Evrópuþingið samþykkti að hefja rannsókn á fréttum um CIA-fangelsi

Þingmenn Evrópuþingsins samþykktu að hefja rannsókn á fréttum um leynileg …
Þingmenn Evrópuþingsins samþykktu að hefja rannsókn á fréttum um leynileg fangelsi í Evrópuríkjum. Reuters

Evrópuþingið samþykkti í dag að hefja rannsókn á því hvort leynileg fangelsi á vegum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, sé að finna í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Hvatti þingið einnig leiðtoga Evrópusambandsins til að kanna málið og aðildarríki ESB til að aðstoða við rannsókn, sem þegar er hafin á vegum Evrópuráðsins.

Í ályktun, sem Evrópuþingið samþykkti í Strassborg í Frakklandi í dag, eru leiðtogar Evrópusambandsins, sem sitja nú á fundi í Brussel, hvattir til að rannsaka þetta mál.

Í frumskýrslu sem Evrópuráðið hefur birt segir að ásakanir um leynileg CIA-fangelsi séu trúverðugar og að Bandaríkin virðist hafa látið ræna einstaklingum og hneppa þá í varðhald utan við lög og rétt.

Í ályktun sinni segist Evrópuþingið hafa þungar áhyggjur af ásökunum um að CIA hafi látið ræna mönnum og flytja þá í leynileg fangelsi þar sem þeir sæti illri meðferð. Einnig lýsir Evrópuþingið áhyggjum af því að hugsanleg leynileg fangelsi sé að finna í aðildarríkjum Evrópusambandsins eða í ríkjum sem sótt hafa um aðild að ESB.

Ákveðið verður í janúar hverjir sitja í rannsóknarnefnd Evrópuþingsins og hvaða umboð hún fær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert