CIA-flugvél sögð hafa farið frá Keflavík til Frakklands árið 2002

Franska blaðið Le Figaro segir frá því í dag að flugvélar á vegum bandarísku leyniþjónustunnar, sem notar hafa verið til að flytja fanga, hafi millilent í Frakklandi í að minnsta kosti tvö skipti. Fyrra skiptið var árið 2002 en þá kom flugvél af gerðinni Learjet frá Keflavíkurflugvelli og lenti á flugvellinum í Brest og hélt síðan áfram til Tyrklands.

Blaðið segir, að vélin hafi haft einkennisstafina N221SG, og hún hafi hafi farið frá Keflavík kl. 13:36 þennan tilgreinda dag, 31. mars 2002. Embættismenn á flugvellinum í Brest sögðu blaðinu, að áhöfn vélarinnar hafi fullyrt að engir farþegar væru um borð og vélin væri á leið til Rómar.

Hitt skiptið var í júlí á þessu ári en þá lenti flugvél af gerðinni Gulfstream III eftir flug frá Ósló.

Breska blaðið Guardian segist hafa séð upplýsingar um að flugvélar á vegum CIA hafi lent yfir 300 sinnum á evrópskum flugvöllum á undanförnum árum. Dermot Ahern, utanríkisráðherra Írlands, sagði eftir viðræður við Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í gær, að Rice myndi í næstu viku gefa yfirlýsingu vegna ásakana um að CIA reki leynileg fangelsi í Evrópu þar sem meintir hryðjuverkumenn eru hafðir í haldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert