Norskir fjölmiðlar segja í dag að flugvélar sem tilheyri leppfyrirtæki bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, hafi farið um norska lofthelgi eða lent á norskum flugvöllum nýlega. Talið er að þessar flugvélar séu notaðar til að flytja fanga. Stavanger Aftonblad segir að ein þessara véla hafi flogið yfir Stafangur fyrir mánuði á leið frá Reykjavík til Búdapest í Ungverjalandi.
Flugvélar þessar hafa að minnsta kosti tvisvar lent á norskum flugvöllum á þessu ári eða farið gegnum norska lofthelgi frá því fangavél lenti á Solaflugvelli við Stafangur í júní.
Stavanger Aftonblad hefur eftir Pelle Dragsted, þingmanni danska Einingarlistans, að Gulfstream III-flugvél með skráningarnúmerið N50BH hafi verið á Óslóarflugvelli þann 20. júlí í sumar en haldið síðan til Parísar. Vitað er að þessi vél tilheyrir CIA. Að sögn blaðsins Chicago Tribune hefur þessi flugvél oft farið til herstöðvarinnar í Guantanamoflóa á Kúbu.
Þá kemur fram að flugvél, sem fór frá Íslandi til Búdapest í október og sagt hefur verið frá í íslenskum fjölmiðlum, fór gegnum norska lofthelgi og flaug yfir Stafangur.
Einkaflugvélar þurfa ekki sérstakt leyfi til að fljúga í gegnum norska lofthelgi en herflugvélar og flugvélar sem eru á vegum ríkisstjórna þurfa hins vegar að sækja um leyfi til slíks flugs samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum. Það var ekki gert þegar flugvélin lenti á Sola í sumar. Stavanger Aftenblad segir að norsk stjórnvöld hafi ekki fengið svör við fyrirspurnum sínum um málið vegna þess að bandarísk stjórnvöld tjá sig aldrei um mál sem tengjast CIA.