Stjórn George W. Bush í Bandaríkjunum sneri í gær við blaðinu og samþykkti kröfur hins áhrifamikla öldungadeildarþingmanns repúblikana, John McCains, um ótvírætt bann við pyntingum af öllu tagi. Áður hafði forsetinn sagt að slík lög myndu binda um of hendur starfsmanna leyniþjónustunnar, CIA, í baráttunni gegn hryðjuverkum.
Báðar deildir þingsins samþykktu í vikunni með miklum meirihluta yfirlýsingu um stuðning við algert bann gegn pyntingum á föngum í höndum Bandaríkjamanna, einnig því sem nefnt hefur verið niðurlægjandi meðferð á föngum.
Bush hafði áður hótað neitunarvaldi gegn lögum af þessu tagi. Hann sagði í gær að samkomulagið myndi sýna allri heimsbyggðinni að stjórn hans léti ekki pynta fanga og "við hlítum ákvæðum alþjóðlegra sáttmála [gegn pyntingum], hvort sem er heima fyrir eða utan landsins". McCain, sem sat við hlið forsetans á skrifstofu hans í Hvíta húsinu er hann tjáði sig um þessa stefnubreytingu, var að vonum ánægður. "Við höfum sent heiminum þau skilaboð að Bandaríkjamenn séu ekki eins og hryðjuverkamennirnir," sagði McCain.