Á miðnætti 22. september 2003 lenti Boeing-farþegaþota með sjö manns innanborðs á lítið notuðum flugvelli djúpt inni í furuskóginum í norðausturhluta Póllands. Allir um borð voru með bandarísk vegabréf. Pólskir embættismenn sem greint hafa frá þessu segjast aftur á móti ekki vita til þess að um borð hafi verið al-Qaeda-liðar sem Bandaríkjamenn höfðu tekið til fanga.
Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja að lending þotunnar á vellinum í Szczytno-Szymany hafi verið liður í leynilegum flutningum fanga til Póllands og Rúmeníu þar sem þeir hafi verið pyntaðir. Yfirvöld í Póllandi segjast ekkert vita um fangaflutninga, og bandarískir embættismenn hafa hvorki viljað staðfesta fullyrðingar samtakanna né hafna þeim.
Mannréttindasamtökin hafa komist yfir leiðarbækur flugvéla bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, frá 2001-2004 og þar er m.a. skráð ferð Boeing 737 þotu frá Washington til Kabúl í Afganistan í september 2003 með millilendingu í Tékklandi og Úsbekistan. 22. september lenti þessi vél í Szczytno-Szymany, hélt þaðan til Rúmeníu og Marokkó og loks til bandarísku herstöðvarinnar við Guantanamoflóa á Kúbu.
Pólskir embættismenn segja vélina hafa haft um klukkustundar viðdvöl á vellinum. Um borð hafi verið sjö menn með bandarísk vegabréf, og fimm til viðbótar, einnig með bandarísk vegabréf, fóru um borð í Szczytno-Szymany. Fyrrverandi yfirmaður flugvallarins sagði að tollverðir hafi ekið út að vélinni á flugbrautinni, en þeir sem um borð voru hafi ekki farið frá borði og inn í flugstöðvarbygginguna. Kvaðst yfirmaðurinn ekki vita hvaðan vélin hafi verið að koma eða hvert hún hafi farið.