Framtíð VG óskýr

Alþingiskosningar 2024 | 1. desember 2024

Framtíð VG óskýr

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að baráttumál flokksins eigi enn erindi í íslensk stjórnmál, þrátt fyrir það afhroð sem flokkurinn hefur goldið í kosningunum í dag.

Framtíð VG óskýr

Alþingiskosningar 2024 | 1. desember 2024

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að baráttumál flokksins eigi enn erindi í íslensk stjórnmál, þrátt fyrir það afhroð sem flokkurinn hefur goldið í kosningunum í dag.

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að baráttumál flokksins eigi enn erindi í íslensk stjórnmál, þrátt fyrir það afhroð sem flokkurinn hefur goldið í kosningunum í dag.

„Við munum finna þeim farveg, hvernig sem það mun vera gert,“ segir Svandís í samtali við mbl.is. Flokkurinn fær ekki þingsæti samkvæmt fyrstu tölum í yfirstandandi alþingiskosningum.

„Það er auðvitað alvarleg staða fyrir fyrst og fremst þessa skýru félagshyggju og vinstri sjónarmið,“ segir hún.

„Ég hef miklar áhyggjur af umhverfissjónarmiðum miðað við þessa mynd sem er að málast upp,“ segir hún enn fremur og tekur fram að staðan sé „mikið umhugsunarefni“. Hún segir flekahreyfingar hafa orðið í íslenskum stjórnmálum.

Hvað svo?

Heldurðu að flokksmenn séu enn til í að taka þátt í flokksstarfinu og hugsa hvernig þið eigið að byggja ykkur upp fyrir næstu kosningar?

Svandís svarar og bendir á að VG hafi mælst utan þings frá því í maí og hafi aldrei náð að hreyfa sig þaðan síðan þá.

„Það hefur verið við mjög ramman reip að draga og staðan er erfið. En við höfum á sama tíma verið að byggja upp grasrótina og fólk hefur verið að koma til baka.“

Hún segist finna fyrir góðri stemningu í hópnum og heyra hljómgrunn fyrir málstað flokksins.

„En við þurfum líka kjósendur,“ bætir hún við. „Til þess að geta stigið næstu skref. Þannig að nú þurfum við bara að ráða ráðum okkar eftir að þessi úrslit liggja fyrir, sem verður mögulega seint í nótt, og við þurfum einhverja daga til að velta því fyrir okkur.“

Þannig að þetta er ekki endirinn fyrir Vinstri græna?

Svandís svarar hvorki játandi né neitandi.

„Þetta er að minnsta kosti ekki endirinn fyrir félagshyggju og jöfnuð, ekki endirinn fyrir kvenfrelsi, fyrir loftslags- og náttúruvernd, baráttuna fyrir friði í heiminum,“ segir hún og bætir við að lokum:

„Þannig að við eigum erindi þessarar hreyfingar sem er innan Vinstri grænna, það er alveg á hreinu, og við munum finna þeim farveg, hvernig sem það mun vera gert.“

mbl.is