Dæmdur fyrir að leka upplýsingum um gereyðingarvopn í danska fjölmiðla

Frank Søholm Grevil.
Frank Søholm Grevil. AP

Fyrrum starfsmaður í leyniþjónustu danska varnarmálaráðuneytisins var í dag dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir að hafa lekið trúnaðarupplýsingum um gereyðingarvopn í Írak í danska fjölmiðla. Frá þessu greinir danska blaðið Politiken.

Það var danskur undirréttur sem kvað upp dóminn yfir manninum, Frank Søholm Grevil. Fyrir réttinum var spurt hvort Grevil hefði haft „augljósa almannahagsmuni“ í huga þegar hann lak upplýsingum um mat sérfræðinga innan leyniþjónustunnar á ógninni í Írak, í fjölmiðla, eða hvort hann hefði einfaldlega brotið landslög.

Þagnarskyldu krafist

Verjandi Grevil reyndi að sannfæra dómarana um að danska ríkisstjórnin, með Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra í broddi fylkingar, hefði reynt að gera sem minnst úr efasemdum leyniþjónustunnar um að Írakar ættu í raun gereyðingarvopn. Fram kom í máli Grevil og verjanda hans að ákvörðunin um að ráðast inn í Írak hefði verið svo stór, að almenningur hefði átt rétt á að fá nánari upplýsingar um hvað lá að baki henni.

Dómarar í undirrétti töldu hins vegar að aðgerðir Grevil hefðu ekki verið réttlætanlegrar í ljósi þeirrar þagnarskyldu sem krafist hefði verið í starfi hans hjá leyniþjónustunni.

Dómarar í undirrétti Kaupmannahafnar voru sammála um þetta og dæmdu Grevil til hálfs árs fangelsisvistar.

Grevil áfrýjaði strax dómnum og lýsti sig saklausan af ákærunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka