Á sjötta hundrað hafa látið lífið

Ísrael/Palestína | 24. september 2024

Á sjötta hundrað hafa látið lífið

Ísraelsher hefur í dag gert fleiri árásir sem beinst hafa að innviðum Hisbollah-samtakanna í suðurhluta Líbanon.

Á sjötta hundrað hafa látið lífið

Ísrael/Palestína | 24. september 2024

Ísraelsher hefur í dag gert fleiri árásir sem beinst hafa að innviðum Hisbollah-samtakanna í suðurhluta Líbanon.

Ísraelsher hefur í dag gert fleiri árásir sem beinst hafa að innviðum Hisbollah-samtakanna í suðurhluta Líbanon.

Heilbrigðisyfirvöld í Líbanon greina frá því að 558 hafi látið lífið í hörðum árásum Ísraelsmanna í Líbanon frá því í gær, þar af 50 börn. Þá hafi tæplega 1.900 manns særst.

„Hingað til hefur heilbrigðisráðuneytið skráð 558 dauðsföll, þar á meðal eru 50 börn og 94 konur,“ segir heilbrigðisráðherrann Firass Abiad. 

Sameinuðu þjóðirnar segja að tugþúsundir hafi flúið heimili sín síðan í gær vegna harðnandi sprengjuárása Ísraela.

Tugir þúsunda manna þvingaðir frá heimilum sínum

„Tugir þúsunda manna voru þvingaðir frá heimilum sínum í gær og fjöldinn heldur áfram að vaxa,“ segir Matthew Saltmarsh, talsmaður flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Sprengjuárásin á Líbanon í gær var sú langstærsta og mannskæðasta frá því stríð braust út á Gasasvæðinu þann 7. október á síðasta ári.

Hisbollah hefur í morgun skotið tugum loftskeyta í átt að norðurhluta Ísraels. Hernum tókst að stöðva flestar þeirra en nokkrar þeirra ollu skemmdum á byggingum að sögn talsmanns Ísraelshers. Hisbollah-samtökin segja að árásir á Ísrael muni halda áfram þar til vopnahlé komist á á Gasa.

Rústir í borginni Baalbeck í Líbanon eftir loftárásir Ísraelsmanna.
Rústir í borginni Baalbeck í Líbanon eftir loftárásir Ísraelsmanna. AFP

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur lýst yfir miklum áhyggjum yfir hraðri stigmögnun átakanna og Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, hefur varað við allsherjarstríði.

Ravina Shamdasani, talskona réttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, segir að stofnuninni sé mjög brugðið vegna vaxandi ófriðar milli Ísraela og Hisbollah-samtakanna og hún hvetur alla aðila til að binda enda á ofbeldið og tryggja vernd óbreyttra borgara.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur sent fleiri hermenn til Miðausturlanda vegna ástandsins en áður höfðu verið sendir þúsundir hermanna á vettvang ásamt herskipum, orrustuþotum og loftvarnarkerfum.

Hisbollah getur ekki staðið eitt gegn Ísrael

Masoud Pezeshkian, forseti Írans, sagði í viðtali við CNN að Hisbollah geti ekki staðið eitt gegn Ísrael.

„Hisbollah getur ekki staðið eitt gegn landi sem er varið og stutt af vestrænum ríkjum, Evrópulöndum og Bandaríkjunum,“ sagði forsetinn.

Rússar segjast hafa áhyggjur af stöðunni og sagði Dmitri Peskov, talsmaður Kreml, við fréttamenn að hætta væri á útþenslu átakanna og þar með algjörum óstöðugleika á svæðinu.

„Ég er með skilaboð til íbúa í Líbanon. Stríðið er ekki við ykkur, það er við Hisbollah,“ segir Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.

mbl.is