Noregur er ríkasta land Norðurlanda

Mikið hefur verið rætt um olíugróða Norðmanna og hvað hann hafi gert fyrir efnahagslíf landsins. Athugun norsku hagstofunnar á vergri þjóðarframleiðslu landsins hefur leitt í ljós að Noregur er ríkasta land á Norðurlöndum. Það er hins vegar ekki ríkasta land álfunnar því Lúxemborg trónir á toppnum.

Hagstofan í Noregi (SSB) birti hagtölur sínar í gær. Í niðurstöðum hagstofunnar kom í ljós að verg þjóðarframleiðsla í Noregi á síðasta ári var næst hæst í löndum Evrópu. Var hún 53 prósentum hærri en að meðaltali í öðrum löndum álfunnar. Þá var hún 30 prósentum hærri en í Svíþjóð og Finnlandi.

Lúxemborg hefur vinninginn með mesta verga þjóðarframleiðslu. Fast á hæla Noregs voru Írland, Sviss og Austurríki. Pólland og Grikkland ráku svo lestina með um þriðjung af vergri þjóðarframleiðslu Noregs.

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka