Utanríkisráðherra Þýskalands styður rannsókn ESB á fangaflugi CIA

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, á blaðamannafundi í Berlín á fimmtudag.
Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, á blaðamannafundi í Berlín á fimmtudag. AP

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, lýsir yfir áhyggjum af fréttum þess efnis að fangaflugvélar bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, hefðu millilent á flugvellinum í Frankfurt í viðtali við vikublaðið Bild am Sonntag, sem kemur út á morgun. „Utanríkisráðherrann verður að meta staðreyndir málsins, en ekki fréttir dagblaða,“ segir hann og lýsir yfir stuðningi við ákvörðun Jacks Straw, utanríkisráðherra Bretlands, sem ætlar að krefja stjórnvöld í Bandaríkjunum svara í nafni Evrópusambandsins.

Steinmeier fundar með Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á þriðjudag en ekkert er látið uppi um það í viðtalinu hvort fangaflutningarnir komi upp í viðræðum ráðherranna.

Evrópuráðið rannsakar þessa dagana hvort CIA hafi sett á laggirnar leynileg fangelsi í einhverju landa í Austur-Evrópu og flutt þangað fanga með leynilegum hætti. Hefur ráðið hvatt stjórnvöld í löndunum til að láta af hendi allar upplýsingar sem þær kunna að hafa um málið.

Bandarísk stjórnvöld hafa ekkert látið uppi um hvort þau hafi starfrækt leynileg fangelsi í löndunum en ríkisstjórnir í austantjaldslöndunum neita staðhæfingum þessa efnis.

Þýska dagblaðið Berliner Zeitung greindi frá því í dag að fangaflutningavélar CIA hafi lent á flugvöllum í Evrópu að minnsta kosti 15 sinnum á þessu ári. Þá er því haldið fram að vélar leyniþjónustunnar hafi margoft haft viðdvöl á flugvellinum við Ramstein herstöð bandaríska hersins í Þýskalandi á árunum 2002 til 2004. Jafnframt er frá því greint, að stjórnvöld í Austurríki hafi hafið rannsókn á því hvort vél CIA hafi flogið yfir lofthelgi landsins með grunaða hryðjuverkamenn á leið sinni frá Frankfurt áleiðis til Aserbaídjan árið 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert