út í skýringuna á þessu, að meðal innlendra sé hlutfall kvenna 64% og karla 36% en meðal innflytjenda séu konur 72% þeirra sem eru í háskólanámi en karlar aðeins 28%, segir Ásrún að gögnin segi ekki til um hvað valdi.

„Við höfum aðeins tölurnar undir höndum en þetta er eitthvað sem þyrfti að rannsaka frekar. Sennilega er auðveldara fyrir minna menntaða stráka að fá vinnu en stelpur og í hópi innflytjenda eru einstaklingar sem koma hingað aðeins til að vinna og ætlar sér aldrei að fara í nám. Hver sem ástæðan er fyrir komunni fyrir til Íslands þá eru konur líklegri til að fara í nám,“ segir hún.

Kynjamunur í háskólanámi er mismunandi eftir greinum og staðan hefur lítið breyst frá árinu 1997. Kynjamunur í háskólanámi í heilbrigðis- og velferðargreinum er til að mynda mikill. Þar eru 78-85% nemenda konur og er hærri talan hlutfall kvenna úr hópi innflytjenda.  Aftur á móti eru karlar fleiri í  raunvísindum, stærðfræði og tölvunarfræði og gildir það um bæði innflytjendur sem og þá sem eru fæddir á Íslandi. 

 Ásrún segir að vandinn byrji strax í framhaldsskóla því þau ljúka ekki námi og þar sem þau geti aðeins skoðað þá sem eru í háskóla sé málið flókið.

„Við viljum finna þá sem búa hér, eru um tvítugt og ættu að koma í háskólanám. Því við viljum vita hvað hægt er að gera til að auka raunverulegt aðgengi þessa hóps að háskólanámi. Að skapa þær aðstæður að þau séu líklegri til að ljúka námi. Þetta gæti haft jákvæð áhrif á aðra og ýtt undir að þeir sæki sér frekari menntun,“ segir Ásrún.

Spurð út í hvað mætti gera betur bendir Ásrún á að það séu engar reglur hjá háskólum á Íslandi varðandi tungumál verkefna sem er skilað, ellegar að almenna reglan sé að námsmat sé á íslensku nema annað sé tekið fram. Háskólinn í Reykjavík er með þá stefnu að vera tvítyngdur sem þýðir að kennarar eiga að leyfa nemendum að skila á öðru tungumáli en íslensku, sérstaklega ensku og mest allt meistaranám er á ensku. Hún segir að sér vitandi hafi ekki aðrir háskólar sett sér slíka stefnu heldur sett það í hendur á hverjum kennara fyrir sig.

Áfram verður unnið úr þeim gögnum sem eru fyrirliggjandi og …
Áfram verður unnið úr þeim gögnum sem eru fyrirliggjandi og eins tekin viðtöl við rýnihópa starfsmanna háskólanna sem sinna þjónustu við nemendur. Háskóli Íslands/Krist­inn Ingvars­son

„Þetta fælir eflaust einhverja frá þar sem innlendir hafa hér forskot á aðra. Svo erum við líka með alveg hinn pólinn þar sem bæði kennsla og verkefnaskil eru á ensku á sumum brautum. Þar þurfa íslensku krakkarnir að tala og skrifa á ensku og kannski enginn aðrir í stofunni en Íslendingar,“ segir Ásrún.

Hún segir að þetta sé gert til að þjálfa ungt fólk í að tjá sig í ræðu og riti á öðru tungumáli en íslensku enda sýni rannsóknir að margt ungt fólk horfir til þess að búa annars staðar en á Íslandi í framtíðinni. Og fyrir þá sem ætla í rannsóknir þá eru jú skrif oft á ensku og nauðsynlegt að fá þjálfun í því. 

Ofboðslega fáir innflytjendur í háskólanámi

 Þegar Ásrún er spurð út í hvað hafi komið henni mest á óvart við rannsóknirnar segir hún það vera hversu ofboðslega fáir innflytjendur eru í háskólanámi eða aðeins tæplega 15% 21 árs gamalla innflytjenda svo dæmi séu tekin.

„Það virðist sem að þeir sem meira að segja klára framhaldsskóla fari ekki í háskóla og þetta er mikil sóun á hæfileikum. Við verðum að koma meira á móts við þennan hóp og snúa þessari þróun við,“ segir Ásrún.

Hún segir að áfram verði unnið úr þeim gögnum sem eru fyrirliggjandi og eins tekin viðtöl við rýnihópa starfsmanna háskólanna sem sinna þjónustu við nemendur, svo sem námsráðgjafa og alþjóðafulltrúa. 

Markmiðið sé að fá betri skilning á hvort þessi hópur leitar eftir þjónustu og aðstoð og hvort vandamál þeirra séu ólík vandamálum annarra háskólanema. 

Ásrún Matthíasdóttir segir að vandinn byrji strax í framhaldsskóla því …
Ásrún Matthíasdóttir segir að vandinn byrji strax í framhaldsskóla því þau ljúka ekki námi. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is